Er sálin til og ef svo er, hvað verður þá um hana þegar við deyjum? Þetta er ein af þessum spurningum um lífið sem er ekki auðsvarað.
Sálin er eitt af þeim fyrirbærum sem vísindin geta ekki útskýrt, hún er huglæg og það er hvorki hægt að halda á henni né snerta hana. Sálin er í raun hugurinn og geðið okkar og hún getur verið allt öðruvísi í einu lífinu en í öðru, eða það segja sumir að minnsta kosti.
Þegar einhver deyr þá fer hann til himna eða til helvítis. Svona mundi strang trúaður kristinn maður hugsa. En er þetta rétt? Það er nefnilega vafinn. En það er samt sem áður eitthvert sannleikskorn í öllum þessum trúarbrögðum sem til eru nú til dags. Þau eru bara mismunandi túlkun á einum og sama guðinum, en það sem þau eiga öll sameiginlegt er að þau boða öll trú á tilvist sálarinnar og á að hún haldi áfram að lifa.
En það er eitt að trúa og annað að sjá. Málið er bara að í dag eru til svo margir, sem verða að sjá til þess að trúa, en geta ekki trúað án þess að sjá. Það er þess vegna sem það er stór hópur af fólki sem trúir ekki á neins konar form af sál, vegna þess að það er ekki hægt að sjá hana og ekki hægt að snerta hana. Þar af leiðandi trúir fólkið ekki á tilvist sálarinnar eftir dauða.
En svo er aftur á móti til fólk sem trúir, að það búi sál inn í okkur öllum. Þetta er yfirleitt, ef ekki alltaf, fólk sem hefur trú á einhvern ákveðinn guð. Þetta fólk trúir á að það fari á einhvern máta á nýtt tilverustig, þar sem sálin heldur áfram að lifa og þroskast frá stigi yfir á stig eða frá lífi í líf. Í flestum trúarbrögðum endar sálin svo í einhverri fullkomnun sem oft er kallað almættið. Þetta almætti er allt það góða sem býr í sálinni.
Svo er við þetta að bæta, að það eru til nokkuð áreiðanlegar heimildir um tilvist sálarinnar á öðrum stað, eða öðru tilverustigi. Þessar heimildir eru frá miðlunum komnar. Til eru miðlar sem geta talað við fólk sem er farið héðan. Það hafa verið haldnir miðilsfundir með þessum miðlum, þar sem fólk hefur getað talað við einhvern nákominn, sem er látinn og fengið einhvers konar staðfestingu á að sálin lifi áfram.
Þessir miðilsfundir eru ekki alltaf sannir, en því betra sem sambandi er við hina framliðnu, því skýrar komast upplýsingarnar til skila. Það er til dæmis ekki gott samband á sláturtíðum vegna þess að þá er svo mikið að gera og ekki á tímum þegar mikið er um ölvun. Sambandið er best þegar hópur af fólki sest saman niður og einbeitir sér af öllum mætti og hugsar um það sama, þá myndast samheldni og miðillinn fær greiða leið að þessu, sem er hinu megin.
Þó er eitt sem aftrar að fólki hérna á Íslandi við að trúa. Það er þessi efnishyggja sem er ríkjandi. Fólk er mjög lítið að hugsa um andlegu hliðina á heiminum, sú efnislega kemst bara að í huga þeirra. Það er í raun ekki fyrr en einhver nákominn deyr sem fólk byrjar fyrst að spá í þetta fyrir alvöru. Það má því með sanni segja að meiri hlutinn af íslensku þjóðinni sé á einhvern hátt trúlaus.
Auk þess er erfitt að vita hvort sálin lifir eða ekki, vegna þess að það er enginn sem veit hvað býr að baki þessu lífi sem við lifum. Það veit enginn hvort einhver stjórnar okkur eða hvort það erum við sem stjórnum okkur sjálf. Það þarf því bara að bíða og sjá hvað gerist þegar búið er að yfirstíga dauðann, þá kemur þetta vonandi allt í ljós.
Passaðu þrýstinginn maður!!