Árumyndatakan sem ég fór í var ekki skapgerðar myndataka. Konan sem tók myndina sagði að þannig væri til en þetta væri ekki svoleiðis. Þetta sýnir hvernig hún er þegar hún er stöðug. Konan hefur auðvitað oft tekið myndir af sjálfri sér, og það er alltaf blátt, það kemur reyndar fjólublátt þegar hún er í hugleiðslu eða listsköpun, en grunnurinn er blár. Ég fékk líka myndband, sem sýndi nokkrar mín. og það breyttist ekki mikið, nema það að grænu og bláu litirnir flæddu um og svo komu gulir flekkir stundum, auk þess sem að tvisvar kom fjólublár blossi. Þeir sem eru með græna áru eru oft miklir dýravinir og svolítið félagslyndir. Gult er mjög félagslynt og eru nær alltaf með einhverjum. Blátt er mjög viðkvæmt, getur farið að gráta út af engu og þolir ekki margmenni. Rautt er jarðbundið og þannig manneskjur hafa oftast áhuga á bílum eða einhverju svoleiðis. Fjólublátt er frekar óstöðugt því það er á milli rauða, sem er jarðbundinn, og bláa litsins sem er frekar mikið upp í skýjunum, svona draumóra manneskja. Það var útskýrt fyrir mér að það væri svona týpa sem er eina stundina að berjast gegn dýra drápi og fer svo út í búð og kaupir sér pels. Grænt og blátt eru þeir litir sem hafa mestan áhuga á dulrænu. Gott er að vera með grænt líka þegar maður er með blátt því grænt styrkir bláa og kemur honum niður á jörðina.