Mig dreymdi að ég væri stödd í vinnunni ásamt forstöðukonunni og strák sem ég þekkti ekki. Hann var dökkhærður með skeggrót og yngri en ég, mér fannst hann heita Tommi. Ég var að taka síðustu vaktina mína (sambýli fyrir fatlaða) þar sem ég var að hætta þarna. Forstöðukonan bað mig um að keppa á íþróttaleik fyrir Tomma klukkan 17:00 í gömlu íþróttahúsi sem minnti á íþróttahúsið við Strandgötuna í Hafnarfirði. Dóttir mín (sem þá var 1 ½ árs) var í pössun hjá ömmu sinni og var búin að vera þar í 2 daga, úti var heiðskírt og sól um sumar. Allt í einu vorum ég og Tommi sest við garðborð á ókunnum stað úti við í sólarblíðunni, hann var að skrifa á hvítt blað með rauðu bleki, og þegar ég fór að lesa það, þá voru þetta orð sem lýstu því sem að honum fannst um mig, orð eins og heiðskír, falleg, skeggjuð (!) Ég las á milli línanna að hann lagði meira í orðin en hann átti að gera, þar sem við vorum bara starfsfélagar.

Allt í einu sé ég að mamma mín er að labba með dóttur mína í regnhlífakerru og er mamma niðurlút og í gulri úlpu og afar þögul. Ég heilsa og kemur hún til mín og Tomma og er þá komin í græna peysu og dóttir mín er komin á bak við vegg með trjám og garði, en ég get samt séð hana. Ég kynni mömmu og Tomma, hann horfir ekki í augun á henni en tekur samt kröftuglega í hendina og heilsar. Svo kynni ég dóttur mína og ég klappa henni á kollinn en hún situr bara kyrr í kerrunni sinni, ég segi að dóttir mín er komin með svo skemmtilega ljósrautt hár, svo verður mér hugsað til þess að Tommi er yngri en ég og að ég er einstæð móðir, mér fannst munurinn mikill á okkur og ég velti fyrir mér stöðunni og hvað ég væri að gera, hvort ég ætti að láta þetta ganga eitthvað lengra, þá allt í einu sé ég trukk sem við vorum á ( ég hafði haft áhyggjur af trukknum áður í draumnum) sem var að losna úr handbremsu og hann rennur af stað og klessir á gult járnhlið og rennur hægt áfram á garðvegg og ég vona að hann fari ekki á bílana, út af því að það myndi kosta svo mikið. En trukkurinn rennur áfram inn í garð og á kyrrstæða bíla og síðast veit ég að hann hefur runnið inn í húsið og ég vona innilega að enginn hafi slasast og ég ímynda mér konu sem stendur inni í stofunni sinni og horfir á mig.

Svo tek ég á rás niður í íþróttahús þar sem leikurinn fer alveg að byrja, allann drauminn er þessi sólskinsblíða. Ég fer beint inn í lítið anddyri og labba beint inn í karlaklefann, þar er einn Japani sem er með öllu hárlaus og alveg ber. Ég gekk í gegnum karlaklefann og kem í stuttann marmaralagðann gang og í bjart herbergi, og áfram inn í kvennaklefann, þarna voru stelpur sem sáu mig koma út úr karlaklefanum og þær störðu á mig forviða og spurðu mig spurninga sem ég nennti ekki að svara, ég velti því fyrir mér hvort stelpurnar ættu að leika á móti strákunum (kynjabarátta??) en fór svo út í salinn, þar fór ég upp í áhorfendapallana neðarlega og reyndi að finna mér sæti, en þau voru öll svo þröng, þá kallaði maður til mín ókvæðisorðum eins og feita drusla og gerði grín að því að ég gæti ekki sest þar sem ég væri of feit, en ég sá sætislausa bekki og mér fannst ég verða að setjast hjá frekar furðulegum manni sem var hrifinn af mér, en ég var ekki hrifin af honum. Það var ekkert gólf á íþróttasalnum, bara himinn og ský og borg fyrir neðan. Furðulegi maðurinn og vinir hans voru að hugsa um að henda sér þarna niður, en þeir voru með innbyggða fallhlíf og vinur hans stökk, ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að stökkva, en svo fannst mér það ekki spennandi, svo var ég stödd á “gólfinu” og var þar fullt af fólki hingað og þangað. Það flutu skór ofan á ökkladjúpu vatninu og þarna var maður sem mér fannst heilmikið varið í, en ég hafði ekki haft neitt álit á hinum. Hann var að leita að fólkinu sem átti skóna og honum fannst þetta skrítið, eins og hann héldi að fólkið væri þarna einhverstaðar undir vatninu, en ég vissi að fólkið var horfið. Þar endaði þessi draumur, sem var þó svona ofboðslega skýr. Ég fann svo innilega sjálfa mig í þessum draumi, með allar þessar áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu.