Mort Viðutan unglingurinn Mort er of, tja, viðutan til þess að geta tekið við fjölskyldufyrirtækinu (sem byggist á að rækta vínber í víngerð áður en fræjunum er sáð. Þannig að ef það gleymist að sá fræjunum eftir uppskeru þá rifnar tími og rúm í… sáið bara fræjunum, það einfaldar allt). Faðir hans ferð með Mort á vinnumarkaðinn, sem er markaður þar sem verslað er með vinnu og þeir reyna að koma Mort í lærlingsstöðu einhversstaðar. Þegar klukkan slær tólf á miðnætti Galtarsjónsnóttu (Hogswatchnight, mér finnst alltof gaman að reyna að þýða hluti) birtist kuflklædd vera á hvítum hesti og býður Mort starf. Mort samþykkir en fær brátt bakþanka, þar sem að vera lærlingur dauðans er ekki það sem hann dreymdi um.

Blindaður af ást á prinsessu nokkurri breytir Mort rás tímans á einu augnabliki, þar sem tveir raunveruleikar vindast saman. Dauði í öðrum, líf í hinum.

Góð bók, fyrir þá sem eru komnir lengra inn í Diskheim. Vísindalegar kenningar Pratchett eru kannski ekki sérlega vísindalegar, en skemmtilegar þó. Dauðinn fær á sig þann blæ sem á eftir að einkenna hann sem dýpstu, útpældustu og skemmtilegustu persónu Diskheims. Söguþráðurinn sjálfur er ekki upp á marga fiska, leiðinlegur ef eitthvað er og síst það afl sem dregur mann áfram í gegnum söguna, en persónur á borð við Albert, Dauðann og Cutwell auk frábærra pælinga á bak við tíma, dauða og rúm halda manni við efnið. Og ekki má gleyma einstökum húmor Pratchett sem er þarna búinn að taka á sig þá mynd sem mun einkenna aðrar Diskheimssögur.
Ég mæli ALLS EKKI með henni fyrir byrjendur, og mæli með að geyma hana þar til eftir Pyramids, þegar Dauðinn er orðinn áhugaverðari.

Einkunn: 5,0

Flokkur: Dauðinn

Útgáfuár: 1987

Nr. 4 í Discworld bókaröðinni