Ég var ekki alveg viss hvert ég átti að senda þetta, en ákvað að senda þetta hingað þar sem þetta varðar trúarbrögð.

Þetta er verkefni sem ég gerði í sögu, ég átti að finna grein sem tengdist Islam, endurskrifa hana og gefa mitt álit.

Greinin sjálf:

http://www.mwlusa.org/publications/positionpapers/gender.htmlGreinin fjallar í grófum dráttum um að í Kóraninum er hvergi minnst á að annað kynið sé æðra hinu.

Greinin ber saman nokkur dæmi úr Biblíunni og Kóraninum sem sýna hvernig litið er á jafnrétti kynjanna í hvorri trú um sig.
Í Biblíunni er sagt að Eva hafi verið sköpuð úr rifi Adams. Í Kóraninum er sagt að Guð skapaði manneskju og úr henni skapaði Guð maka hennar. Það er hvergi gefið til kynna hvort kynið var skapað á undan, sem bendir til þess að það skiptir ekki máli.
Kóraninn segir frá því að Adam og Evu hafi verið sagt að forðast ákveðið tré, sem þau bæði óhlýðnuðust. Þau voru bæði sek og báru ábyrgð á gjörðum sínum. Þeim var báðum refsað með útlegð frá garðinum. Seinna var þeim síðan fyrirgefið af Guði. Biblían kennir Evu hins vegar um, hún á að hafa freistað Adams svo að hann borðaði epli af trénu. Hún er gerð algerlega ábyrg fyrir falli þeirra.
Kóraninn segir að á Dómsdegi muni hver einasta manneskja vera dæmd fyrir gjörðir sínar og ætlanir. Þar af leiðandi eru konur sjálfstæðir einstaklingar og á Dómsdegi mun enginn vera gerður ábyrgur fyrir gjörðum annarra en þeirra sjálfra. Ef t.d. menn bæru ábyrgð á gjörðum eiginkvenna sinna gætu konur verið áhyggjulausar á Dómsdegi meðan eiginmenn þeirra svitnuðu undan tvöfaldri ábyrgð sinni.
Við getum ekki verið dæmd fyrir gjörðir okkar nema við höfum frelsi til þess að gera þær.
Í Kóraninum er jafnrétti undirstrikað með sífelldum vísunum í menn og konur í versunum en ekki bara menn eða konur.
Enn fremur tekur Kóraninn fram að ekki er nóg að vera trúaður í meginatriðum heldur verður maður einnig að iðka trú sína. Kóraninn tekur ítrekað fram jafnrétti kynjanna, ekki er nóg að trúa á það heldur verður líka að framkvæma það.


Mitt álit

Ég valdi þessa grein vegna þess að mér líkar ekki hversu miskilin Islamstrú er í kynjamálum. Fólk setur fram sleggjudóma án þess að hafa haft fyrir því að kanna málin til þess að sjá hvort að hugmyndir þeirra hafi einhvern fót undir sér. Fólk er líka gjarnt á að gleyma að líta í sinn eigin barm, það er allt í lagi að segja að Islam sé gegnsýrt af kvenfyrirlitningu en svo er fólk algerlega blint fyrir sinni eigin trú og göllum hennar.
Við fyrstu athugun virðist greinarhöfundur mjög hlutlaus í skrifum sínum, en við nánari umhugsun hlýtur maður að sjá að greinarhöfundur hefur passað sig á að velja engin dæmi sem varpað gætu skugga á Kóraninn. Jafnframt er gert ráð fyrir að allir þekki til Biblíunnar og dæmanna úr henni. Í grunninn lagt verður þó að viðurkennast að í Kóraninum koma menn og konur jafnari út en í Biblíunni. Á þeim forsendum hlýtur hver sá sem ekki fellur undir skilgreininguna karlremba að hallast frekar að Kóraninum.
Mér persónulega finnst greinin ágætur samanburður á þessum tveim trúarbrögðum með tilliti til jafnréttis kynjanna.
Mér finnst boðskapur Kóransins samkvæmt greininni siðferðislega réttari og hann höfðar betur til mín sem feminista, eða bara sem kvenmanns yfirleitt.
En þar sem ég er óforbetranlegur trúleysingi verð ég að segja að ég legg álíka mikinn trúnað á bæði ritin, eða sem sagt ekki neinn.
Ég sé ekki að það þurfi að vera eitthvað æðra máttarvald sem segir mér að lifa svona og eftir þessum reglum, þó svo að mín eigin siðfræði og gildi séu ekkert mjög ólík í sumum tilfellum þá finnst mér réttara að þau komi frá sjálfri mér og séu á mínum eigin forsendum.