ég ákvað að demba mér á kaf í GSM-hyldýpið til að átta mig á því sem er að gerast í gemsunum. ég spjallaði við innflytjendur þeirra síma sem í boði eru hér á landi til að frétta hvað sé væntanlegt á næstunni. Um leið bað ég þá um að benda mér á nokkra af sínum helstu símum sem ýmist eru í sölu eða eru væntanlegir til þess að veita lesendum örlitla innsýn í hið mikla úrval síma sem í boði eru. Þar að auki fjallaði ég örlítið um hin mörgu hugtök sem eru í umræðunni um tækni GSM-síma svo þeir sem ekki hafa sett sig inn í hana geti betur skilið hvað er á ferðinni.
Byrjum á nokkrum athyglisverðum staðreyndum: Samkvæmt nýlegum könnunum eru hvorki meira né minna en 95% Íslendinga á aldrinum 16 til 75 ára með GSM-síma eða hafa aðgang að slíkum tólum. Og ekki nóg með það, heldur benda kannanir til þess að fjórðungur gemsanotenda skipti um síma árlega og yfir 70% gera það á a.m.k. þriggja ára fresti. Innan skamms rennur svo upp mesta símakaupatímabil ársins – sumarið – en gemsamarkaðurinn lýtur öðrum lögmálum en markaðurinn með flest önnur raftæki varðandi það að jólin eru ekki helsta vertíðin. Sennilegasta ástæðan er sú, samkvæmt því sem símasalar sem Tölvuheimur ræddi við, að yfir sumarið eignast skólafólkið meiri peninga og það er einmitt yngsta kynslóðin sem leggur hvað mest upp úr því að vera með nýjustu og flottustu símana