3. Rætur kristinnar trúar

Árið 722 f.Kr. lögðu Assýríumenn Ísraelsríkið í rúst. Íbúar þess, hinir tíu týndu ættkvíslir, hurfu algerlega af sjónarsviðinu. Í Babýloníu herleiddi Nebúkadnesar konungur Gyðinga árið 586 f.Kr. í fjörutíu ára útlegð. Á þessum tíma skrifuðu Gyðingar Gamla testamentið til að viðhalda sérkennum sínum gegn heiðnum áhrifum sem voru farin að gæta í trúarlífi þeirra.

Messíasarhugmyndina má rekja til Súmera og forn-semíta þar sem litið var á konunginn sem bjargvætt þjóðarinnar. Honum var fórnað og hann látinn taka á sig syndir fólksins líkt og syndahafurinn hjá Gyðingum. Gyðingar tóku messíasartrúna með sér frá útlegðinni í Babýloníu til Ísraels eftir að Persar leystu þá úr ánauðinni. Trúarkenningar Persa féllu því að vonum í góðan jarðveg hjá Gyðingum eins og heimsendaspár Daníelsbókar gefa til kynna.

Mítratrú Persa sem Zaraþústra boðaði byggir á baráttu á milli ljóssins og myrkursins, hins góða og illa. Hann spáði komu endurlausnarans Mítra samfara miklum bardaga og uppgjöri á efsta degi sem endar með sigri yfir myrkravöldunum. Hann vekur upp hina dauðu og kveður yfir þeim dóma. Svo snýr guð ljóssins aftur til himna og er krýndur stjórnandi heimsins af sólguðinum Ahura Mazda. Zaraþústra sagði einnig fyrir um jómfrúarfæðingu frelsarans og um fjárhirða sem vöktu yfir honum nýfæddum.

Mítratrúin var vinsæl á meðal snauðrar alþýðu um hinn grísk-rómverska heim. Þegar kristnin varð rómversk ríkistrú átti kirkjan því láni að fagna að sjá spásögnina um Mítra rætast í Jesú Kristi. Hún tileinkaði sér einnig hátíðarhöld og helgisiði kirkju Mítrareglunnar. Þar má nefna sex sakramenti, blessun brauðsins og vínsins og sunnudagsguðþjónustur til heiðurs sólguðinum. Gyðingar halda aftur á móti hvíldardaginn heilagan á laugardögum til að minnast þess að Drottinn hvíldi sig á sjöunda degi eftir sköpun heimsins. Péturskirkjan í Róm er byggð upp á gömlu mítrahofstæði og páfinn er kallaður Pater Patrum eftir æðstapresti Mítraátrúnaðarins. Einnig hélt Mítratrúin veglega vorhátíð ár hvert sem minnir á páskahátíðina.

Jólin bera upp á fæðingardegi Mítra þann 25. desember sem markar endurkomu ljóssins þegar dag fer að lengja og sigur þess yfir myrkrinu við vetrasólhvörf, samanber jól ásatrúarmanna. Um miðnæturtíð jólanna voru skilyrðin ákjósanlegust til að vekja upp innra ljós hinnar andlegu sólar í vígsluathöfnum hjá lærisveinum í launhelgum til forna. Samkvæmt mannspeki (Anthroposopyhy) Rudolfs Steiners fæðist sonur Guðs, frelsarinn Kristur, í brjósti lærisveinsins á jólanóttinni. Lífið sigrar dauðann þegar andlega sólin rís eftir niðurlag líkamlegu sólarinnar (sbr. Jh 3.30: “Hann á að vaxa, en ég á að minnka”). Þannig fæddist Jesús Kristur úr hinu lægsta í fjárhúsinu í Betlehem til hins æðsta, frá myrkrinu til ljóssins (sbr. Fl 2.7-9).

Kristnin var lagin við að taka ýmis goð í kristna dýrlingatölu og laga heiðnar trúarhátíðir að sínum. Sagan um dýrlingana Barlaam og Jósaf er til dæmis skemmtileg umritun á æviskeiði Gautama Búddha sem katólska kirkjan heldur upp á þann 23. nóvember. Siðabótamanninum Martein Lúter má “þakka” fyrir þann gjörning að hafa afnumið dýrlingadýrkun á meðal mótmælenda. Víða má enn finna búddhískan boðskap Jesú Krists í guðspjöllunum sem hann tileinkaði sér á Austurlöndum eða eru seinni tíma viðbætur.


Heimildir

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Elmar R. Gruber & Holger Kersten. The Original Jesus. The Buddhist Sources of Christianity. Element. Shaftesbury, Dorset, 1955.