Þýskur munkur að nafni Nikhilananda (Nikki) er væntanlegur til landsins innan tíðar til þess að kynna andlegan boðskap hinnar indverskættuðu Hare Krishna hreyfingar.

Umrædd hreyfing hefur orðið einna þekktust á Vesturlöndum fyrir að hafa verið á meðal þeirra sem stuðluðu að blómahippabyltingunni svo kölluðu á 6. og 7. áratugnum (sbr. poppóperan Tommy). Ýmsir þekktir tónlistamenn hafa orðið hreyfingunni handgengnir eins og bítlinn George Harrison, popparinn Boy George og söngkonan Sinead O'Connor svo nokkrir séu nefndir.

Nikki er eflaust mörgum Íslendingum kunnugur því hann hefur tekið ástfóstri við landið og þjóðina og hefur dvalið hér nokkrum sinnum í skemmri eða lengri tíma frá því um 1988. Hann hefur verið ötull við að dreifa bókum hreyfingarinnar hér á landi sem og annars staðar en tvær af þeim hafa verið þýddar á íslensku. Auk þess hefur hann og fleiri félagar hans í Hare Krishna haldið marga fyrirlestra og kynningarfundi um fræðin sín þar sem gestum og gangandi hefur einatt verið boðið til veisluborðs að loknum ræðuhöldum og tónlistarflutningi án endurgjalds.

Nikki óskar sérstaklega eftir því að komast í samband við einhverja af velvildarmönnum sínum og öðrum áhugasömum. Ekki síst myndi hann fagna því ef einhverjir þeirra væru aflögufærir um gistingu um tíma á meðan á dvöl hans í Reykjavík og úti á landi stendur – annað hvort frítt eða fyrir sanngjarnt leiguverð. Nikki hyggst dvelja á Íslandi í þrjá mánuði að þessu sinni.

Hér er upplagt tækifæri fyrir áhugasama að auðga anda sinn og kynnast indverskri menningu og matargerðarlist eins og hún best gerist í návígi við Nikka með því að sýna honum gistrisni sína. Auk þess má benda á að víða á Austulöndum er talin mikil guðsblessun að sýna munkum og nunnum greiðvikni til að auðvelda þeim að þjóna Guði og mönnum.

Tilboð og fyrispurnir má senda á netfang Nikka: <Nikhilananda.ACBSP@pamho.net> og/eða með því að senda hbraga skilaboð.

Hare Krishna!