Ég verð að segja ykkur frá ýkt furðulegum draumi sem hefur fengið mig mjög mikið til að hugsa. Enginn veit hvað gerist þegar maður deyr. Engum tekst að komast að því fyrr enn maður er dáinn og ekki getur dáinn maður sagt lifandi hvernig það var að deyja. Allavana er það mikill leyndardómur sem ég var næstum búin að komast að á meðan ég var sofandi.

Mig dreymdi að ég var inni í svefnhefbergi hjá mömmu, það var nótt og það var dimmt, ég man ekki hvað ég var að gera þarna, kannski að leita að mömmu en hún var ekki þar, ljósið var slökkt og ég horfði út um gluggann. Ég sá pínulítið en skært ljós blikka á himninum og ég heyrði háværan hvell. Ég hugsaði strax að heimsendir væri í nánd og mér fannst þetta mjög spennandi og hélt áfram að horfa á himininn. Ljósið blikkaði aftur og ég heyrði annan hvell og þegar þriðji hvellurinn kom, þá stækkaði og stækkaði ljósið og ég vissi að þetta voru endalokin, allt var að þurrkast út og þá öskraði ég eins hátt og ég gat ,,HEIMSENDIR!!\“ og vonaði að systir mín í öðru herbergi heyrði til mín en það gerði hún örugglega ekki því að hljóðið úr mér þurrkaðist út með þessarri gífurlegri sprengingu og ljósi. Allt varð hvítt, ég var dáin og ég varð mjög spennt og hugsaði: ,,núna á ég eftir að komast að því hvað verður um mann þegar maður deyr\”. Ég var ekki hrædd, bara spennt um að vita en þá hrökk ég allt í einu upp, vaknaði bara allt í einu, þótt mig langaði bara alls ekki til þess eins og eitthvað hindraði mig í að fá að vita sannleikann. Ég varð bæði reið og hissa þegar þetta gerðist og hafði ég aldrei áður vaknað bara svona allt í einu, þetta gerðist svo snöggt, hvað var þetta eila sem vakti mig? Það var eitthvað sem kom í veg fyrir það að ég fengi að vita!

Hvað finnst ykkur um þetta?