Ég hef lengi velt því fyrir mér hvers vegna fólk setur upp þessa tvo póla eins og þeir séu í raun andstæðu sjónarmiðin í sama deilumálinu: Sköpun vs. þróun. Það sem ég hef lesið mér til um þróunarkenninguna hef ég aldrei séð taka fram hvort guð hafi komið að þróunarferlinu eða ekki. Þannig hefur mér alltaf fundist vel mögulegt að þær breytingar sem hafa átt sér stað frá einfaldari lífverum til flóknari lífvera séu ummerki um ósýnilegan arm guðs að fínstilla sköpunarverk sitt.

Hin hugmyndin sem er reyndar algengari meðal þeirra sem trúa þróunarkenningunni - að blind tilviljun og náttúruval ráði för í þróunarferlinu - finnst mér reyndar eiga fullkominn rétt á sér líka, en er alls ekki nauðsynleg trú til að aðhyllast þróunarkenninguna í megindráttum. Þar sem þróunarkenningin er vísindaleg ætti hún ekki að taka - og tekur í raun ekki - afstöðu til hugmynda sem hvorki er hægt að sanna eða afsanna, heldur byggjast á persónulegri trú hvers og eins.

Þegar öllu er á botninn hvolft sé ég í raun tvö deilumál sem mér finnst óheppilegt að rugla saman: A) sköpun vs. blind tilviljun og B) þróun vs. öhh… nýjar tegundir sem skyndilega spretta upp án skyldleika við þær tegundir sem á undan komu.

Ég sjálfur er agnostískur þannig að ég hef kosið að taka ekki afstöðu til deilumáls A, en hvað varðar deilumál B finnst mér nánast vafalaust - hvort sem maður trúir á guð eða ekki - að einhvers konar þróun frá einföldum lífformum yfir í þau flóknari hafi átt sér stað því hvers konar sköpunarferli felur í raun ekki í sér þróun. Þegar úrsmiður tekur sig til og hannar úr byrjar hann ekki á lokaniðurstöðunni. Hann gerir fyrst teikningar og útreikninga, hannar íhlutina, smíðar þá og setur saman og þá fyrst er úrið komið. Þetta er í það minnsta eina sköpunarferlið sem ég kannast við.