Til að verða ekki bannaður þá tek ég það fram að þessu er “ekki” beint gegn neinum trúaraðilum. Þessi korkur er ekki gegn manneskjum heldur fjallar hann um dulspeki og hvernig hún hefur áhrif á líf og skoðanir fólks, jafnvel á íslandi í dag.

Ég var á leiðinni heim af æfingu og setti Lindina á eins og vanalega (er það ekki annars Fm 105,5 ?).
Það var svo sem ekki frásögufærandi, Sálmar með Ellen og ekkert mikið meira, nema þegar ég er að leggja heima hjá mér byrjar sögumaður að lesa upp þjóðsögu frá Þýskalandi.

Sagan fór á þann veg að í bænum Drés í N-Þýskalandi hafi verið þorp. Í þessu þorpi voru allir vellauðugir, ef eitthvað kom upp á grýtti fólk hvort annað með silfur og gullpeningum og enginn maður lagðist svo lágt að tína þá upp úr jörðinni. Ef maður missti skylding í búð kaupmannsins hafði enginn fyrir því að taka hann upp. Í þessum bæ átu hestarnir hafra, hundarnir aðeins steikt kjöt, og svínin átu bjúgu og gæða osta. Ef föt slitnuðu hafði enginn fyrir að bæta í þau, það voru aðeins keypt ný.

Þetta leist guði ekki vel á.

Auk þess hafði enginn maður fyrir því að fara í kirkju. Presturinn reyndi hvað hann gat að fá fólk til að mæta á samkundur og lofa drottinn, en það var aðeins gert gys að honum.

Einn góðan veðurdag á að gifta dóttur auðmanns og er haldin þvílík og önnur eins veisla. Öllum í þorpinu var boðið og hefur sjaldan sést annað eins óhóf í mat og drykk. Prestinum leist ekki vel á og ákvað að bregða sér frá til að sinna erindum í næsta bæ.

Þegar fólk hafði lokið við át og drykkju var haldið út til að spila keiluspil. En hvar átti að spila?
“Notum götuna, ” sagði einn bæjarbúa, “og notum bjúgu fyrir keilur.”
Það var og gert, níu bjúgum var stillt upp á götunni en útskorið brauð notað fyrir kubba.

Nú leist guði heldur illa á hvernig fólk fór með gjafir hans og lét hann ský draga fyrir sólu svo sortnaði himininn og féll skuggi yfir bæinn og veisluna.
Þá kvað einn ríkisbubbinn: “Hva, vantar ykkur eitthvað þarna uppi?”

Í sömu andrá heyrðist hvellur og elding skall til jarðar. Þegar þruman dó út og rykið settist, var bærinn og allir íbúar hans horfnir. Ekki eitt einasta hús stóð eftir.
Aðeins presturinn lifði af.

Smaladrengur hafði ákveðið að halda ekki til veislu, því hann fann á sér að eitthvað illt myndi gerast og ákvað að stefna til sama bæjar og presturinn hafði farið til. Hann hafði fundið á sér að hann ætti að halda af stað og ekki líta við. En þegar þruman drundi brá honum svo að hann leit um öxl og varð samstundis að steini.

-Þá líkur sögumaður þessari stund á orðunum: Þetta var þjóðsagan af borginni Drés og hvernig dysjarnar þrjár urðu til en enn þann dag í dag eru margir sem gætu lært af þessari sögu.


WHAT????

Ég ætla ekki að benda á hvað mér finnst athugavert við þetta.
Ég skil bara ekki hvað er mögulegt hægt að læra af þessu.
Ekki fokka í guði því he's gonna bust a cap in yo ass.

Þess má til gamans geta að þessari sögu var beint til BARNA!
Við erum alheimurinn, vaknaður til vitundar um sjálfan sig