Farsímar - Neysluvara! Fólk er fífl, og annað fólk sem er alveg jafn mikið fífl nýtir sér það óspart til að fylla pyngju sína með skæsi sem það síðan nýtir í tilgangslausa fíflalega hluti.

Síðastliðin ár hefur gsm-bylgjan riðið svo hart yfir heiminn að nú er svo komið að hver og einn einasti maður er kominn með gsm síma. Er það vel. Sjálfur er ég með gemsa og er ekki út úr húsi án hans. En meginmál greinar minnar er þetta: Að eyða 40.000 kalli í gsm síma er sú allra mesta heimska, fylgni, skilyrðing og bjánaskapur sem maður gæti látið eftir sér.

Fyrir það fyrsta: Gsm símar skemmast með ógnvænlegum hraða. Ef frá er talinn hin goðsagnakennda 5110 lína nokia þá endist ekki einn einasti gsm sími í meir en rúm tvö - þrjú ár (give or take 1 ár). Það kalla ég að sturta pening niður um klósettið.

Annað: Með síminnkandi og sídýrari símum eykst hættan á að hann týnist, eða sé stolið. Hvað hefur ÞÚ átt marga síma?

Þriðja, og það sem mér finnst fyndnast: Óþarfi sem fylgir símanum sem er eingöngu til staðar svo að símafyrirtækin raki inn enn meira skæsi. Nýjasta draslið er MMS, Svo Miklu Meiri Skilaboð! Svo miklu meira kjaftæði! Krakkar eru tankar fullir af nýjungagirni og úr þeim er tappað pengingum beint í vasa fyrirtækja sem raka inn peningum á sms leikjum, smskosningum, poppspjalli og núna gsm myndasímum. “Sentu vinum þínum mynd af sjálfum þér í partý til að undirstrika það að þú átt sko víst vini” auglýsingin virðist vera að virka því plebbar og plebbur hlaupa nú til og sturta fötum af pening í klósett stórfyrirtækjana.

Sparið ykkur pening, sleppið stöðutáknunum og kaupið ykkur notaðan síma á þúsundkall í staðinn fyrir þessa stanslausu hringavitleysu. Hverjum er ekki sama hvort sími sé með litaskjá eða ekki? Hringir hann eitthvað betur? Ertu mikið að horfa á litaskjáinn þinn á meðan þú ert að röfla við mömmu þína í símann?

Sími er bara sími.