Ég hef nú ekki komið fyrr inn á þetta áhugamál en þrjár síðustu greinar sem hafa verið skrifaðar eru í anda við lífsreynslu mína á þessu sviði, og hefst þá lesturinn:
Ég fæ fyrirboða. Örugglega ekki eina manneskjan en langar þó að segja frá því.
Fyrsti fyrirboðinn sem ég man eftir er þegar Móðuramma mín dó. Ca 4 vikum áður en hún fór dreymdi mig sérstakan draum.
Ég og Mamma vorum að keyra í bíl í myrkri, skyndilega var þetta risastóra blóm á veginum, Mamma missti stjórn á bílnum og hann valt. Mamma varð ofsalega hrædd og fór að gráta svo ég vissi að eitthvað ætti eftir að koma fyrir sem skipti hana miklu máli.
Mér fannst draumurinn svo furðulegur og man hann svo vel að ég skrifaði hann niður þá og man hann enn skýrt og greinilega. Ég vissi ekki hvað hann táknaði en stuttu seinna dó Amma.
Annar fyrirboði var er ég og minn maður vorum að keyra á mótorhjólinu. Ég var farþeginn. Smátt og smátt varð ég alveg skíthrædd út af “engu” en gat ekki sagt honum frá því. Þetta versnaði er á leið ökuferðina og svo keyrði bíll í veg fyrir okkur og við duttum í götuna. Meiddumst sem betur fer ekki alvarlega, en ég veit að ef ég hefði getað sagt kærastanum að fara aðra leið hefði ekkert gerst.
Þriðji fyrirboði var einnig fyrir dauðsfalli. Mig dreymdi aftur furðulegan draum, en man hann ekki skýrt. Ég vaknaði samt með þá fullvissu að einhver nákominn væri að fara að deyja. Ég var svo viss að ég athugaði allar dánartilkynningar vandlega á hverjum degi. Um það leyti var föðurbróðir minn lagður inn á sjúkrahús og lést hann um 2 vikum seinna. Þegar mér var tilkynnt það vissi ég jafnskjótt að ég hafði fundið fyrir því að hann væri að fara.

Þetta hefur ekki virst koma oft fyrir hjá mér, en ég er búin að átta mig á því núna að ég get fundið þetta. Ef til vill þarf ég bara að taka betur eftir. Tilfinningin er bara svipuð og almennar áhyggjur og gæti því “týnst” innan um daglega amstrið. Ég hef heldur ekki hugmynd um hver gæti verið að koma skilaboðunum til mín, en hef Ömmur og Afa sterklega grunuð, en þau eru öll látin. Svo er ég einnig að velta fyrir mér hvort ég geti náð að þroska þetta eitthvað með einhverskonar þjálfun.

Kveðja
UlfYnja