Var að fá eftirfarndi í tölvupósti:

Iceland Express, nýtt íslenskt lággjaldaflugvélag, stefnir að 12% markaðshlutdeild í millilandaflugi en tilkynnt var formlega um stofnun félagsins í dag. Áformað er að hefja áætlunarflug 27. febrúar milli Íslands og Kastrupflugvallar í Kaupmannahöfn annars vegar og Íslands og Stansteadflugvallar við Lundúni hins vegar. Ódýrasta fargjald til Kaupmannahafnar og Lundúna verður 4950 krónur hvora en með flugvallarsköttum kostar ferðin fram og til baka til Lundúna 14.160 krónur og til Kaupmannahafnar 14.660 krónur.

Sala farmiða hefst 9. janúar. Hægt verður að kaupa farmiða á Netinu, í síma, á söluskrifstofu og hjá ferðaskrifstofum. Flogið verður einu sinni á dag til hvorrar borgar, sjö daga vikunnar, allan ársins hring. Brottför til Kaupmannahafnar verður að morgni dags og til Lundúna um miðjan dag. Gert er ráð fyrir að á ársgrundvelli verði um 40 þúsund sæti í boði á fargjöldum sem kosta á bilinu 14 til 19 þúsund krónur báðar leiðir með flugvallarsköttum. Gert er ráð fyrir að fargjöld félagsins ráðist af markaðsaðstæðum og geti því verið breytileg milli daga, vikna og mánaða. Þannig geti hæsta fargjald t.d. verið mismunandi frá einni brottför til annarrar. Gert er ráð fyrir að hæsta fargjald verði á bilinu 15–19 þús. kr. aðra leiðina án flugvallarskatta.

Fram kom á blaðamannafundinum að notuð verður 148 farþega Boeing 737-300, flugvél sem fengin er á samningi frá breska flugrekstrarfélaginu Astraeus. Áhöfn í farþegarými verður íslensk. Flogið verður á flugrekstrarleyfi Astraeus.

Iceland Express er til húsa í að Suðurlandsbraut 24. Rúmlega 20 manns munu starfa á skrifstofu fyrirtækisins og fimmtán flugþjónar að auki í fullu starfi hjá félaginu. Búið er að ráða í flestar stöður. Jóhannes Georgsson, fyrrum framkvæmdastjóri SAS á Íslandi, er framkvæmdastjóri Iceland Express, en ásamt honum eru í hópi stofnenda félagsins Sigurður I. Halldórsson, lögmaður, Guðmundur Þ. Guðmundsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri, Aðalsteinn Magnússon, rekstrarhagfræðingur, Hafsteinn Árnason, framkvæmdastjóri AirCare, fyrrum stöðvarstjóri SAS og Atlanta, Ólafur Hauksson, framkvæmdastjóri Boðbera almannatengsla, Sighvatur Blöndahl, viðskiptafræðingur og Lúðvík Georgsson, Commercial Manager Worldwide, IKEA.

Þetta eru verð fyrir hin almenna borgara.