Í gærnótt dreymdi mig allsvakalegan draum. Ég er ekki vön að trúa að draumar þýði eitthvað en þessi var bara svo allt öðruvísi, svo sterkur. Hérna er hann, endilega segið mér ef þið hafið einhverjar hugmyndir um það hvað ég á að halda.

Ég vaknaði í rúmminu mínu eins og þetta vær bara alls ekki draumur. Samt var eitthvað öðruvísi. Það voru kettir allt í kringum mig. Þeir voru allaveganna á litinn, og allir voru þeir sérstakir persónuleikar. Mér þótti vænt um alla kettina.

Eftir smá tíma kom einn köttur upp í rúm til mín og lagðist hjá mér. Mér þótti mjög mikið til hans koma, þótti vænt um hann. Hann var svona “skjóttur”, eins og maður segir á hestamáli, veit ekki hvernig það er á kattamáli. Ég tók utan um hann og við kúrðum ótrufluð í svolítinn tíma.

Þá kom annar köttur, bröndóttur, og reyndi að komast upp í rúmmið til mín. Hann klóraði í sængina en þá stökk skjótti kötturinn upp og rak hann í burtu. Hófst þá bardagi kattanna á herbergisgólfinu hjá mér.

Þeir börðust úti um allt hús og ég og vinkona mín, sem allt í einu birtist við hlið mér, eltum þá. Við vildum losna við bröndótta köttinn, vorum að reyna að henda honum út.

Þá tók vinkona mín svona klappstól úr viði og náði að skella honum á bröndótta köttinn en þá var kominn annnar bröndóttur köttur við hliðina á honum, minni, og hann varð með undir stólnum. Minni kötturinn hryggbrotnaði og lést en sá stærri, þessi sem vildi komast upp í rúmmið til mín, hryggbrotnaði og lamaðist.

Síðan vaknaði ég, jafnvel þótt vekjaraklukkan væri ekki búin að hringja. Ég hef mínar hugmyndir um hvað þetta ætti að þýða en mig langar að heyra álit ykkar.