Rúnir og Eddukvæði Smá ritgerð sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum fyrir skólann. Vonandi verður hún til gagns og gamans fyrir þá sem lesa hana.



Galdur hefur fylgt manninum í örófi alda. Trú á hið yfirnáttúrulega, trú á öfl náttúrunnar og trú á töfra. Þessi trú er miklu eldri en galdrafárið á 17. öld, hún er einnig miklu eldri en rúnakvæðin og Eddukvæðin. Það er hægt að fara 32.000 ár aftur í tímann og finna heimildir um galdur hjá frummanninum. Hugtakið galdur virðist hafa fylgt manninum frá því augnabliki að hann gat skapað, og það fylgir okkur enn í dag. Þrátt fyrir að nútímamaðurinn gerir sér ekki endilega grein fyrir því þá er galdur allt í kringum okkur, í öllum menningum heimsins, við þurfum bara að kunna að sjá hann. Rúnir hafa lengi vel þjónað mönnum sem einhverskonar tenging í galdra.

Þær rúnir sem vitað er um er skipt í tvo flokka. Í eldri gerð rúnastafrófsins, sem hefur verið tekin aftur til 2. öld e. Kr. er samansett úr 24 stöfum.
Þetta gamla stafróf var notað fram á svona 8. öld en kom þá fram nýtt stafróf sem var samansett einungis af 16 stöfum. Rúnirnar eru hreint ekki nákvæm hljóðtákn og geta þær því fallið yfir nokkur hljóð. Yngri rúnunum má skipta í þrjár flokka sem kölluðust ættir. Hver ætt var nefnd eftir fyrstu rúninni í ættinni þannig að þær nefnast Freysætt, Hagalsætt og Týsætt. Hver ætt hefur sýna tölu og hver rún tölu innan ættarinnar. Rúnirnar hafa semsagt einnig hver sitt nafn og meiningu. Í Freysætt eru rúnirnar Fé, Úr, Þurs, Ás, Reið og Kaun. Í Hagalsætt eru fyrstur auðvitað Hagall svo Nauð, Ís, Ár og Sól. Í Týsættinni er Týr, Björk, Laug, Maður og Ýrr.

Til þess að taka dæmi um merkingu rúna má t.d. taka rúnina Fé. Fé stendur fyrir auð og velsæld og er hún rún Freys og Freyju. Reið getur staðið fyrir nokkrum hlutum, eins og ferðalagi, eldingum og örlögum. Reið er oft mikil rún ferðamanna og verndar þá á ferðum sínum. Nauð er ekki sérlega jákvæð rún en hún stendur fyrir fátækt, erfiðleika og ábyrgð.

Til eru þó nokkrar tegundir af rúnakvæðum jafn íslenskum sem erlendum. Þar er ein rún nefnd í hverju kvæði og kemur stundum fram einhver merking rúnarinnar.

Þrátt fyrir að sumir haldi því fram að rúnir hafi ekki verið á allra færi þá eru til fornleifar sem sýna fram á það að rúnir voru notaðar dagsdaglega. Þær virðast því hafa verið stafrófið sem notast var við hér á norðlægum slóðum Evrópu, þangað til latneska stafrófið tók yfir.

Rúnirnar voru megingrundvöllur þess að geta notað galdra. Til þess að geta gert galdur þarf að finna sér þrjár rúnir sem passa vel við galdurinn. Það þarf að hafa í huga hverskonar galdur þetta er sem á að kasta og hafa rúnir í samræmi við galdurinn.

Fyrsti hluti galdursins er að finna hvert eðli hans er. Ef þetta er lækningargaldur þá getur verið gott að nota t.d. Björk, þar sem eiginleikar þeirrar rúnar hafa að gera með heilsu, lækningu, nýtt upphaf og frjósemi. Fyrir ferðagaldur gæti Reið verið mjög góð eðlisrún þar sem Reið býr yfir ferðalagi, framför og vernd ferðalanga, svo fátt eitt sé nefnt.

Næst þarf að huga að stefnu. Hvert á galdurinn að fara og að hverjum á hann að beinast? Er galdurinn til þess að hemja náttúruöfl eða hjálpa mönnum? Ef galdrinum er beint að manneskju, er rúnin Maður iðulega notuð þar sem hún stendur fyrir okkur mennina. Ef það á að hafa áhrif á náttúruvöldin, væri hægt að nota t.d. Ár í stefnu þar sem Ár stendur fyrir árstíðirnar og frjósemi jarðar.
Þriðja rúnin stendur svo fyrir kraft galdursins. Sú rún sér um að magna galdurinn upp með krafti svo hægt sé að nota hann. Þá er samt ennþá gott að hafa í huga efni galdursins t.d. hvort galdurinn eigi að vera jákvæður eða neikvæður. Það ræður um val kraftrúnar. Þurs er t.d. mjög góð kraftrún í meingaldur meðan Sól eða Týr eru mjög góðar rúnir í kraft fyrir góðan galdur. Sól er styrkur og árangur og Týr er mjög sterk rún sem stendur t.d. fyrir styrk og sigur.

Eftir að rúnirnar eru valdar þá eru þær settar yfir á form dulrúna sem líta mismunandi út eftir smekk og duttlungum. Einnig er hægt að gera bandrúnir en þá eru rúnirnar settar saman í eina. Með bandrúnunum eða dulrúnunum má mynda galdrastaf með því að setja þetta saman.
Talað er um sex þætti sem þurfa að eiga sér stað fyrir rúnagaldra. Fyrst þarf að rista rúnastafina í einhverskonar efnivið, s.s. steina, súlur, horn, spjót, berki o.s.fv. Efnið sem slíkt virtist ekki skipta miklu máli. Eftir þetta eru rúnirnar bleyttar með blóði eða litarefni. Með því að rjóða rúnirnar var rúnameistarinn í rauninni að flytja megni sitt yfir í rúnina, enda tengdist blóðið viljamætti hans við galdur rúnanna. Eftir það er farið með formála, særingu eða söng yfir rúnaristunni. Í sumum heimildum er sagt frá margvíslegum aukaathöfnum sem fylgja rúnagöldrunum. Sjálfmögnun rúnameistarans skipti einnig miklu máli þar sem megni hans var settur í galdurinn og sá hann til þess að galdurinn virkaði eins og ætla bar. Sagt er að nauðsynlegt væri að skafa rúnirnar af til að eyða áhrifum þeirra meðan sumir segja að það hafi í rauninni verið til þess að leysa mátt þeirra úr læðingi.

Eins lengi og galdrar hafa verið til þá hefur verið til það fólk sem stundaði þá, og svo hefur einnig verið í hinum norræna heimi. Völva er hið norræna nafn yfir spákonu eða stundum fjölkynja konu. Helsti munurinn sem virðist vera á völvum og nornum er sá að nornir eru taldar skapa mönnum örlög eins og örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld. Völvur hins vegar sjá fyrir örlögin en skapa þau ekki. Völvur koma oft fram í Eddukvæðum og búa þær fyrir magnaðri vitneskju en einnig koma sumar fram í hinum ýmsu Íslendingasögum.

Talað hefur verið um galdramenn lengi í gegnum söguna. Það virðist vera að galdramenn, eða eins og þeir eru stundum kallaðir: galdrameistarar eða rúnameistarar hafi verið nokkuð margir hér á Íslandi. Þrátt fyrir að völvur og nornir hafi staðið galdrameisturum jafnar að vígi í Eddukvæðunum og öðrum fornkvæðum þá eiga galdrameistarar á 17. öld á Íslandi alla athyglina. Það hefur lengi talist undarlegt og er ekki vitað með vissu, hvers vegna galdramenn voru þeir sem urðu fyrir ofsóknum hér á Íslandi. Hvers vegna var það karlkynið hér á Íslandi sem var dæmt fyrir galdra? Þetta er vægast sagt óvenjulegt miðað við að út um alla Evrópu voru það konur sem urðu fyrir barðinu á ofsóknunum, þegar galdrafárið átti sér stað. Nornir voru stimplaðar sem illar og komnar af djöflinum. Það er samt merkilegt hvað kirkjan hefur spillt hugtakinu yfir nornir og galdramenn þar sem í fornöld, miðað við heimildir úr eddukvæðum og örðum fornsögum, var þetta fjölkunnuga fólk mjög virt þar sem þau héldu lyklinum að leyndardómum alheimsins.

Óðinn, guð goðanna og æðstur þeirra allra, þurfti eins og hver annar galdrameistari að ganga í gegnum mikla vígslu til þess að nema þá galdra sem hann kunni. Í Rúnatali Hávamála er sagt frá því, þegar Óðinn hekk í vindstroknum aski í níu nætur án þess að neyta matar né drykkjar. Hann var særður spjóti og þar sem hann er gefinn sjálfum sér, lítur niður og nemur upp rúnirnar. Að auki nemur hann níu fimbulljóð og fær drykk af dýrum mjöð, sem gæti reynst verið skáldamjöðurinn. Frá þeim miði vex þroski hans og viska og hann öðlast kraft til orðs og æðis. Þetta sem Óðinn gengur í gegnum, er einhverskonar vígsla þar sem hann fær opinberun fyrir leyndardómum heimsins í gegnum rúnirnar.

Galdrana sem Óðinn nam má skipta í 6 flokka. Fyrsta flokkinn má nefna Lækningargaldra. Galdrarnir sem flokkast í þennan flokk eru einungis tveir. Einn þeirra er sorgargaldur og hjálpar mönnum að komast yfir sorg og sút. Svo er hinn venjulegur lækningargaldur.

Næsti flokkur eru Varnargaldrar og eru þeir fimm talsins. Sá fyrsti tekur bit úr vopnum óvinarins, annar er lausnargaldur til að losa þig úr fjötrum sértu bundinn. Sá þriðji er vörn gegn meinum, sá fjórði gerir það að verkum að menn komi heilir úr bardaga og fimmti galdurinn kemur í veg fyrir fall í orrustu.

Næsta flokk má kalla Galdravörn en það eru þeir galdrar sem nota galdur beint til að verja sig. Sá fyrsti er til að stöðva spjót eða galdrasendingu, annar er til þess að hefta hatur og sá þriðji er vörn gegn galdrakindum.

Við tekur flokkurinn með Náttúrugöldrum. Þar eru galdrarnir tveir. Annar þeirra er til þess að stilla sjó og vind meðan hinn má nota til þess að slökkva eld.

Viskugaldrarnir eru nokkrir og veitir einn þeirra hæfileika til þess að tala við hina framliðnu meðan annar gerir Óðni kleift að þekkja allar verur. Sá seinasti eflir afl og frama.

Við þessum gáfulegu göldrum taka svo þrír Ástargaldrar. Þeir koma í þessari röð: gera Óðni kleift að ná ástum, halda ástum og svo undir lokin er hjúskapargaldur. Þetta munu vera allir þeir galdrar sem Óðinn lærði.

Í Eddukvæðunum er mjög mikið efni um galdra og rúnir. Í þeim er samt mest vitneskja um hvers konar galdra menn voru að nota en minna um hvernig það átti að nota þá. Hér að neðan verður farið stuttlega í nokkur kvæði sem gefa helst dæmi um galdra, en það eru Skírnismál, Gróugaldur og Sigurdrífumál.

Skírnismál fjalla um það atvik þegar Freyr, sonur Njarðar sest í Hríðskjálf og sá þá um heim allan. Þar sá hann í Jötunheimum mey nokkra sem heitir Gerður. Hann verður yfir sig ástfanginn og sendir Skírni, skósvein sinn, til að biðja um hönd Gerðar fyrir hans hönd. Skírnir fer og finnur meyna og eftir að hafa lofað henni öllu góðu, neitar Gerður enn. Þá tekur hann upp á að lofa henni öllum illum göldrum.

Hann bendir henni fyrst á einhverskonar galdrastaf sem hann ber í hendi sér. Hann fer þá að telja upp allt það illa sem hann muni gera henni. Hann fer einnig með nokkrar vísur sem hafa mjög sterk einkenni galdraþula. Sem dæmi má nefna:

Heyri jötnar,
heyri hrímþursar,
synir Stuttunga,
sjálfir ásliðar,
hve eg fyrirbýð,
hve eg fyrirbanna,
manna glaum mani,
manna nyt mani.

Þessi vísa er eins og ákall á allt og ekkert, æðri mátt til þess að magna galdurinn og færa honum kraft.

Gróugaldur eru vísur í Eddukvæðum þar sem sonur vekur upp móður sína til þess að leita hjá henni ráða. Hann biður hana loks um að kenna sér galdra. Hún gelur honum alls níu galdra. Meðal þessara galdra má nefna varnargaldur þar sem hann varpar frá sér öllu því sem hann telur illt, ferðagaldra, hitagaldur og varnargaldur gegn draugum. Nokkra galdra má þekkja úr Hávamálum, semsagt eitthvað af göldrunum sem Óðinn nam eins og lausnargaldur til þess að losna úr fjötrum og til þess að stilla sjó og vind.

Sigurdrífumál fjalla um það þegar Sigurður Fáfnisbani rekst á sofandi valkyrju sem hann vekur. Valkyrjan gefur Sigurði minniveig til þess að hann muni muna allt sem fer fram milli þeirra. Valkyrjan hét Sigurdrífa og felldi Hjálmgunnar nokkur í orrustu en Óðinn stakk hana með svefnþorni í hefnd og kvað að hún myndi aldrei sigra í bardaga aftur og að hún yrði að giftast.

Sigurður biður hana um að kenna sér speki og byrjar hún á því að kenna honum rúnir. Hún kennir honum sigrúnir, ölrúnir, bjargrúnir, brimrúnir og fleiri. Allar rúnirnar hafa sérstakan mátt eða þýðingu, eins og t.d. limrúnir voru ristar í tré og notaðar til lækninga og hugrúnir efldu vit og hyggindi. Eins og svo oft áður þá kveður hún einnig ellefu vísur með göldrum fyrir Sigurð. Galdrarnir sem hún nefnir eru t.d. galdur sem kemur í veg fyrir að menn sverji falsann eið og annar galdur er til að hann sjái fyrir illu. Flestir galdrarnir sem Sigurður lærir þarna virðast helst vera einhverskonar varnargaldrar.

Í Sigurdrífumálum er líklega mest vitneskja um hvernig átti að nota rúnirnar og galdrana. En þar kemur fram öðru hverju hvernig nota skal rúnirnar. Eins og þegar sigrúnirnar eru nefndar þá er sagt að nefna þurfti tvisvar Tý. Með ölrúnirnar að það þurfi að rista þær á drykkjarhorn og handarbakið og að rúnarstafurinn sé Nauð.

Trú á galdra á Íslandi hefur alltaf verið mjög sterk. Hin forna Ásatrú byggði auðvitað mjög á göldrum og jafnvel þótt kristin tæki yfir þá þraukaði eitthvað af þessari fornu vitneskju til dagsins í dag. Þrátt fyrir að þessi vitneskja sé ekki á allra vörum í dag þá er til fólk sem vill kynna sér þetta efni og læra um dulúð fortíðarinnar. Er þetta ekki eitthvað sem leynist í hjörtum flestra í þessum heimi? Að fá afhentan lykilinn að leyndarmálum alheimsins? En við getum huggað okkur við það að galdurinn er ekki horfinn algjörlega úr þessu samfélagi, við þurfum bara að kunna að sjá hann, allt í kring.
kveðja Ameza