Fyrstu kynni af Sookie Stackhouse Bók sem fjallar um vampírur, þótt það sé í annars tiltölulega venjulegum heimi, hlýtur að mega flokka sem ævintýrabókmenntir þegar ekki hefur komið ný grein á áhugamálið í rúmlega hálft ár.

Dead Until Dark er fyrsta bókin í bókaflokki um samskipti manna og vampíra í suðurríkjum Bandaríkjanna og sem sjónvarpsþættirnir True Blood eru byggðir á. Ég hef ekki séð sjónvarpsþættina sem m.a. hafa verið sýndir á Stöð 2 og var lestur bókarinnar því mín fyrstu kynni af aðalpersónunni, hinni mennsku en óvenjulegu, Sookie Stackhouse.
Ég ljóstra ekki upp neinum mikilvægum þáttum í söguþræðinum. Þeir sem eru rosalega spenntir fyrir bókinni og vilja ekkert vita fyrirfram ættu samt að lesa bókina áður en þeir lesa áfram.

Í heimi Dead Until Dark eru vampírur nýlega orðnir löglegir borgarar. Það þýðir að fólk veit af þeim en veit lítið um þær sem elur af sér fordóma jafnt sem forvitna áhangendur. Vampírurnar sjálfar eru líka ennþá að venjast þessum nýja möguleika til lífs. Sumar kjósa að lifa meðal manna fyrir opnum tjöldum og hlýta lögum lifandi manna en aðrar vilja halda í eldri og ofbeldisfyllri hætti.

Sookie Stackhouse er 25 ára gömul ljóshærð, sæt og saklaus þjónustustúlka á bar í norðurhluta Louisiana. Hún býr við þá bölvun að heyra hugsanir fólksins í kringum sig. Þetta hefur gert hana furðulega í augum annars fólks og valdið því að hún hefur ekki átt í nánum samskiptum við fólk utan fjölskyldu sinnar, þar með talið ekki átt kærasta. Ef einhver (eins og ég gerði) hugsar: Twilight, þá er vert að taka það fram að Dead Until Dark var fyrst gefin út árið 2001 en Twilight 2005.
Sookie hefur fylgst með umræðum um vampírur hjá Ophru en hefur aldrei séð slíka furðuveru með eigin augum fyrr en hinn myndarlegi Bill Crompton kemur inn á barinn þar sem hún vinnur. Með hjálp sinna óvenjulegu hæfileika bjargar hún lífi Bill og kynnist honum nánar í kjölfarið. Svo skemmtilega vill til að Sookie virðist ekki geta heyrt hugsanir vampíra og þau verða par.

Um þetta sama leyti eru tvær ungar stúlkur í bænum myrtar. Báðar stúlkurnar hafa átt í nánum samskiptum við vampírur og reiði fólks magnast í garð vampíra að því marki að Sookie sér ástæðu til að vera vör um sig og Bill. Þar leggst ofan á að hún kynnist nokkrum kunningjum Bill sem eru vampírur og líst ekki vel á þann félagsskap.
Spennan er í því fólgin hvort lögreglan nái að hafa hendur í hári morðingjans áður en hann nær til Sookie og áður en æstur múgurinn snýst gegn hinum saklausa Bill… og hvort samband Sookie og Bill muni lifa af?

Það var erfitt fyrir mig, sem er vön að taka mínar vampírur alvarlega, að gera eitthvað annað en það. Fyrstu kaflana sveiflaðist ég fram og til baka: á ég að hlægja, á ég ekki að hlægja? Svo ákvað ég að hlægja. Þetta hlyti að vera hugsað sem paródía. Ég ætla allavega að halda áfram að taka Sookie mátulega létt.
Aðallega held ég að það sé einfeldningsháttur Sookie sem gerir mér erfitt að taka söguna alvarlega. Að vissu leyti er hún barnaleg en að nokkru leyti felst einfeldningshátturinn í æðruleysi og þeim góða sið að flækja lífið ekki meira en nauðsynlegt er.

Þetta æðruleysi finnst mér það ferskasta í bókinni. Af því sem að ofan er sagt má sjá að söguþráðurinn er ekki sérlega frumlegur og persónusköpun ekki voðalega djúp. Persónur bókarinnar eru ósköp venjulegt smábæjarfólk (fyrir utan þá sem drekka blóð og lesa hugsanir) sem flest vinnur verkamanna- eða þjónustustörf. En fólkið er að mestu sátt við líf sitt og aðstæður sínar sem mér fannst hressandi tilbreyting, eins furðulega og það hljómar. Það er einna helst í bókum Alexanders McCall Smiths um Kvenspæjarastofu nr. 1 sem ég man eftir svipuðum æðruleysisanda.

Samanburðurinn við kvenspæjarastofuna í Botswana er ekki alveg jafn fjarstæðukenndur og ætla mætti í fyrstu því í báðum tilfellum er um að ræða ráðgátubækur (mysteries). Dead Until Dark fékk verðlaun í flokki ráðgátu-kilja þegar hún kom út árið 2001. Sookie hefur samt ekki tærnar þar sem Precious Ramotswe hefur hælana í spæjarastörfum en þegar kemur að uppgjöri æsast leikar vissulega meira í Bandaríkjunum en í Botswana.

Eftir fyrstu bók er ég ekki sannfærð um snilldina í The Southern Vampire Mysteries eins og bókaflokkurinn hefur verið kallaður. Hvað varðar fantasíu og ævintýraheim vampíra er ekkert nýtt hér á ferðinni. Hvað varðar söguþráð, persónusköpun eða ráðgátur er líka unnið eftir þrautreyndum formúlum. Persónulega finnst mér smábæjarandinn hressandi og aðalpersónan heillandi á einhvern sakleysislegan hátt. Ekki beinlínis glimrandi meðmæli en Dead Until Dark er fín afþreying og velkomin tilbreyting við þyngri heimsbókmenntir sem ég hef sökkt mér í að undanförnu.

Til gamans eru útkomnir bókatitlar í flokknum þessir:
1. Dead Until Dark
2. Living Dead in Dallas
3. Club Dead
4. Dead to the World
5. Dead as a Doornail
6. Definitely Dead
7. All Together Dead
8. From Dead to Worse
9. Dead and Gone
10. A Touch of Dead
11. Death in the Family


Heimildir:
Wikipedia. Síðu síðast breytt 6. mars 2010. Charlaine Harris. Sótt 24. mars 2010. Slóðin er:
http://en.wikipedia.org/wiki/Charlaine_Harris#Sookie_Stackhouse_.28Southern_Vampire.29_Series
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.