Halló =)

Ég er að spá í að setja inn svona kork hérna á Huga. Hef ekki prófað það áður…einhvern tíman er jú allt fyrst.
Ég skráði mig hérna inn fyrir stuttu síðan, þannig að sorry ef ég er að koma með eitthvað sem hefur verið talað um milljón sinnum, ég bara nenni ómögulega að leita í gegnum alla gamla þræði og greinar.

Mig langar bara alveg voðalega mikið að tjá mig smá, var að skoða nokkra korka um trúmál hérna og mér finnst sú umræða frekar svona neikvæð. Fólk kemur með alhæfingar um að Guð sé ekki til o.sv.frv. Ég er kristin, er leiðtogi í kristilegu barna- og unglingastarfi, og mín trú er mjög mikilvægur partur af lífi mínu.

Hins vegar ætla ég ekki að koma með neinar alhæfingar. Þær eru nefnilega alveg tilvaldar til að koma af stað rifrildum, og það er ekki markmiðið með þessum þræði.
Ég ætla að byrja á því að benda á það að þetta er kallað TRÚ. Ekki “vísindalega sannaðar kenningar” eða neitt svoleiðis. Ég hef oft fengið spurninguna: Hvernig veist þú að Guð er til?? Sannaðu það.
Nei ég ætla ekki að gera það, þetta er nefnilega spurning um trú. Ég trúi á Drottinn Guð, skapara himins og jarðar o.sv.frv. Eins og við flest játuðum m.a. við fermingu.

“Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.” (Hebr. 11:1)

Ég hins vegar hef algera fullvissu í mínu hjarta (eða heila eða hvar sem þið viljið staðsetja hana) um það að yfir mér og okkur öllum vakir Guð sem hefur skapað okkur, þekkir okkur út og inn og elskar okkur nákvæmlega eins og við erum.

Ég hef upplifað margt með Guði, of margt til að mér sé mögulegt að trúa öðru en að hann sé til. Ótrúlegustu hlutir sem sýna mér það. Ég bið mikið, og þegar ég eða vinir mínir eða einhverjir eiga í vanda þá bið ég Guð um hjálp. Það er alveg ótrúlegt hvað hann svarar manni. Oft fattar maður það ekki fyrr en löngu seinna að þarna virkilega svaraði Guð bænunum.

Ég get tekið endalaust af dæmum úr mínu lífi, en ætla að láta þetta duga:
Í prófatíðinni núna í vor var ég á leiðinni í heimspekipróf. Ég var ótrúlega stressuð, því ég þoli ekki heimspeki og mér fannst ég ekki kunna neitt. Daginn fyrir prófið gerði ég glósur um helstu kallana og kenningar þeirra og eitthvað svoleiðis. Þessar glósur voru tæpar 10 bls. ef ég man rétt.
Morguninn sem prófið var vaknaði ég með stóran rembihnút í maganum. Ég var alveg handviss um það að ég væri að fara að falla. Þegar ég var í strætó á leiðinni í skólann og það var hálftími í prófið og ég ákvað að prófa að treysta bara á Guð. Hann hefur hjálpað svo mörgum öðrum, af hverju ætti hann ekki að hjálpa mér?
Ég bað stutta bæn í huganum, bað hann um að hjálpa mér að lesa nú bara það sem mundi skipta máli á prófinu, ekki eyða tímanum í eitthvað sem skipti engu máli. Svo byrjaði ég að lesa. Ég las alla leiðina í strætó og náði að lesa mjög vel 2 og hálfa bls. Þetta var eitthvað um kenningar Aristótelesar og eitthvað tvennt annað. Þegar ég kom í prófið, þá sá ég að 45% af prófinu var upp úr nákvæmlega þessum 2 ½ bls sem ég las í strætó. Mér fannst ég ótrúlega heppin, sniðug ég að lesa akkúrat þetta.
Svo áttaði ég mig á því að auðvitað var þetta augljóst dæmi um bænasvar. Og það bænasvar sem kom strax.
Ég býst við því að margir vilji kalla þetta tilviljun, eða að ég hafi alveg vitað hvað skipti máli á prófinu. Allt í lagi, þið megið trúa því. En hins vegar hef ég endalaust margar svona sögur, þessi þráður bara yrði allt of langur ef ég ætlaði að skrifa þær allar.

Ég veit samt ekki alveg af hverju ég er að setja þetta hérna… Langaði bara aðeins að tjá mig, eftir að hafa lesið miklar rökræður um trúmál.

Skítköst eru vinsamlega afþökkuð en öðru máli gildir um gagnrýni og spurningar.

Takk fyrir að lesa, þið sem nenntuð því ;)

Bætt við 14. nóvember 2008 - 14:22
…öðru máli gegnir með… átti þetta víst að vera =)
Hello, is there anybody in there?