KENNINGAR SÁLGREININGARINNAR:


Kenningar Freuds um eðli trúarbragða

Freud leit á trúna sem allsherjarblekkingarvef og sameiginlega tauagaveiklun mannkynsins. Þannig væru háttbundnir og reglufastir helgisiðir og trúarathafnir sambærilegir eða hliðstæðir við áráttusýki og þráhyggju, og gegni sama hlutverki, þ.e. aðferð til að draga úr kvíða og ótta.

Freud gerir ráð fyrir að hinn trúaði finni fyrir hjálpar- og umkomuleysi gagnvart vandamálum lífsins, hann þrái öryggi og vernd bernskuáranna. Þessa vernd veitti faðirinn með ást sinni og umhyggju. Trúarþörfin birtist þá sem bakrás og afturhvarf til þessa bernskuskeiðs þar sem guð í líki hins almáttuga föður leiðir manninn og verndar og er honum góður. Einnig gætir nokkurs tvískinungs í afstöðu mannsins/barnsins til guðs/föðurins. Hann vill verða stór, sterkur og sjálfstæður eins og faðirinn. En til þess að verða aðnjótandi verndar hans og umhyggju verður hann að vera hlýðinn og undirgefinn. Hann getur ekki annað og fyrir vikið er hann bitur og öfundsjúkur, jafnvel svo að hann óskar föðurnum feigðar. En við það vaknar ótti og sektarkennd sem hann ræður ekki öðru vísi við en að bæla niður, sem veldur enn frekari taugaveiklun.

Freud telur að þar fyrir utan gegni trúarbrögðin tvenns konar hlutverki. Í fyrsta lagi sé litið á náttúruna sem sköpunarverk guðs. Með átrúnaði á hana getum við blíðkað guð og þar með náttúruna. Að sama skapi getur trúaður maður bætt fyrir brot sín (syndir) með að blíðka föðurinn með einhvers konar syndaryfirbót (sbr. friðþægingardauði Krists). Í öðru lagi sætti trúarbrögðin manninn við skert hlutskipti í lífinu þar sem hann eigi betra líf í vændum fyrir utan gröf og dauða sé hann guði þóknanlegur. Í þessu felst nokkurs konar réttlæting fyrir þjáningum sem hann má líða. Karl Marx kom með ámóta kenningu sem hann útlagði á þann hátt að trúin gerði hinum fátæku (öreigunum) fært að sætta sig við örbirgð sína í óréttlátu þjóðfélagi, sbr. hin fleygu orð að trúarbrögðin séu “ópíum fyrir fólkið”.

Freud trúði því að þegar maðurinn kæmist á hærra þroskastig myndi skynsemin og vísindin losa hann við blekkingu trúarinar og hann yrði þess umkominn að takast á við raunveruleikann með skynsemina og vísindin að vopni. En til þess að svo gæti orðið, þyrfti að draga úr trúarinnrætingu á barnsaldri því að trúarinnrætingin gengur þvert á helbrigða skynsemi og hafi það skaðleg áhrif á þróun greindar hjá barni á viðkvæmum aldri að trúa gagnrýnislaust. Einnig telur Freud að draga verði úr of miklum kynferðislegum hömlum til þess að persónuleiki manna geti notið sín.


Kenningar Erichs Fromm um trúarþörfina

Fromm er framarlega í flokki umbótasinna innan sálgreiningarinnar sem reyndu að bræða saman freudískar og marxískar kenningar. Hann skilgreindi trú sem hugmyndakerfi og athafnir sem maður aðhyllist. Hún gefi honum haldfestu og stefnu í lífinu sem hann beinir hollustu sinni og elsku að. Trúin er meðfædd og eðlislæg segir Fromm. Maðurinn tjái þessa þörf annað hvort á uppbyggilegan og þroskavænlegan hátt eða niðurbrjótandi og þroskahamlandi.

Fromm gerir greinarmun á frumstæðri og þroskaðri trú sem endurspegli þróunarferil mannsins. Þessar hugmyndir byggja á úreltum hugmyndum félagsfræðingsins August Comte, föður félagsfræðinnar og vísindalegra aðferða innan hennar, sem flestir nútíma félagsvísindamenn hafa hafnað. Þá sé litið á andatrú, og trú á stokka og steina sem lægsta stig trúarþarfarinnar, sem þróist yfir í hjáguða- og fjölgyðistrú, og þaðan í eingyðistrú sem greinist í manngerða eiginleika móðurveldisdýrkunar þar til æðsta þróunarstiginu sé náð í föðurveldisdýrkuninni. Ef vel er að gáð megi finna öll þessi “frumstæðu” stig í afleiddri mynd innan okkar vestrænu kristnu menningar.

Samkvæmt Fromm má finna innan “þróaðra” trúargbragða tvenns konar afbrigði, þ.e. annars vegar gerræðislega trú sem byggir á ytri valdboðum og auðsveipni sem styðst við duttlungafullar siðareglur. Að hans mati sé lúterstrú og kalvinstrú dæmi um slíkt (Fromm var Gyðingur eins og allir góðir sálgreinendur á hans tíma). Hins vegar megi finna mannúðlega trú þar sem áhersla er lögð á þroska mannsins í samræmi við almennar siðareglur og viðmið, styrk einstaklingsins (sbr. maðurinn sé skapaður í Guðs mynd) frekar en veikleika (sbr. maðurinn sé aumur syndari). Sannfæring byggist á gagnrýnni hugsun, leit og tilraunum frekar en auðsveipni og blindri trú. Dæmi um menn sem höfðu þessar lífsreglur að leiðarljósi hafi verið Jesú,
Sókrates og Búdda. Dulhyggja innan helstu trúarbragða byggi einmitt á mannúðlegum sjónarmiðum að mati Fromm.

Fromm ætlar að í mannúðlegri trú sé guð tákn fyrir æðri, þroskaðri og betri vitund mannsins, sem standi fyrir þá meðfæddu og blundandi hæfileika sem maðurin geti þroskað með sér. Hún veki kenndir hjá manninum um að hann standi ekki einn og hjálparvana í tilverunni eins og títt er hjá þeim sem styðji sig við hækjur gerræðilegra trúarhugmynda. Öðru nær, maðurinn sé hluti af stærri heild, allt frá vitund hans um sig sem einstakling, fjölskyldu sína og vini, samfélagið og að lokum heiminn allan, náttúruna og lífið sjálft í alheiminum. Það sé æðsta markmið trúarinnar að sameina kraftana, sbr. lífspeki fornmannanna, sameinaðir stöndum vér og sundraðir föllum vér. Skilgreiningin á jóga og re-ligio þýðir einmitt að binda eða tengja saman, þ.e. vitundina um einingu alls.

Í gerræðislegri trú eignar maðurinn guði því besta sem hann á, þ.e. skynsemi sinni og ást á sinn eigin kostnað. Eftir stendur hann slyppur og snauður og rúinn inn að beini, firrtur viti og ráði. Án máttar síns og megin er maðurinn ófær um að standa á eigin fótum og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Hann er þrælslega háður mönnum og trúarkerfum sem standa fyrir og styðjast við guðsímynd hann.

Að mati Fromms byggðu alræðisþjóðfélög á borð við kommúnistastjórnirnar í Kína og Sovétríkjunum, fasistastjórnirnar á Ítalíu og Spáni og nasistastjórnin í Þýskalandi á gamalli trúar- og félagsarfleið feðraveldisins þar sem margra alda þrælslund og auðsveipni gagnvart trúarlegum og veraldlegum yfirvöldum gerðu íbúana auðvelda bráð fyrir slíkar gerræðisstjórnir. Svipaða sögu má segja um hið stéttbundna samfélag hindúa að mörgu leyti. Annar lærisveinn Freuds, Wilhelm Reich að nafni, útlistaði þessu samhengi meistaralega í bókinni The Mass Psychology of Fascism.

Að mati Fromm er sálgreining ekki í andstöðu við trúna heldur styrki hún og efli mannúðlega eiginleika trúarinnar sé rétt á málunum haldið.


Heimildir

August Comte:
sjá Félagsfræði fyrir framhaldsskóla.

Erich Fromm:
The Fear of Freedom.
Man for himself.
Sane Society.


Karl Marx:
Das Kapital.

Sigmund Freud:
The Future of an Illusion.
Moses and Monotheism.
Civilization and its discontents.

Wilhelm Reich:
The Mass Psychology of Fascism.
Listen, Little Man.