Sælir.

Fyrst ætla ég að taka fram að ég tengist engu fjarskiptafyrirtæki á nokkurn hátt þar sem menn eru umsvifalaust grunaðir um einhver tengsli þegar skrifað er hérna á hugann.

Ég ásamt svo mörgum fleiri færði mig yfir til Halló með von um hagstæðari símgjöld. Það gekk reyndar eftir, símareikningurinn minn lækkaði þó nokkuð. En það er annað sem ekki var tekið fram þegar ég færði mig yfir. Kannski best að það komi fram hérna ég er að tala um heimilissíma, en mig grunar nú að það sama eigi við um farsíma.

Það er svolítið merkilegt að það getur ekki hver sem er hringt í mig. Faðir minn t.d. sem er búsettur erlendis fær einhver skilaboð lík þessum þegar hann hringir: “Aðeins valdir aðilar geta haft samband við þetta númer. Því miður ert þú ekki einn af þeim”.

Nú velti ég því fyrir mér, hver velur þá aðila sem mega hafa samband við mig? Ekki valdi ég þá að minnsta kosti. Eftir nánari eftirgrennslan kemur í ljós að ef hringt er í gegnum ýmis símafyrirtæki sem vilja bjóða lág verð, líkt og Íslandssími/Halló eru að reyna, þá hleypa þeir ekki símtölunum í gegn.

Ég spyr, hef ég ekki heimtingu á því þegar ég sæki um símaþjónustu hjá þessu fyrirtæki að mér sé tjáð að það geta ekki allir hringt í mig? Það kæmi mér ekki eins á óvart ef um væri að ræða að ég væri hringja þetta ÚR símanum mínum, en þegar einhver er að reyna að hringja Í mig? Hvað er það?

Það er hreint óþolandi þegar menn eru prettaðir hvað eftir annað til að skipta við einhver fyrirtæki sem halda því fram að þeirra þjónusta sé algjörlega sambærileg við þjónustu samkeppnisaðila og svo kemur eitthvað svona í ljós.

Ég hef ekki enn náð sambandi við þetta svokallaða þjónustuver þeirra til að fá að segja mína skoðun og heyra þeirra á þessu máli, þar sem mér er bara aldrei svarað. Ég var núna að bíða t.d. í 40 mínútur og þá fannst mér komið nóg þannig að ég lagði á.

Eru það svona fyrirtæki sem við viljum versla við? Ég er allvega á leiðinni aftur til Landssímans með skottið milli lappana og ætla að grátbiðja þá um að taka við mér aftur þrátt fyrir að ég hafi ekki verið þeim neitt sérstaklega trúr.