Equal Rites Galdramaðurinn Drum Billet veit að dauði sinn nálgast og ferðast til afksekkts þorps þar sem áttundi sonur áttunda sonar mun brátt fæðast, en slíkt merkir að örlög viðkomandi sé galdramennska. Hann hefur uppi á fjölskyldunni og lætur færa nýfætt barnið til sín. Drum lætur barnið fá allan sinn galdramátt og staf og deyr vitandi að áttundi sonur áttunda sonar hefur fengið mátt til þess að verða mikill galdramaður. Það sem hann vissi því miður ekki, er að þetta var áttunda dóttir áttunda sonar.

Sagan fylgir uppvaxtarárum Eskarina Smith og dularfullum atvikum allt frá fæðingu hennar. Svín, hjálpsöm tré, þrjóskur galdrastafur og úlfar í kafi í þróunarkenningunni. Frá nornaþjálfun hennar til ferðarinnar til Ankh-Morpork, borginni sem er jafn ógeðfelld og hún er stór, lærir Esk að stundum er góður galdur ekki öflug sprenging.

Hver hefur heyrt um kvenkyns galdramann?

Ein af bestu Discworld bókunum sem að ég hef lesið. Húmorinn er ekki jafn augljós og í hinum bókunum og minnir á fyndna kvikmynd (ég bjóst oft við því að sjá Pratchett bregða fyrir í cameo). Söguþráðurinn er eins og þroskasaga, Esk er sú persóna sem er hvað mest lifandi, maður finnur fyrir henni. Það er aldrei leiðinleg stund í bókinni, ávallt annaðhvort spenna, húmor eða upplifanir Esk á heiminum sem að maður lifir sig inn í. Endir bókarinnar er að vísu mikil vonbrigði, og alls ekki það sem að maður bjóst við. Leiðinlegur, langur og passar engan veginn inn í bókina. Endirinn og það að galdrakallar segja „átta“ án þess að kikna (en í fyrri bókum gátu þeir ekki sagt átta) er það eina sem dregur bókina niður, annars frábær. Ádeilan á kynjamismunun er ekki jafn góð og maður myndi halda, en fær mann þó að hugsa ögn um stöðu kvenna í fantasíubókmenntum.

Einkunn: 7,5

Flokkur: Nornir

Útgáfuár: 1987

Nr. 3 í Discworld bókaröðinni