Sköpunarsögur mismunandi menninga
Hérna eru stuttar frásagnir af sköpunarsögum mismunandi menninga. Þegar ég skrifa í frásögnunum eitthvað í áttina að siðferðilegu lögmáli eða reglu, þá er það ekki persónuleg skoðun heldur skoðun sem kemur út frá sköpunarsögunni, td. eins og að frumbyggjar Ástralíu vildu að forfeðurnir yrðu heiðraðir. Ekki mín skoðun heldur þeirra. Einnig vil ég benda á að þetta er skrifað af mér en þó ætti maður að geta fundið mjög svipaðar frásagnir ef maður vill fletta þessu upp og læra meira, því þetta eru allt þýðingar af þýðingum af þýðingum. Semsagt ættuð þið að geta notað eitthvað af þessum nöfnum og orðum til að finna meira ef þið viljið það :)


Sköpunarsaga Egyptalands:
Sólarguðinn sem ferðaðist um himinhvolfið

Í Egyptalandi til forna var Ra mesti guðinn. Þessi sólarguð var tilbeðinn sem skapari heimsins. Sögurnar segja að við upphaf heimsins fæddi Ra sjálfan sig. Hann hrækti, og úr hrákanum urðu Shu (loftið) og Tefnut (rakinn) til. Þegar Shu og Tefnut komu svo saman fæddust Geb og Nut, jarðarguðinn og himnaguðinn. Manneskjurnar voru skapaðar úr tárum Ra.

Á hverjum morgni fer Ra á fætur og siglir á báti sínum yfir himininn. Á hverju kvöldi er hann síðan gleyptur af Nut, sem svo fæðir hann aftur á hverjum morgni. Um næturnar berst Ra við slönguna Apep, sem táknar hinu miklu óreiðu. Ef Ra tapar orrustunni, þá mun heimurinn farast.


Sköpunarsaga Kína:
Yin og Yang

Í upphafi var algjör óreiða. Veröldin var eins og egg í laginu, sem hafði í sér Yin og Yang. Þetta eru mótkraftarnir sem alheimurinn er gerður úr. Þegar Yin og Yang höfðu barist lengi, brast eggið í tvennt. Þungi hlutinn sökk niður og varð að jörðinni, en það létta steig upp og varð að himninum. Fyrsta lifandi veran hét Pangu, og hann hélt sig í miðjunni milli himins og jarðar. Svo einn dag varð hann svo þreyttur á að halda himninum og jörðinni aðskildum, að hann dó. Úr líkama hans voru síðan löndin og manneskjurnar skapaðar.

Sköpunarsaga Ástralíu:
Draumatíminn

Áströlsku frumbyggjarnir ímynduðu sér upphaf heimsins sem myrka og auða jörð. En um síðir vöknuðu hinir eilífu forfeður og byrjuðu að ferðast um þessa eyðimörk. Þeir fundu hálf-kláraðar manneskjur sem voru í laginu eins og dýr eða plöntur. Forfeðurnir skáru þær til með hnífunum sínum þar til þær voru kláraðar. Þessvegna verða allir menn að heiðra sínar verndarplöntur eða verndardýr. Þegar forfeðurnir voru búnir að skapa mennina, fóru þeir aftur að sofa. Vegirnir sem þeir gengu á og staðirnir sem þeir heimsóttu, urðu heilagir og verða að haldast í heiðri af öllum mönnum.

Þetta gerðist í draumatímanum, en draumatíminn er ekki einungis í fortíðinni heldur er hann að eilífu hér og nú. Þegar fólk dreymir þá getur það heimsótt og komist í samband við forfeðurna.

Sköpunarsaga Persíu:
Góði og vondi tvíburinn

Í upphafi voru tveir tvíburabræður. Ahúra Mazda lék sér í ljósinu, en Ahríman hélt sig í myrkrinu. Ahúra bjó til tímann og þar með byrjaði heimurinn. Heimurinn var góður og “Ástin” var dóttir hans. Úr ljósinu bjó hann til fyrstu mannveruna, sem hét Gayomart. Hann varð fyrsti eldpresturinn og einnig vörður eldsins.

Þegar Ahríman sá þessi miklu afrek, varð hann bæði æfur og öfundsjúkur. Hann braut sér leið út úr myrkrinu og inn í veröldina, og með myrkrinu sem bjó innan í honum bjó hann til sjúkdóma, hungur og dauða í heiminum. Ahúra skildi að það var einum of hættulegt að láta Ahríman leika lausan, svo hann fangaði hann inn í sitt eigið sköpunarverk. Þannig kom hið vonda í heiminn og verður þar til endalokanna.