Þetta er í rauninni svo sjálfsagt að þetta þarf varla að taka fram. Engu að síður, þar sem hið sjálfsagða er svo sjaldan sagt á það það til að gleymast. Því ætla ég hér að taka fram hver munurinn er á vísindum og trú, benda á hvers vegna vísindi eru ekki trú og öfugt, hvers vegna vísindin munu ávallt bera höfuð og herðar yfir trú og hvers vegna við ættum aldrei að reiða okkur á trú sem grundvöll lífsins umfram vísindi.

Vísindi
Vísindin eru ekki einhver myrk öfl sem vinna að því að úthýsa ást, virðingu og samvisku úr heiminum. Þau eru aðferðafræði sem við notum til að afla okkur þekkingar. Þessi aðferðafræði virkar til að komast að öllu sem til er í þessum heimi. Vinsæl lýsing á „vísindalegu aðferðinni“ til að komast að sannleikanum er skrefin fjögur (sem eiga það til að vera fimm):

1. Athugaðu viðfangsefnið og greindu stök atriði þess.
2. Smíðaðu kenningu sem útskýrir fyrirbrigðið.
3. Athugaðu hvernig og hvað má segja fyrir með kenningunni.
4. Prófaðu kenninguna út frá forspám hennar.

Þetta er kerfisbundin rökhugsun sem er eina leiðin til að komast að staðfestanlegum niðurstöðum. Með þessari aðferð var til dæmis ákveðið í barnæsku læknisfræðinnar hvaða lyf grasalækninganna virkuðu og hver ekki, þ.e. hvaða lyf átti að nota. Virkaði það? Meðalaldur okkar er nú minnst tvöfaldur á við þá tíma og það er ekki tarot-spádómum eða tígrisdýrstyppum að þakka.

Trú
Að trúa einhverju eða á eitthvað er að reiða sig á það án þess að hafa ástæðu til þess. Það er einfaldlega órökstutt traust. Ástæðulaust traust. Að trúa er lægsta form rökhugsunar, maður fleygir henni satt að segja út um gluggann. Ef eitthvað í trúnni fær minnstu staðfestingu þá verður það að eiga sér stað með vísindalegu aðferðinni og verður þannig hluti þekkingar, hættir sem sagt að vera trú.
Einfaldlega orðað, um leið og trú verður skynsöm og staðfestanleg hættir hún að vera trú.

Svo…
…trú getur aðeins gefið eftir fyrir vísindunum, nema maður skáldi nýja hluti í eyðurnar, óígrundaða vitleysu eins og “Tarot”, grasalækningar, hugsanalestur og stjörnuspár, hluti sem í besta falli eiga sér veraldlega og eðlilega skýringu en í versta falli eru hreint og beint bull.