Mig er búið að dreyma sama drauminn af og til síðan ég var krakki (skildi hann ekki þá, skil aðeins meira núna) og aldrei með meira en 1 árs millibili. Ég ætla að athuga hvað ykkur finnst og hvernig þið mynduð ráða hann:
Ég er að labba upp hringstiga úr steini með mjög gömlum og slitnum tröppum og er að draga hendina eftir steinveggnum vinstra meginn við mig. Ég man að ég hugsa alltaf að margir aðrir hljóti að vera búnir að gera þetta á undan mér því veggurinn er svo slitinn og máður. Á veggnum til vinstri eru pínulitlir gluggar, varla stærri en lófinn á mér, með vissu millibili. Ég sé pilsið mitt (kjólinn eða kuflinn, ég veit ekki hvað)flaksast í dragsugi sem er þarna. Það er úr mjög grófu, frekar skítugu, rauðbrúnu ullarefni og mig klæjar undan því. Eftir að vera búin að labba upp 52 tröppur kem ég upp á “þak”. Þá sé ég að þetta er turn á einhvers konar virki og er með svona brjóstvörn. Ég geng út á brúnina og horfi yfir iðja græna sveit. Það er skógur allt í kring en búið er að ryðja rjóður og þar eru kindur, hestar, kanínur og nokkrar geitur á beit. Í skógarjaðrinum kúra svona litlir kofar sem virðast í fjarlægð vera úr timbri og mold aðallega.
Ég er að dást að fegurð sveitarinnar þegar ég heyri að einhver kemur upp stigann og sný mér við. Ég þekki viðkomandi augljóslega, því ég heilsa og sný mér við aftur. Þá finn ég að það eru lagðar hendur á bakið á mér og mér er hrinnt fram af.
Á þessum stað vakna ég alltaf.
Hvað haldiði að þetta tákni?