Síminn býður takmörkuðum fjölda viðskiptavina að taka þátt í reynsluverkefninu - þráðlaus gagnaflutningur í farsíma með aðstoð GPRS-tækninnar. Með þráðlausum gagnaflutnings samskiptum er hægt að fara inn á fréttasíðu, safna gögnum og vera samtímis í talsíma sambandi. Síminn tekur á móti símhringingum þó gagnaflutningur sé í gangi, en gagnaflutningurinn er settur á bið meðan á símtali stendur. Aðgengi að WAP verður töluvert öðruvísi en áður hefur þekkst, en með GPRS-símtækinu verður hægt að tengjast WAP tengipunkti Símans, wap.is, og fá þaðan aðgang að þeim frétta- upplýsinga-, og leikjaveitum sem þar eru.
Þessi nýja þráðlausa tækni mun veita þeim er mikið eru á ferðinni aukið frjálsræði og samnýtast þeim sem nota ferðatölvur mikið. Sítenging fartölvunnar við Internetið verður möguleg, hvenær sem er og hvar sem er. Notandinn getur tengst Internetinu og skoðað tölvupóstinn sinn eða leitað uppi spennandi vefsíður. Fartölvunotandinn þarf að hafa GPRS-síma sem hann tengir við fartölvuna sína. Til að nýta sér þessa þráðlausu gagnaflutningstækni þurfa viðskiptavinir að kaupa sér sérstaka síma en Síminn hefur til sölu GPRS-síma frá Motorola. Það er eini framleiðandi símatækja í heiminum sem framleiðir GPRS síma í dag fyrir almenna sölu. Um er að ræða símtæki sem að stofni til eru WAP-símar en með GPRS-tækninni að auki. Símarnir eru sérstaklega uppsettir fyrir kerfi Símans svo nýting þjónustunnar gangi sem best fyrir sig.

Viðskiptavinum Símans sem vilja taka þátt í þessu verkefni eða vilja fræðast meira um GPRS er bent á að leita upplýsinga á heimasíðu fyrirtækisins, www.siminn.is, hafa samband við verslanir eða hringja í þjónustuver. Síminn er með þessu að gefa viðskiptavinum sínum tækifæri á að þreifa á framtíðar farsímaþjónustu. GPRS-tæknin sem er byggð ofan á núverandi GSM kerfi, er grundvöllur þessarar nýju þjónustu og hefur gjarnan verið kölluð 2,5GSM með vísan til þess að þriðja kynslóð farsíma, sem væntanleg er innan nokkurra ára, er stundum kölluð 3GSM.

Gagnaflutningshraði tenginga er mest háður símunum og í upphafi verður hann upp undir 30 kbit/sek en væntingar eru um að þessi afköst fari upp í um 40 kbit/sek með nýrri símum sem koma væntanlega á markað undir mitt árið. Til samanburðar er mesti gagnaflutningshraði í farsíma í dag 9,6 kbit/sek.

Viðskiptavinir eru boðnir velkomnir í þetta samstarfsverkefni við Símann um að nýta sér í takmarkaðan tíma og án gjaldtöku - þráðlausan gagnaflutning í farsíma með aðstoð GPRS tækninnar. Verkefnið stendur fram til 1. maí næstkomandi. Umfang verkefnisins er háð þeim fjölda símtækja sem eru til sölu nú í upphafi, en takmarkanir á fjölda GPRS símtækja er það helsta sem hamlað hefur þróun þessarar þjónustu í Evrópu síðustu mánuði.