Dyggðir og lastir trúarinnar Þetta er smá grein sem ég ákvað að skrifa. Ófullkomið lítið skrípi, sem er engan veginn tæmandi fyrir umræðuefnið. Ég vona þó að mitt hóflega framlag skemmti einhverjum.

Trúin er úrelt. Í dag er það skammtafræði!

Fyrir mér hljómar þetta ekki ósennilega. Þetta gæti verið meðal hinna mörgu úthrópanna gagnvart trúnni á hið æðra, sem hljóma vítt og breitt í dag. Þekkingarskarðið sem áður var breikkað með bænum og signum hefur í dag verið fyllt í með framrás vísindanna, kenningar sem áður þóttu góðar og gildar, s.s. að jörðin væri miðja alls, hafa verið afsannaðar, og trúin er á undanhaldi. Þetta er allt gott og blessað, það er augljóst að þær voru ekki á rökum reistar, og þrátt fyrir rígfestu ónenfndra trúarflokka hefur sannleikurinn sigrað. En til hvers er þá trúin? Eigum við ekki að senda hana suður, hvort sem hún er í formi hindúisma eða nornahyggju, og taka upp einfalda trú á Sannleikann? Eigum við ekki að sparka skaparnum á dyr, og kalla “Gott ist tot” og “Good riddance”?

Þetta er spurning sem ég hef mikið velt fyrir mér síðkastið, og mig langar til þess að deila minni skoðun á málinu (Sem er vissulega undir áhrifum ýmissa manna).

Til að byrja með, ætla ég að taka mér kristni sem dæmigerða trú, einfaldlega vegna nálægðar minnar við hana, og svo ætla ég að nefna nokkrar forsendur sem ég gef mér um trú. Í fyrsta lagi, ætla ég að gefa mér það að fólk sem trúir hafi tilhneigingu til að trúa, og fylgi henni. Ég ætla einnig að gefa mér það að hún veiti því fólki ákveðna fyllingu sem það á kannski erfitt með að finna annarsstaðar. Í öðru lagi, ætla ég að halda því fram, að rök hvorki fyrir né gegn trúnni séu fullnægjandi. Því er spurningin um trú ekki spurning um eitthvað sem er satt eða ósatt, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins. Svo í seinasta lagi ætla ég að nefna eitt, sem sumir virðast ekki átta sig á, að trúleysi er alveg jafn mikil afstaða og það að trúa; Hlutleysi er ekki mögulegt(Þessi liður er í boði William heitins James).

Þá getum við dembt okkur í mál dagsins. Það efast enginn um ágæti trúarinnar einnar og sér, heldur er það samhengið í kringum hana sem að sætir gagnrýni. Hún býður uppá misnotkun, biblían er gegn samkynhneigð, menn slátra hvorum öðrum í nafni hins og þessa, og trúin á það til að hefta framgang vísindanna. Er þetta ekki nóg til þess að afnema hana einfaldlega?

Eins og þetta stendur, er svarið já. En það er brýn nauðsyn að líta betur á málið. Hver getur haldið því fram, með fullri vissu, að trúin muni hafa þessar lastir í framtíðinni líka? Á síðustu öldum hafa ekki einungis orðið gríðarlegar framfarir á sviði raunvísinda, heldur einnig á sviði mannréttinda og siðferðis. Greinar eins og mannfræði eiga ýmsan heiður af þessu skilið, mannslífið er orðið talsvert meira virði. Hafa þá ekki sömu framfarir orðið innan trúarhreyfinga? Það hlýtur að vera. Það er ekki hægt að halda því fram að sannkristinn maður myndi myrða annan viljandi, heiðingja eður ei.

Ennfremur er trú, fyrir mér, fyrst og fremst tillfinningaleg afstaða, fremur en rökleg. Það sannfærist enginn um tilvist guðs með rökum fyrir því, og í raun hafa allar tilraunir til þess að koma með slík rök mistekist hrapallega. Nefna má þríhyrningsrök Descartes og hin ýmsu rök sem færð hafa verið fyrir “creationalism”. Að sama skapi hafa rök gegn tilvist guðs ekki heldur sannfært neinn sem var ekki fyrir sannfærður. Hver segir því að það megi ekki láta tilfinninguna vera fiðrildið á bagganum þegar rök beggja hliða standa í patti? Er það ekki undir tilfinningum hvers sem um ræðir komið hvort hann trúi eður ei, fyrst hann hefur á annað borð tilhneigingu til þess?

Af þessu, finnst mér bersýnilega koma í ljós hverjir vankantar kristinnar trúar eru, biblían. Bókstafstrú og mistúlkun á biblíunni er rót allra ofangreindra meina. Það er auðvelt að túlka 2000 ára gamlan texta sér í hag, og öfugt. Mér finnst það ennfremur mjög hæpið að guð myndi innræta inní ákveðna einstaklinga óþrjótandi þörf fyrir því að syndga upp hvers annars afturenda, á meðan að við hin eigum greiða leið inní himnaríki með okkar holdlegu fýsn. Það hlýtur þá, í mínum skilningi annað hvort að vera uppspuni eða misskilningur, af hálfu þeirra sem voru haldnir heilögum anda. Það er ekki hæpið að þessi dauðlegu peð hafi einfaldlega misskilið orð almættisins, eins litaðir og þeir voru af fordómum og tíðarenda þess þjóðfélags sem þeir bjuggu í. Hver þarf því að lesa biblíuna með skynsemi, og taka henni með örlítilli saltklípu.

Ennfremur, er það vandi biblíunnar, að hún reynir að bola sér inná svið sem hún á ekkert inná, svið vísindanna, og í þá samkeppni á hún ekkert. Margt er að finna innan hennar sem ekki hefur staðist prófraun sannleikans, og er oft mjög ósennilegt, m.a. fullyrðingar um það hvernig jörðin var sköpuð og hvenær, og jafnvel sköpun mannsins. Allt hljómar þetta mjög ósennilega fyrir skynsömum manni, og grefur í raun undan trúarbragðinu í heild sinni. Ennfremur, eykur það forheimsku manns sem leitar ekki frekari sanninda, heldur tekur einfaldlega biblíunni sem heilum sannindum, að lesa hana. En hvar liggur þá styrkur hennar?

Siðfræði biblíunnar, h er eitthvað sem heldur meira er varið í, og í þessu samhengi á ég kannski helst við boðorðin tíu. Það myndu fáir halda því fram að einhver yrði verri maður á því að fylgja þeim, ef hann á annað borð tæki þau til sín. Það er tæpt að gagnrýna þau, né heldur kristni almennt án þess að vitna í fyrri ódæði í hennar nafni. Ennfremur, færir kristnin okkur, sem og önnur trúarbrögð, ómetanlega menningarverðmæti. Þau auðga líf bæði þeirra sem stunda hana og þeirra sem það gera ekki, veita mönnum innblástur til fögrustu listaverka og gerir eflaust að betri mönnum. Trúleysi sviptir lífinu ákveðnum blæ, og jafnvel missir þú af þeirri festu og lífsseigju sem hinn trúaði hefur oft. Það er því um að gera, að trúa því sem þú kýst, en í guðs bænum, ekki láta trúnna blinda skynsemina í þér.