Formáli

Ég átti í skemmtilegum og uppbyggilegum samræðum við einn lesanda í síðustu grein minni hér á undan sem nefnist “Er trúin slæm eða góð?”. Lesandinn sem gæti verið fulltrúi fyrir margt leitandi fólk lætur að því liggja að það skipti ekki máli hvort trúin sé góð eða slæm þar sem trúin sé hvort sem er ósönn að hans viti. Ég spurði hann þá hvort að hann tryði ekki á hið góða, fagra og fullkomna. Hann játaði því vegna þess að hann hefði vissu fyrir því að slíkir eiginleikar væru sannir (raunverulegir) en hið sama ætti ekki við um trúarbrögð eins og kristni, íslam og gyðingdóm (ég verð að hafa þann fyrirvara á að mér er ekki ljóst hvort að viðmælandi minn hafi meiri trú á t.d. austrænum trúarbrögðum). Þessi fullyrðing hitti mig í höfuðið eins og sleggja sem varð tilefni að eftirfarandi grein:

Hið góða, sanna, fagra og fullkomna er einmitt það sem mörg okkar trúum á. Við klæðum það bara í mismunandi búning eftir efnum og ástæðum til þess að gera þessa huglægu eiginleika áþreifanlegri og meðfærilegri. Við finnum okkur mismunandi fyrirmyndir eða “átrúnaðargoð” sem eru hæfilega lík okkur en samt svo góðar að við getum haft þær okkur til eftirbreytni. Við leitum að og finnum þessa eiginleika í margs konar mannlegum fyrirmyndum sem eru ofureðlilegar og nauðsynlegar fyrir þroska okkar, þó þær geti verið mismunandi hollar og góðar, eins og foreldrar, kennarar, íþrótta- og poppstjörnur og félagar eru dæmi um. Við trúum því að við öðlumst alla þá góðu eiginleika sem við sækjumst eftir því betri sem fyrirmyndir okkar eru.

Sum okkar teljum reyndar að hið góða, sanna, fagra og fullkomna séu svo guðdómlegir eiginleikar að enginn mannlegur máttur gæti uppfyllt þá. Þess vegna gerum við okkur í hugarlund að til sé vera ofar mannlegum skilningi og breyskleika. Til þess að geta nálgast og skilið betur þessa algóðu og fullkomnu veru leitum við að “holdgervingum” eða fulltrúum hennar hér á jörðu sem við eignum alla þá góðu eiginleika sem vera þessi er gædd. Þessir guðdómlega gæddu menn heita nöfnum eins og Móse, Jesú, María guðsmóðir, Búdda, Krishna og aðrir dýrlingar. Til að gera þessar verur handgengari okkur stofnum við alls kyns skipulögð trúarbrögð til þess að við getum haft betur að leiðarljósi hvernig þessir fyrirmyndar menn og konur nálguðust það að verða guði líkastir þar sem þeir birti alla þá góðu eiginleika sem guði eru eignaðir og við sækjumst eftir.

Þessi vera sem við teljum vera lífsgrundvöll okkar trúum við að sé svo fullkomin og kærleiksrík að hún bregst okkur aldrei, vera sem við getum öðlast meiri hlutdeild í eftir því sem við náum að samsama og samkenna okkur við meir og meir. Það gerum við með því að taka fulltrúa hennar hér á jörðu okkur til eftirbreytni sem endurspegla best eiginleika hennar. Þó að við komumst sennilega aldrei á það stig að standa jafnfætis þessari fullkomnu veru gætum við nálgast óendanlega mikið að verða hliðstæð henni og öllu því góða, sanna, fagra og fullkomna sem hún stendur fyrir.

Málið er að við í ófullkomleika okkar og breyskleika getum aldrei skilið til fulls þessa fullkomnu veru sem er ofar öllum skilningi. Það er kannski eins gott því þá væri hætt við að við myndum draga hana niður á það stig sem við stöndum. Þá væri þessi guð aðeins hugarfóstur okkar eða skurðgoð sem við hefðum skapað í eigin mynd. Hún myndi því einungis endurspegla okkar eigin draumóra, óskhyggju og ófullkomleika.

Þar sem veran er samkvæmt skilgreiningu handan alls mannlegs mælikvarða virðumst við vera dæmd til þess að taka þá áhættu að trúa á tilvist hennar og sýna þá hugdirfsku og áræðni að treysta á forsjá hennar og kærleika, að hún muni vel fyrir sjá ef við tökum hana til eftirbreytni og felum okkur henni á vald.

Spurningin sem ég er að velta fyrir mér er eftirfarandi:
Hvað með ef þessi vera er ekki til og aðeins tilbúningur í huga hjálparvana mannkyns, sama hversu háleit og göfug slík hugsjón væri?

Skiptir það í raun nokkru máli hvort Guð eða trúin sé raunveruleg ef tilgangurinn helgar meðalið, þ.e. ef trú okkar á þessa ímynd okkar gerir okkur að betri mönnum en við ella værum? Værum við betur komin án þessarar göfugu og háleitu hugsjónar okkar eða “blekkingar og ranghugmyndar” eins og þú lesandi góður myndir ef til vill vilja kalla hana. Hefur þú “brjóst í þér” til þess að svipta “hina trúuðu” þessu bjargráði eða “tálsýn” þeirra?

Ef þú ert svo “harðsvíraður” lesandi góður að láta ekki telja þér hughvarfs, þá þætti mér vænt um að þú segðir mér og öðrum lesendum hvernig þú ætlar að fara að því að afnema eða afsanna trú okkar á hið guðlega, hvort sem trúin heitir, kristni, íslam, gyðingdómur, hindúasiður, búddhadómur eða eitthvað annað?

Ég dáist í aðra röndina af kokhreysti hins unga manns (konu?) sem ég átti í orðaskiptum við en hann (hún?) ætlaði að leysa lífsgátuna í einum vettvangi si sona með því að hrista hana fram úr erminni, bara til þess að drepa tímann og forða sér frá leiðindum. Þó að hér sé hraustlega mælt og í sönnum víkingaanda þá skora ég samt á aðra lesendur að láta ekki sitt ekki eftir liggja við að skapa skemmtilegar og uppbyggilegar umræður um þetta grundvallarmál sem snertir tilveru okkar allra.