Nú hefur oft verið að spyrjast fyrir um Wicca og datt mér því í hug að gera hérna stutta samantekt. Það er engin leið að útskýra Wicca ALVEG í einni grein, enda þyrfti heila bók til þess. Bið ég fólk að virða það. Eins vil ég biðja þá sem ekki hafa áhuga á að kynnast þessu nánar og vilja bara vera skítkast o.s.frv. að sleppa því að gera athugasemdir við þessa grein. Ekki það að ég geti ekki svarað fyrir mig, heldur vegna þess að það er ekki viðeigandi að setja út á trúarbrögð annarra. Því Wicca er trúarbrögð alveg eins og kristni, Íslam, búddhismi o.s.frv. Ég efa það að fólk myndi segja við t.d. múslima, upp í opið geðið á honum, að trúin hans væri ekkert nema bull og vitleysa. Svo vinsamlegast sýnið okkur sem aðhyllumst þessa trú þá virðingu að halda skoðunum ykkar fyrir ykkur og ykkur ein.


-Fylgni Wicca í heiminum-

Wicca er viðurkennt sem trúarbrögð í Bandarískum lögum og bandaríska hernum einnig. Í Bandaríkjunum er talið að séu um nokkur þúsund manns Wiccatrúar, en ég hef ekki kynnt mér hversu mörg þúsund. Gerð var könnun á meðal bandarískra unglinga um áhuga þeirra á Wicca og sögðust 50% þeirra hafa Wicca sem áhugamál. Því miður er það einfaldlega ekki rétt hjá þeim, því Wicca er ekki áhugamál heldur trúarbrögð. Margir virðast nefnilega haldnir þeim misskilningi að galdrar og Wicca séu eitt og hið sama. Vissulega er það tengt, en galdrarnir eru bara hlutur sem fylgir yfirleitt Wicca og er hluti af iðkun trúarinnar. Hins vegar er Wicca miklu, miklu meira en galdrar. Því væri nærri lagi að segja að um helmingur bandarískra unglinga hafi áhuga fyrir göldrum. Að minnsta kosti er hægt að halda því fram að forvitni fyrir trúnni sé að aukast, enda hækkar tala þeirra sem aðhyllast hana ötullega með ári hverju.


-Wicca og kristni-

Margir virðast einnig halda að maður geti bæði verið Wiccan og kristinn. Það er ekki rétt. Þar sem Wicca er sér trúarbragð geturðu ekki verið líka kristinn. Þú getur ekki verið margra trúa í einu. Wicca er fjölgyðistrú en kristni er eingyðistrú. Kristnir trúa því að það megi ekki vera neinn annar guð en sá kristni og að ákalla aðra guði er synd. Wicca leyfir trú á alla guði. Þú mátt ákalla hinn kristna guð sem og aðra guði þess vegna. Hins vegar máttu ekki sem kristin manneskja ákalla annan guð en hinn kristna guð, Jesú og heilagan anda.


-Kristni og galdrar-

Margir kristnir benda á að í biblíunni standi að það sé bannað að stunda galdra. Þá vil ég benda á eitt atriði. Á tímum rannsóknarréttarins lét James, konungur í Bretlandi (man ekki númer hvað, held IV), breyta einu orði í biblíunni til að réttlæta aftökurnar á hinum svokölluðu nornum. Núna stendur “Thou shalt not suffer a witch to live” en upphaflega stóð “Thou shalt not suffer a poisoner to live”. Fundu þeir víst einhverja smugu í þýðingunum og er víst hægt að þýða orðið á fleiri en eina vegu ef ég man rétt. Þess vegna er alls ekki víst að þessi setning eigi við nein rök að styðjast. Hins vegar vita allir að kristnar kirkjur líta galdra og dulspeki hornauga. En galdrar eru samt alveg óháðir því hvaða trúarbrögðum maður fylgir. Það er vel hægt að stunda galdra þar sem aldrei eru aðrir ákallaðir en guð og englar og svoleiðis.


-Wicca og guðirnir-

Í upphafi var Hið Eina. Hið Eina var allt og allt var Hið Eina. Siðan skapaði Hið Eina Guðinn og Gyðjuna og þau mótuðu jörðina og þær skepnur sem lifa á henni í dag. Guðinn er kallaður hinn hyrndi guð veiðinnar og stjórnar meðal annars degi. Hann á sér tákn í sólinni. Gyðjan stjórnar nóttunni og á sér tákn í tunglinu. Gyðjan er táknuð sem jörðin. Þið getið hugsað ykkur gyðjuna sem jörðina og guðinn himininn sem umlykur hana. Wicca er svona “earth-based religion” eins og það heitir á ensku, eða náttúrudýrkendur. Við sjáum hið guðlega í náttúrunni. Við notum Guðinn og Gyðjuna sem táknrænt fyrir hana. T.d. fæðir gyðjan guðinn á Yule (ca. 21. desember), síðan vex hann og dafnar og er orðinn fullorðinn um vorið. Þá verða þau ástfangin og hann gerir hana ólétta á ný. Svo deyr hann en lifir áfram í gyðjunni þar til hún fæðir hann á ný. Þannig að það er eins og gyðjan sé veturinn en guðinn sumarið.

Guðinn og Gyðjan hafa bæði jákvæða og neikvæða eiginleika. Þess vegna eru þau hvorki alvond eða algóð. Við höfum Guðinn og Gyðjuna því Hið Eina er of flókið til að við fáum það skilið. Guðinn og Gyðjan er eitt í Hinu Eina. Þið getið hugsað ykkur að þið skiptið bút í tvennt. Þetta er ennþá sami búturinn, bara í tveimur hlutum. Gyðjan og Guðinn hafa hvort sína eiginleika sem hjálpa okkur að skilja þau og átta okkur á til hvors þeirra við eigum að leita. Eins getið þið hugsað ykkur Guðinn sem samheiti yfir alla guði í heiminum. Þetta er allt sami guðinn en þið einbeitið ykkur að einstökum eiginleikum hans í hverjum guði. Þetta hjálpar manni t.d. að einbeita sér þegar maður er að galdra. Til hvers að lesa alla bókina ef þú þarft bara einn kafla? Skilið þið hvað ég á við? Þið getið líka hugsað ykkur köku og skipt henni í sneiðar. Þá væri Guðinn öll kakan en hver guð ein sneið. Eins á þetta við um gyðjuna. Allar gyðjur eru mismunandi hluti af Gyðjunni.


-Trúarhátíðir-

Wiccar hafa margar trúarhátíðir. Í fyrsta lagi eru það Esbat sem eru hvert fullt tungl, þ.e. þegar gyðjan er í sínu mesta veldi. Þau eru oftast 12 á hverju ári en geta stundum verið 13. Síðan eru það Sabbat, sem eru átta. Sabbötin skiptast í Minor Sabbats (minni hátíðir) og Major Sabbats (stærri hátíðir). Minni hátíðir eru vetrarsólstöður/Yule (ca. 21.des), vorjafndægur/Ostara (ca. 21. mars), sumarsólstöður/Litha (ca. 21. júní) og haustjafndægur/Mabon (ca. 21. sept). Stærri hátíðir eru Imbolc/Kyndilmessa (2. feb), Beltane (1. maí), Lughnasadh/Lammas (1. ágúst) og Samhain, eða það sem flestir þekkja undir nafninu hrekkjavaka, þegar bilið milli hinna dauðu og lifandi er sem minnst, (31. okt). Þessar hátíðir tákna þennan hring sem Gyðjan og Guðinn ganga í gegnum, sem ég lýsti áðan. Sumar- og vetrarsólstöður eru tíminn þar sem sól og myrkur eru í algjöru jafnvægi.


En nú er þetta orðið svo langt hjá mér að ég tel best að segja þetta orðið gott. Ég vona að þetta hafi getað skýrt eitthvað um Wicca og sé skiljanlegt hjá mér.

Kveðja,
Divaa