Gnóstíkin var sambland af gyðinglegum, persneskum og indverskum trúarhugmyndum í forngrískum (hellenskum) anda. Gnósis samsvarar bódhi sem búddha er dregið af og jnana innan jógafræðanna. Gnóstískar stefnur byggja á að frelsun fæst með innsæisþekkingu, dulrænni upplýsingu og visku en ekki trú. Að vissu leyti er hægt að þekkja Guð í gegnum sköpunarverk hans, segja gnóstíkar, en best er að þekkja hann í mannssálinni sem endurspeglar drættina í hinni guðdómlegu byggingarlist. Ef einhver þekkir sjálfan sig fær hann þekkingu á Guði og skapast í hans mynd.

Margir gnóstíkar voru meinlætamenn, trúðu á fortilveru sálarinnar og endurfæðingu. Tvíhyggjuhugmyndir um baráttu efnis og anda og frelsun sálarinnar úr viðjum líkamans einkennir heimsmynd þeirra. Guð sköpunarverksins töldu þeir vera óæðri og illskeytta veru (demiurge) sem hafði greint efnisheiminn frá andlega heiminum þar sem Guð allsherjar ríkir. Gnóstíska stefnan hafði töluverð áhrif á þróun kristninnar. Hið dulspekilega upphaf Jóhannesarguðspjalls: “Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Guð var Orðið”, er gnóstískt að uppruna. Kristnir Gnóstíkar afneituðu prestum og páfum sem meðalgöngumönnum Guðs og sóttust eftir því að öðlast aflausn með hugleiðslu og dulspekilegum leiðum.


Heimildir:

Jonas, Hans, 1903- The gnostic religion: the message of the alien God and the beginnings of Christianity / by Hans Jonas. 2d ed., rev., Boston : Beacon Press, 1963, xx, 358 s. ; 21 cm
ISBN 0807057991

Kersten, Holger, Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Pagels, Elaine, 1943- The gnostic Gospels / by Elaine Pagels., 1st ed., New York : Random House, c1979. xxxvi, 182 p. ; 24 cm. ISBN 0394502787