Fyrir nokkrum nóttum dreymdi mig skrýtinn draum. Þetta var í fyrsta skiptið í meira en ár sem ég vaknaði og mundi drauminn eitthvað lengur en 5 sekúndur. Vonandi getur einhver séð hvað hann merkir:

Ég var á einhverju balli á stað nálægt heimili mínu. Fyrrverandi kærastan mín (sem er nýhætt með mér, og ég hugsa ekki um annað) var þarna og var með einhverjum en ég sá ekki hverjum. Ég fór á klósettið og settist svo fyrir utan það. Svo fór hún inná karlaklósettið með einhverjum gaur og annarri stelpu og ég tók eftir því hvað fötin hennar voru hóruleg…
ég fór inn á klósettið stuttu seinna og sá að hún var full og var að kveikja sér í sígarettu (hvorugt okkar drekkur eða reykir í alvörunni.) Eftir þetta var ég mjög áhyggjufullur og leið illa. Síðan sá ég hana seinna sofandi úti í einu horninu og ég ákvað að fara með hana heim og láta hana sofa úr sér. Ég bar hana út og braust inn í einhvern bíl (ég er ekki með bílpróf) og lagði hana í aftursætið og keyrði af stað heim. Eftir smá spöl komu allt í einu hendurnar á henni yfir bílstjórasætið og rykktu í stýrið svo að bíllinn valt. Ég lá rotaður í einhvern tíma en þegar ég rankaði við mér sá ég að hún lá í snjónum, meðvitundarlaus. Ég fann til allsstaðar en skreið samt til hennar til að gá hvort það væri allt í lagi með hana. Það hefur líklega liðið yfir mig aftur því ég rankaði við mér aftur á sama stað en þá var bæði hún og bíllinn horfinn. Þá sá ég bíl koma keyrandi og það var bróðir minn. Hann sagði að hún væri heima og hún væri óhult. Við fórum þangað og þar var hún, sofandi og bundin. Ég fór að gráta. Hún vaknaði og varð þá aftur eins góð og hún var alltaf við mig áður, og sagði: Mér var gefið annað tækifæri. Takk.

Og þá vaknaði ég. Vonandi getur einhver séð eitthvað út úr þessu. Þetta hefur valdið mér miklu hugarangri.