Í okkar daglega amstri eru okkur hlutir misofarlega í huga. Stundum tökum við eftir einhverju sem vekur tilfinningar með okkur, lendum í sorglegum hlutum, förum rugluð að sofa og vitum ekki alveg hvað við eigum að hugsa. En þegar við sofnum hættir huginn ekki að starfa. Hann rúllar áfram eins og hann gerði yfir daginn, nema hvað skipstjórinn, sumsé athugula meðvitundin, er í blundi, og hásetarnir eru í partíi í einni kaétunni. Ekkert taumhald er á hugsanaflæði okkar, og tilfinningalegar hugsanir flæða fram óbeislaðar af skömm okkar og athyglisbrestum. Draumar eru hugurinn okkar þegar við erum ekki að einbeita okkur að neinu, hráar hugsanir að skipa sér í minningar, fluttar til, endurraðaðar, heilinn að koma skipan á hugarrót dagsins, vinnur frameftir meðan líkaminn hvílist.

Minningar okkar hrærast þannig til missterkt í allt að þrjú ár, svo það þarf ekki að undra að fjölbreytni gætir í draumalandi. Það er gaman að muna eftir draumum, jafnvel að ná að stýra þeim smá af eigin rammleik. Þegar við vöknum endum við oft á að spá í af hverju í ósköpunum dreymdi mig þetta? Svarið er einfalt; því við höfum hugsað um það áður, og það er ekki fullunnið af hugarins hálfu. Draumar eru spennandi, frumlegir, lifandi og skrítnir. En þeir hafa ekki forspárgildi um framtíðina, og við ættum ekki að láta blekkjast af torræðum draumaráðningum neitt frekar en af spádómum Nostradamusar, ekkert frekar en við ættum að hafa varann á ef við brjótum spegil eða göngum undir stiga. Það að einhver segi að þetta þýði eitt og hitt boði annað gerir það ekki satt. Ef við föllum fyrir því, þá verðum við auðginnt í hvað sem er.