Datt í hug að rita niður bráðum sex ára farsímaferilskránna mína svona til gagns og gamans:

1) Motorola d520: Mynd. Uppáhalds síminn minn. Hinir einföldu tímar þegar símar voru bara símar. Eina aukadótið sem gaman var að var útdraganlegt loftnet sem að hægt var að nota til að gefa selbit með. Hann bilaði aldrei, tjah fyrir utan dauðdagan, þeas.
Dauðdagi: Vinur minn missti hann ofan í fullt glas af bjór. :(

2) Nokia 3210: Mynd. Úff!! Þessi sími var nú meiri hausverkurinn, en Snake var skemmtileg nýjung. Hann fraus oft og slökkti á sér og svo entist batteríið tæplega út skóladaginn. Fór tvisvar í viðgerð, í fyrri viðgerðinni var mér fengið nýtt batterí, það entist í 12 klst í bið. mikill munur þar. Seinni viðgerðin, fékk nýjan síma, hann var alveg eins og sá fyrri; fraus og slökkti a sér og entist bara í 12 klst.
Dauðdagi: Var stolið í partýi.

3) Motorola V100: Mynd. Snilldar sími! Held að þetta hafi verið fyrsti samlokusíminn og einn þeirra fyrstu sem voru með WAP. Svo var hægt að taka upp hljóð með honum. Ég var sjúklega fljótur að skrifa SMS a þessu. Alger draumur fyrir utan það að ekki var hægt að tala í hann án þess að vera með headset. -Og ég var mjög duglegur að skemma þessi headset í vinnunni.
Dauðdagi: Gafst upp á þessu headset veseni þegar ég fékk næsta síma gefins. En ég á þennan sima ennþa og hann virkar fínt fyrir utan það að ég er uppiskroppa með headset enn á ný.

4) Nokia 8310: Mynd. Þessir símar kostuðu um 60.000kr. á sínum tíma og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa ekki þurft að borga fyrir hann (vinur minn vann hann í skjáleiknum og gaf mér hann í jólagjöf, sem var alls ekki amalegt!), þó hefði ég viljað fá eitthvað borgað með honum. Hann lét ósköp svipað og 3210 síminn, en ég kvarta ekki undan batteríinu á þessum. Hann fraus mikið og slökkti á sér. Þetta kvikindi fór 8 sinnum í viðgerð áður en hann hvarf á dularfullan hátt. Þrisvar fékk ég nýjan síma í þessu viðgerðarbrjálæði, en allir voru þeir eins. Ég var reyndar mjög hrifinn af snjóbrettaleiknum sem var í honum og svo var líka útvarp, en það þurfti headset til þess að hlusta og ég var búinn að fá mig fullsaddan af svoleiðis græjum í bili.
Dauðdagi: Drakk of mikið niðri í bæ og hann var horfinn þegar ég vaknaði daginn eftir… Hef líklega hent honum út í tjörn eftir að hann fraus enn eina ferðina.

5) Nokia 3510i: Mynd. Pólýtónar!! Fjandi gaman af þeim, en versta var að þessi sími bauð aðeins upp á vissar tegundir þeirra, þannig að hann spilaði kanski bara svona 1/6 af pólýtónunum sem hægt var að ná í, og þá aðeins þá einföldustu. Hann átti það einnig til að crasha þegar ég var á WAPinu. Skjárinn var lélegur af litaskjá að vera og allar myndir og hreyfimyndir komu kubbóttar og asnalegar út ef þær voru ekki sérstalega meðhöndlaðar í tölvu fyrir þennan síma. Ég fór aldrei með hann í viðgerð þrátt fyrir einstaka crash.
Dauðdagi: Hann dó ekki, ég seldi hann til þess að geta keypt mér betri síma.

6) Sony Ericsson T300: Mynd. Þessi var frábær! Aldrei neitt að honum og hann gat spilað allt sem að flokkaðist undir MIDI/pólýtóna. Það fylgdi með honum áfestanleg myndavél. Með betri símamyndavélum sem ég hef séð (Hér er dæmi). Gat spilað alla Java leiki, hvort sem þeir voru hannaðir fyrir Nokia eða Ericsson. Einnig var hægt að búa til eða sækja nýtt útlit á stýrikerfi símans og var ég mikið í því.
Dauðdagi: Grýtti honum í dyravörð og síðan seinna af alefli í götuna á fylleríi… Virkar fínt ennþá, en skjárinn er brotinn.

7) Sony Ericsson T610: Mynd. Síminn sem ég er með núna og búinn að eiga hann í níu mánuði og ekkert sem að angrar mig enn sem komið er. Getur allt sem að fyrri SE síminn gat og meira til, en nú er myndavélin innbyggð og ekki eins góð og sú fyrri. Myndirnar eru smærri, en þó svipaðar í gæðum. Hægt er að kaupa flass sem að maður festir undir hann ef maður vill taka myndir í myrkri og ég fékk mér svoleiðis. Það er reyndar fullsterkt því að fólk er oft frekar grettið á svip þegar ég tek myndir með flassinu. Skemmtilegast þykir mér Bluetooth/Blátannabúnaðurinn, þá get ég tengt síman og fartölvuna saman þráðlaust úr a.m.k. 6 metra fjarlægð. Þegar tölvan og síminn eru tengd saman get ég: Farið á netið hvar sem er, notað símann sem fjarstýringu á DVD forritið, Tónlistarforritið, músina, PowerPoint gæruforritið o.fl. (einnig er auðvelt að búa til nýjar skipanir, þannig að hægt er að bæta við öllum þeim forritum sem maður þarf), svo get ég hent hringitónum og myndum af netinu inn á símann auðveldlega og svo sömuleiðis hringitónum og myndum inn á tölvuna þegar minni símans er að fyllast, að lokum get ég með einum hnappi fært dagatalið úr tölvunni yfir á símann og þá er ég kominn með t.d. stundatöfluna inn á símann.

Mín reynsla segir að Nokia símarnir séu óstöðugustu símarnir, en ég hef bara reynt síma frá Sony Ericsson, Motorola og Nokia.

Þó ég segi að ég sé ekki hrifinn af Nokia símunum, þá þýðir það alls ekki að ég sé að segja að þeir séu langverstir og að enginn ætti að kaupa þá.
Það er svo margt sem getur spilað inn í, svo sem:

Heppni: Flestir myndu segja að ég hafi verið einstaklega óheppinn með Nokia síma og kanski mjög heppinn með Motorola og/eða SE símana.

Stolt: “Ég á Motorola síma (sem að bilar oft, en vegna þess að ég á þannig síma þá segi ég engum frá því) sem að bilar aldrei og Motorola eru langbestir í heimi og geimi!!!
Ath. að þetta hér að ofan var bara dæmi, persónulega veit ég ekki til þess að Motorola símar séu að bila neitt mikið.

Val á síma: velja vel og þá ætti maður að verða ánægð/ur.