Mig dreymdi draum fyrir nokkru og hann var þónokkuð svakalegur. Það var þannig að ég var einn og yfirgefinn einhverstaðar í fremur úfnu landssvæði á hestbaki (ég er ekki hestamaður og hef aldrei farið á hestbak). Svo gerist það að af einhverjum orsökum dett ég af baki og lendi mjög illa á hægri hendinni (ég er rétthentur). Svo illa að allt mölbrotnar og húðin rifnar vegna hrauns sem ég lendi á og opinna beinbrota, þó sérstaklega olnboginn. Allt er svo brotið og rifið að hendin rétt hangir á smá húðsneppli. Ég er svo einhvað að reyna að ráfa til byggða þegar ég dett og hendin rifnar endanlega af.

Svo koma einskonar kaflaskil og ég er kominn lengra í draumnum, engin hendi, aðeins smá stubbur eftir (það er samt greinilega búið að útskrifa mig af sjúkrahúsi því ég er kominn heim). Í draumnum átti ég mjög erfitt með að sætta mig við handamissinn og ég fann að mér leið mjög illa. Svo endaði draumurinn þannig að ég sat frammi í stofu og var að vorkenna mér upphátt. Þar sem mamma situr einnig í stofunni heyrir hún hvað ég er að segja og segir: “Þér var nær að fara einn á þessari andskotans hryssu einhvað útí óbyggðir”. Þá stend ég upp og segi: “Heldurðu að ég hafi viljað að þetta færi svona, að ég myndi missa hendina”. Svo geng ég að henni og sparka svo fast í adlitið á henni að ég mölbrýt á henni nefið.

Við það vaknaði ég og það fyrsta sem ég gerði var að gá hvort hendin væri ekki á sínum stað. Hún var það nú sem betur fer blessunin. Svo fór ég að hugsa hvernig draumurinn hafði endað. Ég nefbraut mömmu mína. Það er ekkert sem ég elska jafnheitt og hana í öllum heiminum og í draumnum nefbraut ég hana! Í raunveruleikanum hef ég mjög sterka tilhneigingu til að fá útrás fyrir reiði mína með því að t.d. berja í veggi, stóla, skrifborð og annað í þeim dúr en aldrei lifandi fólk né dýr.

Ef einhver hefur einhverja hugmynd um hvað þessi draumur táknar væri skýringin einstaklega vel þegin vegna þess að það er þónokkuð liðið frá því að mig dreymdi þetta en það líður varla sá dagur að ég hugsi ekki um þennan draum.
Ef ykkur finnst þið vanta meiri upplýsingar um drauminn þá er bara að spyrja og ég reyni að svara eftir fremsta megni.

Takk kærlega,
Hvati<BR