Eftirfarandi er grein sem ég skrifaði um heimsfræði (e. cosmology) Martinusar (1890-1981). Verk hans eru umfangsmikil og spannar ferlill hans sem rithöfundur um 60 ár. Hann upplifði algera umbreytingu á vitund sinni þegar hann var þrítugur sem gerði honum kleift að sjá inn í eilífðina, hina eilífu heimsmynd líkt og hann kallar hana. Þessi grein er mitt framlag til þess að fá smjörþefinn af því besta sem sú heimsmynd hefur fram að færa.

Yfirlit yfir heimsmyndina


1. Inngangur

Að ætla sér að útskýra heimsfræðina í stuttu máli er vandasamt verkefni. Hér skal í upphafi tekið fram að það efni sem hér er tekið til umfjöllunnar er alls ekki tæmandi lýsing á heimsfræðinni. Þessari síðu er aðeins ætlað að veita almenna yfirsýn yfir sumt af því sem heimsfræðin hefur að bjóða og er lesandinn hvattur til þess að gera eigin rannsókn á verkum Martinusar með því að leita í frumtextana. Nokkrar af bókum hans hafa þegar verið þýddar yfir á íslensku en upplýsingar um þær má finna HÉR.

Í köflunum hér á eftir er eftirfarandi spurningu svarað; Hvert er æðsta lögmálið eða „leiðin til himna“ samkvæmt Martinusi? Ef manneskja á að vænta hamingju í þessu lífi þarf hún að geta svarað þeirri spurningu.


2. Guð er kærleikur


Hvernig skilgreinir heimsfræðin Guð? Er Guð strangur og óttarlegur maður með sítt hvítt skegg sem fær ánægju út úr því að sjá börnin sín þjást? Nei, svo sannarlega ekki. Guð er þvert á móti hin tæra vera eða vitund ljóss sem einkennist af hinum æðsta og fegursta, óskilyrta og hreina kærleika. Þessi háleiti kærleikur Guðs gegnsýrir allt sköpunarverkið. Guð er raunar öll sköpun því hann er allt í öllu, allsstaðar. Guð er allt sem er og alheimurinn er líkami Guðs. Allar lifandi verur lifa því og hrærast í honum.

Líkt og kærleikur Guðs gegnsýrir alla sköpun þá býr vitund að baki allri sköpun náttúrunnar eða alheimsins. Hinu fjölbreyttu sköpunarferlar náttúrunnar stjórnast af þessari vitund. Fyrir hinn þroskaða leitanda ætti ekki að vera erfitt að sjá að öll sköpun á sér tilgang og þjónar tilteknu markmiði. Lifandi verur njóta góðs af sköpunarframkvæmdum náttúrunnar og frá kosmisku sjónarmiði eru þær allar, án undantekningar, til gleði og blessunar fyrir tilveru þeirra.

Allt er kærleikur en tilgangur sköpunarinnar er að hin lifandi vera fái að upplifja sjálfa sig í gegnum víxlverkun ljóss og myrkurs, þæginda og sársauka, hita og kulda o.s.frv. Eins og við munum sjá betur þá, frá kosmisku sjónarmiði séð, er myrkrið og þjáningin í raun dulbúinn kærleikur sem gerir lífverunni kleift að upplifa andstæðuna sem er grunntón alheimsins, kærleikur.


3. Uppfylling lögmálanna: Elskaðu náungann og elskaðu Guð


Heimsfræðin er í fullkomnu samræmi við boðskap Jesú Krists. Jesú er kennari mannkynsins og sýndi því mikilvægt fordæmi um hvernig samskiptum fullkomins manns við skapara sinn og meðbræður skal háttað. Í takt við kenningar Páls postula þá kennir heimsfræðin okkur að öll önnur boðorð eru uppfyllt í þessum tveimur: Elskaðu Guð og elskaðu náungann. Þannig er kærleikurinn “fylling lögmálsins”. Þetta kærleikslögmál Krists eða heimslausnin mun vera uppfylling allra lögmálanna sem vísar okkur veginn til föðurins. Heimsfræðin bætir kannski ekki mikið við þessi sannindi heldur tekur undir þau og gerir þau að eilífum sannindum eða óhagganlegu andlegu lögmáli.

Sú þekking sem Martinus birti fyrir heiminum með verkum sínum er fyrst og fremst ætluð framtíðarkynslóðum en kærleikslögmálið sem Jesú boðaði er ætlað okkur sem lifum hér og nú og ættum við að leitast við að lifa samkvæmt lögmálinu á öllum sviðum lífs okkar. Mannkynið er hins vegar ekki komið nægilega langt á veg í þróuninni til þess að geta framfylgt fyrrnefndu lögmáli. Martinus segir að hæfileikinn til þess að elska mun verða manninum sá grundvöllur er hann byggir sína frjálsu tilveru. Sú tilvera mun vera laus við slæm örlög.

Þar sem gleði og blessun er ríkjandi í samskiptum allra mun hinn langþráði ævarandi friður verða að staðreynd, á sama hátt og það er augljóst að þar sem allir eru meira og minna dónalegir, óvægnir, hefnigjarnir, öfundsjúkir og umburðarlausir gagnvart öllum, getur lífið á engan hátt verið birting hamingju og gleði. Hér sést að það að auðsýna kærleika er hin eina sanna leið til ljóssins en ekki ímyndun eða tómar staðhæfingar. Leiðin út úr myrkirinu sem heimslausnin felur í sér er ljóslifandi, raunsæ vísindi eða veruleiki (Á altari kærleikans, 7. kafli).

Í stuttu máli: Niðurstöður greininga Martinusar styðja undir og útskýra í smáatriðum hin djúpu kosmisku sannindi sem Jesú boðaði fyrir mannkynið fyrir um 2000 árum. Hvar sem drepið er niður í heimsfræðinni þá er niðurstaðan alltaf sú sama; „allt er harla gott“ og allt er umvafið kærleika. Þetta er ávöxturinn af verkum hans.

Svo hinn mikli sannleikur varðandi æðstu lífshætti eða fullkomna breytni tilverunnar er þessi, að maður verður að gefa líf sitt til þess að geta eignast það. Líkt og Guðdómurinn sem er handan allra sköpunarferla náttúrunnar hefur auðsýnt okkur kærleika sinn þá, á sama máta, þurfum við að fórna okkur fyrir guðdóminn, sem aðeins er hægt að gera með því að elska náunga okkar [...] Við kynntumst kærleika Guðs í gegnum þróunina á efnislegum líffærum okkar, tæki sem gerir okkur fært að upplifa sífellt æðri form lífsskynjana og þar með flutt okkur úr ófullgerðu frumstæðu ástandi í fullgert vitsmunalegt ástand [...] Við kynntumst kærleika Guðs í sköpun Náttúrunnar, sem hvern dag gefur af sér fæðu og lífsnauðsynjar fyrir hinar lifandi verur. Við kynntumst kærleika Guðs í gegnum alla þá sem þótti vænt um okkur, en við lærðum einnig að skynja kæreika Guðs á bak við allar verurnar sem ofsóttu og hötuðu okkur. Við lærðum að elska þær því við sáum að þær voru björgunarhringur Guðs til okkar á tímapunkti sem við vorum á leiðinni að drukkna í hafi sjálfsblekkingar, hjátrúar og eigingirni [...] Og við sáum kærleika Guðs í skínandi geisladýrð hæstu hæða þar sem Guð í sinni alvisku, almætti og alelsku geymir forlög allra lifandi vera í sínum höndum. Þetta er hinn stóri sannleikur um kærleikann [...]

Í sannleika! Það að elska Guð umfram alla hluti og náungann eins og sjálfan sig er uppfylling allra lögmála. (Martinus- Á altari kærleikans, 7. kafli)


4. Jörðin er lifandi vera


Martinus heldur því fram að jörðin sem við lifum á sé lifandi vera. Kenningar ákveðinna vísindamanna styðja við þessa skoðun. Ein þeirra er GAJAKENNING James Lovelocks sem fjallar um jörðina sem órofa lifandi heild. Fyrir sumum kann þessi hugmynd að hljóma fjarstæðukennd en þegar nánar er athugað er hægt að finna margar fremur augljósar hliðstæður sem styðja undir það.

Í raun og veru þá hegðar jörðin sér eins og lifandi vera. Jörðin borðar bæði og andar. Fæða jarðarinnar er ljóseindir sem sólin sendir frá sér og berst til jarðar í gríðarmiklu magni. Þessa fæðu „borðar“ svo eða innbirgðir jörðin með hjálp plöntulífvera sem „melta“ matinn og búa til úr því orku og súrefni með aðstoð vatns og koltvíoxíðs. Á vísindamáli myndi þessi „melting“ sjálfsagt kallast ljóstillífun og orkuöflun plantna. Jörðin andar einnig. Öfugt við dýrin andar hún að sér koltvíoxíð og frá sér súrefni á meðan dýrin anda að sér sama súrefni ásamt öðrum efnum og anda loks frá sér koltvíoxíði. Að flestu leyti geta fyrrnefndir vísindamenn sammælst um það að jörðin uppfylli flest skilyrðin til þess að flokkast sem lifandi vera nema að því leyti að hún getur ekki, ólíkt öðrum líffverum, fjölgað sér eða æxlast.

Samkvæmt þessu er jörðin lifandi vera sem stýrir á sjálfvirka vegu líkamsstarfsemi sinni á nákvæmlega sama hátt og líkamsstarfsemi okkar er sjálfvirk. Jörðin viðheldur ákveðnu hitastigi, seltustigi í sjónum og hlutföllum af súrefni og koltvíoxíði í lofti. Við upplifum svo breytingar á þessa líkamsstarfsemi sem loftslagsbreytingar. Breytingar á loftslagi sem hafa átt sér stað undanfarin ár gætu því hafa orsakast af öðrum þáttum en losun gróðurhúsalofttegunda frá mönnunum. Jörðin gæti verið að stilla af „líkamsstarfsemi“ sína með leiðum sem eru okkur mönnunum ókunnar.

Á sama hátt og líkamar plantna og dýra samanstanda af frumum og líffærum þá er plánetan með líffæri og „frumur“. Martinus heldur því fram að jörðin sé með heila og sé hugsandi. Mannkynið í sameiningu myndar þennan heila og því eru hinir rúmlega sex milljarðar manna heilafrumur jarðarinnar. Öll hin mismunandi menningarstig mannanna hafa í raun verið hugsanaferlar náttúrunnar. Þróun jarðar verður því að skoða í samhengi við þróun mannkyns.


5. Stórheimar, smáheimar og miðheimar


Í síðasta kafla sáum við hvernig jörðin er lifandi vera sem hugsar, borðar og andar. Martinus segir að allar lifandi verur séu hluti af öðrum lifandi verum. Þannig er jörðin lífsheild sem tilheyrir öðru lífskerfi, sólkerfinu, sem er svo aftur umlukið ennþá stærra kerfi, Vetrarbrautinni. Allar verur eru þannig stórverur sem eru svo sjálfar smáverur umluktar lífsheild stórvera. Táknmynd nr. 7 sýnir einmitt þetta lögmál, er kallast lífseiningarlögmálið (smellið á myndina til nánari útskýringar). Þessi mynd getur táknað hvaða lifandi veru sem er, hvort sem það er alheimurinn eða líkami okkar.





Útskýring á táknmynd 7


Þekkingin á samsetningu alheimsins sýnir okkur að við erum smækkuð mynd af Guði eða alheiminum. Með því að skoða okkur sjálf getum við einnig lært að þekkja alheiminn. Biblían kenndi okkur mikilvægi náungakærleikans en fór á mis við að kenna okkur um hver náungi okkar væri. Heimsfræðin kennir okkur að náungi okkar er ekki aðeins meðbræður okkar, þ.e. aðrar manneskjur, heldur einnig önnur dýr í miðheimum (e. mesocosmos) og smáverurnar innra með okkur í smáheimum (e. microcosmos), þ.e. frumur okkar og líffæri. Við höfum innra með okkur lifandi alheim og ráðum aðstæðum sem eiga sér stað innan hans. „Hin lifandi vera geymir innra með sér lausnina við leyndarmálum alheimsins“, segir Martinus. Þannig gætum við verið að leita langt yfir skammt í rannsóknum okkar á alheiminum.


6. Karma


Mikilvægasta lögmálið sem maðurinn þarf að læra til þess að finna lífshamingjuna er án efa karmalögmálið. Það kennir okkur hvernig við eigum að breyta rétt og á því stærstan þátt í allri framþróun mannsins. Þetta er með einfaldari lögmálum tilverunnar en jafnframt hið erfiðasta fyrir egóið að viðurkenna. Karmalögmálið felur í stuttu máli í sér að allar athafnir þínar munu á endanum koma aftur til þín í formi karma eða örlaga. Ef illa er fyrir þér komið í lífinu þá er það sennilegast þér sjálfum að kenna en ekki einhverjum öðrum.

Manneskja sem hefur áttað sig á því að hún er meginorsök að öllum sínum vandamálum hefur unnið mikinn sigur í þroskagöngu sinni. Þegar viðkomandi hefur hefur áttað sig á þessu hefur hann eða hún, meðvitað eða ómeðvitað, öðlast grundvallarskilning á lögmáli orsaka og afleiðinga. Með því hefur manneskjan náð mikilvægum áfanga í viðleitni sinni til aukins andlegs þroska.

Martinus talar um að við sköpum örlög okkar á þremur meginsviðum:

Í fyrsta lagi sköpum við örlög í samskiptum okkar við aðrar manneskjur. Hér kemur karma skýrt fram þar sem við uppskerum það sem við sáum í framkomu okkar gagnvart meðbræðrum okkar. Ef við komum illa fram við fólk þá kemur það illa fram við okkur, ef við ljúgum að öðrum mun aðrir ljúga að okkur, ef við særum aðra þá munum við sjálf vera særð o.s.frv. Þar af leiðir er mikilvægt að koma fram við náungann líkt og maður vill að náunginn komi fram við sig.

Næst sköpum við okkur örlög í samskiptum okkar við önnur dýr. Já, dýrin eru líka náungar okkar, aðeins litlu bræður okkar á þróunarbrautinni. Ef við borðum kjöt sköðum við dýrin og með því sköpum við okkur slæm örlög. Heimsfræðin leggur því til að fólk gerist grænmetisætur til þess að komast hjá því að upplifa slæmt karma. Fólk ætti hins vegar ekki að gera það af skildurækni heldur einungis af einlægri löngun.

Að lokum er það samskiptin okkar við smáheimana (e. microcosmos). Líkami okkar hefur að geyma, líkt og áður hefur komið fram, smáheima sem eru iðandi af lífi, líkt og alheimurinn er iðandi af lífi. Hér er mikilvægt að skapa þessum lífverum góð lífsskilyrði með því að viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði. Hér mælir heimsfræðin gegn reykingum, drykkju eða því að láta ofan í sig aðra óhollustu. Martinus sjálfur varð ófær um að borða kjöt og láta ofan í sig fyrrnefnd efni eftir að hann öðlaðist kosmiska vitund.

Karmalögmálið hefur, líkt og annað innan heimsmyndarinnar, litla merkingu nema það sé skoðað í samhengi við eilífðina. Samkvæmt heimsmyndinni þróast maðurinn í gegnum mörg líf og á endanum mun hann komast á það stig að hann getur ekki lengur viljað neinni lifandi veru mein. Hann kemur til með að læra lögmál fyrirgefningarinnar í gegnum lögmáli orsaka og afleiðingar, þ.e. karmalögmálsins. Karma er þannig meitillinn sem heggur út hinn fullkomna guðsmann og gerir hann í mynd og líkingu skapara síns.


7. Hlutverk þjáninganna í verunni


Kjarninn í heimsmynd og hinum stórfelldu lífsskoðunum Martinusar er þróun. Martinus útskýrir að með tímanum verði mannlegt samfélag sífullkomnari í krafti náttúruaflanna sem mynda hin óþæginlegu áhrif í tilverunni og sívaxandi áreynslu einstaklingsins til að sigrast á þeim. En þetta er það sem átt er við með hugtakinu þróun. Í raun og veru mætti því segja að verurnar séu á ferð frá hinu óþæginlega til hins þæginlega eða frá myrkri til ljóss í hinni eilífu alheims spíralhringrás, sem er að sögn Martinusar grundvöllur eilífrar lífsskynjunar verunnar. Eilíft líf er háð síbreytilegum tímabilum ljóss- og myrkurs sem ná hámarki eða hápunkti í annað hvort algjörri gleði og blessun eða þjáningum og miklum hörmungum. Við lifum nú á tímabili myrkurs sem annað veifið fær útrás og nær hámarki sem helvíti sjálft eða ragnarök, en þetta er eingöngu vegna ófullkominnar breytni mannsins gagnvart náunga sínum og umhverfi.
„Mannkynið lifir ennþá í þeirri miklu hjátrú, að banvæna lögmálið sé besta vörnin gegn banvæna lögmálinu sjálfu”. En þetta banvæna lögmál er tengt sjálfsbjargarhvöt hinna ófullgerðu manna, það að drepa til þess að geta lifað. Þetta er lögmál dýraríkisins en um leið stærsta brotið gegn helsta siðalögmáli og boðorði mannsins: „þú skalt ekki morð fremja”. Myrkið eða það sem kallað er illt er í raun og veru sama og andlegur þroski einstaklinga sem er forsendan fyrir því að hinar sömu verur geti notið hamingju og sælu síðar meir í hinum æðri heimum. Því er myrkrið frá „kosmisku sjónarmiði séð, jafn blessunarríkt og ljósið og í Guðs augum- allt harla gott“.
Mannkynið stendur nú á mörkum dýraríksins og fullgerða mannríkisins. Til þess að geta tilheyrt síðarnefndu ríki þurfa menn að upplifa fæðinguna miklu sem aðeins fæst að tilstuðlan myrkursins og þjáninganna sem veran hefur upplifað í þessu lífi og fyrri tilveruskeiðum.


8. Endurholdgun


Án þess að taka framhaldslíf inn í myndina gæti Martinus ekki fært rök fyrir því að myrkrið eða þjáningarnar séu af hinu góða. Hvernig væri þá hægt að sjá sanngirni fólgna í því að sumir líði algjöran skort á meðan aðrir lifa í miklum vellystingum? Í sanngjörnum heimi ættu fyrrnefndir einstaklingar ekki einnig að fá að upplifa það að lifa í allsnægtum?
Líkt og fram hefur komið er ekkert í innsta eðli sínu illt. Þetta er eitt hið nýstárlegasta sem Martinus setti fram í verkum sínum og gengur í raun þvert gegn kennisetningu helstu trúarbragða heimsins, þar á meðal kristninnar. En tala má um tvenns konar gæði, hin þæginlegu og hin óþæginlegu gæði. Hin „óþæginlegu gæði”, sem nefnd eru „ill”, undirbúa hin „þæginlegu gæði” og eru nauðsynleg brú til hins góða. Hinn fagra skilning sem hægt er að leggja í þessa hugsun veitir ákveðið svar við þeirri almennu hugsun margra að Guð hljóti að vera óréttlátur eða ósanngjarn. Með þessu er Martinus nefnilega að útskýra það að óréttlæti er í raun og veru ekki til nema sem hugtak. Mönnum er óhamingjan ekki ásköpuð, líkt og fyrr segir, og menn skapa sín eigin örlög sjálfir. Heimsfræðin gerir því góð skil hvers vegna menn eru gæddir mismiklum vitsmunum og þroska en þar kemur til sögunnar lögmál endurfæðinga sem er þekkt skoðun meðal austrænna dulspekinga og er í aðalatriðum eins. Þetta lögmál felur í sér þróun í gegnum síendurteknar endurholdganir hér á jörðu, öflun reynslu í gegnum mörg líf og mismunandi kringumstæður og svo lokatakmarkið sem er frelsun andans, þar verður maðurinn eitt með veginum, sannleikanum og lífinu. Fullkominn maður í Guðs mynd og líkingu, segir Martinus að sé lokatakmark Guðs í sköpun mannsins.


9. Niðurstaða


Af framansögðu er ljóst að mikilvægasta og æðsta lögmál tilverunnar er þetta: að geta elskað og fyrirgefið náunganum. „Leiðin til himna“ er að skilja þetta lögmál og lifa eftir því. En af hverju er þetta svona mikilvægt lögmál? Heimsfræði Martinusar kennir okkur að sjá hlutina frá augum anatómíunnar, þ.e. að horfa á aðrar lífverur (og okkur sjálf) sem hluta af líffæri stærri lífveru. Ef við völdum, með breytni okkar og hugsunum, skaða og óhamingju hjá öðrum sem hafa veru sína innan sömu lífsheildar sköðum við ekki aðeins þá heldur einnig líffæri stórverunnar sem við eigum tilveru okkar undir. Þannig sköpum við óheilbrigð svæði innan umræddrar lífveru þar sem við upplifum lífið. „Hér er auðvelt að sjá að grunnorsök allrar þjáningar í heiminum er brot gegn hinni fullkomnu anatómíu sem er uppspretta þess máttar er bindur allt líf alheimsins saman í eina einingu“. Í heimsmyndinni sýnir Martinus með samræmdu ferli hugsana hvernig við erum eilífir kjarnar innan þessarar einingar sem öll leggjum okkar af mörkum í lífsverðandinni. Jafnframt sýnir sú mynd okkur að eina leiðin til algjörrar hamingju og heilsu er „að vera til gleði og blessunar gagnvart öllu því sem maður kemst í kynni við“.