Hvað er Shamanismi?
Shamanismi er hugtak sem á við mjög mörg mismunandi kerfi sem eiga þó öll nokkra hluti sameiginlega. Ekkert er vitað um uppruna Shamanisma en sumir halda því fram að iðkun Shamanisma sé eldri en öll skipulögð trúarbrögð. Shamanismi er því ekki trúarbragð út af fyrir sig, og manneskja getur verið Shaman auk þess að iðka önnur trúarbrögð, en allir Shamanar eiga þó einhverjar trúarhugmyndir sameiginlegar. Vitað er að Mayarnir hafi stundað visst form af Shamanisma , þannig það má fullyrða með vissu að þetta sé mjög gamalt trúarkerfi. Shamanismi hefur oft verið kallað andatrú á íslensku, því andar eru mjög mikilvægir innan allra kerfa Shamanisma. Andarnir gegna ýmsum hlutverkum, en t.d. má nefna að fólk sem aðhyllist Shamanisma trúir því að andarnir geta haft mikil áhrif á okkur og okkar daglega líf. Shaminsma má finna í mismunandi myndum um allan heim, en oft er trúariðkun Indjána og ýmissa ættbálka í Asíu einhverskonar fyrirmynd Shamanisma.

Manneskja sem stundar Shamanisma og kallast Shaman (eða andalæknir) trúir því að hún geti notað sér andana í ýmissi vinnu, að andarnir hjálpi þeim til þess að heila. Fólk sem aðhyllist þessa stefnu trúir því að andalæknirinn geti heilað og læknað ýmsa kvilla, bæði líkamlega og andlega, með því að framkvæma helgiathafnir og vinna með öndunum. Talið er að á meðan ýmsum helgiathöfnum stendur, yfirgefi andi Shamansins líkama hans og ferðist um hina mörgu ósýnilegu heima, en Shamanar fara oft í einhverskonar trans ástand á meðan athöfnum stendur yfir.

Náttúran er mjög mikilvæg í Shamanisma enda er hún talin vera heilög og allt sem tilheyrir náttúrunni er talið lifandi og búa yfir eigin sál. Shamaninn getur haft samband við þessar sálir og notfært sér þær í vinnu sinni. Dýr eru líka gríðarlega mikilvæg og fólk sem aðhyllist Shamanisma trúir því að hvert og eitt dýr hafi eitthvað til þess að kenna mannfólkinu, einhverja vitneskju sem það kemur með til okkar. T.d. ef manneskju myndi dreyma tígrisdýr væri það talið merki um að þetta tígrisdýr hefur eitthvað að kenna manneskjunni, og þessi lexía er oft túlkuð út frá stöðu og hegðun dýrsins. Tígrisdýr er talið bera vitneskju um hugrekki og styrk. Einnig er talið að viss dýr fylgi vissum manneskjum, þessi dýr eru kölluð “totem” dýr eða andar.

Shamanisma fylgir sú trúarhugmynd að hinn sýnilegi heimur sé alltaf fylltur með ýmsum hlutum sem eru ekki sjáanlegir, t.d. öndum, sálum, ofl. Það er ekki trúað á neinar sérstakar gyðjur né guði, þó svo að Shamaninum sjálfum sé leyfilegt að hafa tigna vissar verur ef honum langar til þess, og oft tilheyra Shamanar einhverjum öðrum trúarbrögðum á sama tíma og þeir eru Shamanar. Eins og áður hefur verið nefnt má finna þetta trúarkerfi og iðkun sem er svipuð þessu alls staðar um heiminn, t.d. má nefna að Shamanismi hefur verið stundaður í ýmsum eskimóaasamfélögum, og ennþá má finna í dag þessa iðkun í Alaska. Einnig hefur Shamanismi mikið verið iðkaður í Asíu, þá aðallega Síberíu og Kóreu.

Kjarni Shamanismans er heilun, og iðkunin er í flestum tilfellum með það eina markmið að geta heilað fólk, en sumir telja að Shamanar hafi kraft til þess að bæði gefa líf og taka það, heila og skaða. Þó svo að trúað sé að þeir hafi kraftana til þess eru þeir þó nánast undantekningarlaust í þjónandi hlutverki fyrir samfélagið, og vinna því með heilun og skapandi krafta.

Vegurinn til uppljómunar – að gerast Shaman
Shaman er talinn vera manneskja sem býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og kann að vera í sambandi við aðra heima. Þessi manneskja getur séð og læknað mannlegar þjáni gar, bæði af andlegu og líkamlegu tagi. Lengi hefur verið taliðað til þess að gerast Shaman verðir þú að ferðast niður ákveðin veg í lífinu, og þessi vegur byrjar með áfalli eða miklum andlegum eða líkamlegum veikindum. Þetta er ekki skilyrði fyrir þá sem langar til þess að verða Shaman (enda er það mismunandi eftir menningum), hins vegar hafa rannsóknir á hinum ýmsu Shamaniskum samfélögum sýnt fram á að algengt er að upphaf vegsins fyrir Shamana byrjar oft með slíkum hætti.

Manneskjur sem gerast Shamanar gerast það yfirleitt út af því að foreldri þeirra var Shaman og hæfileikarnir taldir ættgengir, eða af því að andarnir hafa ákveðið það . . Eftir að manneskja hefur séð það að hún eigi að ferðast þessa leið í lífinu er hefðbundið að hún fari sem lærlingur hjá Shaman samfélagsins og læri hjá honum þangað til að manneskjan er tilbúin til að vinna sjálfstætt.

Núna í dag eru að sjálfsögðu ekki Shamanar í hverju samfélagi og þess vegna hefur fólk sem aðhyllist nútíma Shamanisma kennt sjálfu sér og ferðast veginn sjálf. Talið er að meirihluti Shamana fyrr á tímum hafi verið karlmenn en það þekktist líka að konur urðu slíkir. Bæði kynin aðhyllast nútíma Shamanisma. Hlutverk Shamansins er að gegna einhverskonar leiðtogahlutverki innan samfélagsins. Hann á að vera reiðubúinn undir það að meðlimir samfélagsins leiti til hans eftir með vandamál af ýmsum toga, oftast þó vandamál með heilsu og líkamann. Shamaninn á að vera tilbúinn í að geta veitt stuðning og ráðgjöf sem og heilun.

Aðferðir og verkfæri
Eins og með flest öll trúarbrögð eru vissir hlutir sem Shamaninn notfærir sér í helgiathöfnum sínum en Shamanismi er frægur fyrir notkun á vímuefnum til þess að komast í breytt hugarástand . Dæmi um þessi efni eru kannabis, ýmsar sveppategundir, salvia divinorum (jurt), ofl. Ásamt því að nota efni til þess að koma sér í breytt hugarástand notast Shamanar við ýmsar aðrar aðferðir, t.d. söng, hugleiðslu, dans, trommuleik, föstu, ofl. Tónlist er talin vera mjög öflugt verkfæri til þess að komast í breytt hugarástand og þá er sérstaklega notað mikið af trommum og reynt að skapa takt sem andalæknirinn dansar svo við til þess að breyta skynjun sinni. Trommuleikurinn hjálpar honum að fara í ferðalag og nálgast ósýnilega heima.

Athafnir sem gerðar eru til þess að heila geta verið mjög mismunandi á milli menningarhópa og Shamana. Í sumum gerðum Shamanisma er talið að ef manneskja er veik þá vantar hana eina af mörgum sálum sínum, og þá framkvæmir Shamaninn trúarlega athöfn þar sem sálin er sótt í annan heim og sett aftur inn í líkama manneskjunnar sem er veik. Yfirleitt eru sálirnar mjög mikilvægar í heilun Shamansins, t.d. ef Shaman á að lækna ófrjósemi konu þá á hann að ferðast inn í aðra heima og sækja sál hins ófædda barns og þá getur konan eignast barnið .

Lokaorð
Mjög erfitt er að nálgast þetta trúarkerfi vegna þess hve rosalega mismunandi það getur verið eftir svæðum og hópum. En það virðist vera fleiri ástæður fyrir því af hverju það er erfitt að nálgast þessa iðkun, en hún virkar sem mjög persónuleg og andleg iðkun og erfitt er kannski að lýsa því í orðum hvernig slík iðkun fer fram. Trúarhugmyndir Shamana minna mjög á ýmis önnur heiðin trúarbrögð, náttúrudýrkun, ofl. Sumir segja að þessi trúariðkun hafi fylgt mannkyninu frá upphafi. Þetta er því eiginlega hið einfaldasta af öllum trúarbrögðum, eða jafnvel grunnur trúarbragða, og þar sem náttúran er einstaklega heilög innan Shamanisma má velta fyrir sér hvort að náttúran sé upphaf og grundvöllur allra trúarbragða.

Heimildaskrá
K’ul Ahaw – Divine Lords and Shamans of the Forests. Skoðað 15.04.2008
http://www.mc.maricopa.edu/dept/d10/asb/anthro2003/legacy/mayan_lost_tribes/mayan_center.html

Shamanism. Wikipedia. Skoðað 16.04.2008
http://en.wikipedia.org/wiki/Shamanism

Shamanism. The Mystica. Skoðað 18.04.2008
http://www.themystica.com/mystica/articles/s/shamanism.html