Úlfabróðir Úlfabróðir


Það eru nokkrar fantasíubækur sem koma mér í sérstakt hugarástand. Það lýsir sér þannig, að á milli mín og bókarinnar myndast einhver tengsl. Ég verð algjörlega ónæmur fyrir öllu sem er að gerast í kringum mig, og ég sekk inní bókina eins og ég sé sjálfur á staðnum. Ég á auðvelt með að ímynda mér allt sem gerist, og ég finn til og hlæ með aðalpersónunum. Tengslin rofna ekki fyrr en einhver ýtir við mér, eða endurtekur nafnið mitt í sífellu, hátt! Það er alveg sama hversu oft ég les bókina, þetta kemur alltaf fyrir!

Þetta hefur vonandi komið fyrir flestalla sem að lesa þessa grein þegar þeir lesa bók sem þeim finnst virkilega góð. Bækur sem koma mér í þetta hugarástand (sem að eru auðvitað langoftast fantasíur) eru meðal annars: Narníubækurnar, Myrkraefnaþríleikurinn, Harry Potter bækurnar, Hobbitinn, Alkemistinn, og svo auðvitað Úlfabróðir!

Um bókina og höfundinn:

Úlfabróðir (Wolf Brother) er fyrsta bókin af sex, í seríunni “Sögur úr myrkum heimi” eða “Chronicles of Ancient Darkness”. Önnur bókin heitir Sálnaflakkarinn á Íslensku, en Spirit Walker á ensku. Þriðja bókin (sem kemur út á Íslandi næsta haust) heitir Soul Eater á ensku, fjórða bókin (sem er ekki komin út) Outcast, og er búið að staðfesta að fimmta bókin heiti Earth-Shaker.

Höfundur bókanna heitir Michelle Paver, og fæddist í Afríku árið 1960. Hún flutti til Bandaríkjana árið 1963. Hún varð menntaður lífefnafræðingur og seinna meðeigandi lögfræðistofu. Hún hafði þó alltaf gaman af því að skrifa.
Eftir dauða föður hennar, skildi hún að hún var ekki að gera það sem henni langaði til, þó svo að hún græddi mikinn pening.

‘I realized that I wasn't doing what I really wanted to do, and although I was earning lots of money, I'd never have time to spend it. So I decided to negotiate a year off, to get myself sorted out. At the time, that was unheard-of in a City firm. They didn't even have a sabbatical policy. But I told myself that if they said no, I'd quit anyway, and that at least gave me the courage to ask. To my astonishment, they said yes.’

Hún eyddi árinu 1997 í að ferðast um heiminn og skrifa fyrstu stóru bók sína, Without Charity. Eftir það skrifaði hún fleiri bækur, þar á meðal A Place in the Hills og Eden trílógíuna. Árið 2003 byrjaði hún að skrifa seríuna sem hún hafði lengi verið að vinna í. Úlfabróðir (Wolf Brother) kom svo út árið 2004, Sálnaflakkarinn (Spirit Walker) kom út 2005 og Soul Eater árið 2006. Hún er nú að vinna í fjórðu bókinni en á hún að koma út í september.

Söguþráður

Torak er ungur drengur sem flakkar um skóginn með föður sínum. Einn daginn ræðst illur andi í líki björns á þá og faðir hans deyr. Torak reykar þá um skóginn og kynnist Úlfi, yrðlingi sem hafði lifað af mikið flóð sem hafði drepið alla fjölskylduna hans. Torak kemst að því að með einhverjum undarlegum hætti getur hann skilið úlfamál og tekur hann því Úlf með sér. Þegar þeir eru teknir höndum af Hrafnaættbálknum kemst Torak að því að hann er hluti af ævafornum spádómi og verður hann að komast á fjall alheimsendans til að eyða birninum og bjarga heiminum. En það er alls ekki hættulaus ferð því fyrst þarf hann að finna nanúakið og björninn fylgir honum stöðugt eftir…

Persónur

Torak
Torak er aðalsöguhetja bókarinnar. Hann getur talað við úlfa og ólst upp hjá þeim þegar hann var lítill, nokkurn veginn eins og Móglí. Faðir hans dó þegar hann var 12 ára. Torak er af úlfaættinni en hrafnarnir eru einnig vinir hans. Renn, besta vinkona hans er úr henni. Annar besti vinur Toraks er Úlfur en hann er veiðibróðir hans.

Renn
Renn er besta vinkona Toraks og er af hrafnaættinni. Hún er með rautt hár og er alltaf með dýrmæta bogann sinn og örvamæli með sér. Renn kynntist Torak þegar hann veiddi inná svæði hrafnanna og þeir tóku hann til fanga. Þá hjálpaði Renn Torak að flýja og kom með honum í leitina að fjallinu. Hún er líka vinur Úlfs, þó svo að hann sé ekki jafn hændur að henni þar sem hún stakk honum eitt sinn í poka.

Úlfur
Úlfur er úlfur. Fjölskyldan hans lést í flóði og hann var sá eini sem lifði af. Eftir að hafa kynnst Torak urðu þeir bestu vinir og veiðibræður. Hann fylgir Torak fast á eftir og lætur ekkert koma fyrir þennan vin sinn.

Aðrar helstu persónur eru: Fin-Kedinn, Fa, Sálnaæturnar, Hord, Oslak o.fl.

Þess má geta að sagan gerist í skóginum mikla fyrir mörg þúsund árum. Þar áttu heima nokkrar ættir og áttu þær allar sérstök veiðisvæði. Allar ættirnar hétu eftir dýrum, s.s. Hrafnaflokkurinn, Selaflokkurin, Úlfaflokkurinn o.fl.

______________________________________________________________________

Ég hvet alla til að kíkja á þessar bækur. Þær gætu hljómað svolítið barnalega en þær gætu komið á óvart. Þær eru þá allavega mjög góðar barnabækur. Nú bíð ég bara spenntur eftir fjórðu bókinni, Outcast, og eftir myndinni sem Ridley Scott ætlar að framleiða. Takk fyrir mig.

DrHaHa.

P.S. Ég skrifaði þessa grein fyrir löngu fyrir bókaáhugamálið, en gleymdi að senda hana inn. Það passar þá allavega betur að hafa hana hér ;)