"Triquetra"
Flestir þekkja þetta tákn úr sjónvarpsþáttunum Charmed, en táknið á sér mun eldri sögu en það.

Orðið “Triquetra” er tekið frá latínsku orðunum “tri” sem þýðir þrír og “quetrus” sem þýðir hyrnt. Þetta er semsagt þríhyrnt tákn og kemur ekki alltaf í sömu mynd og við þekkjum það úr Charmed.
Venjuleg Triquetra án neinna aukahluta myndi semsagt líta svona út:

http://www.gocek.org/christiansymbols/images/triquetra.gif
(Hringnum utan um táknið er bætt við til þess að leggja áherslu á það að táknið eigi að tákna það að þrír sameinist og myndi heild.)

Algengasta túlkun á þessu tákni er kristna túlkunin - að þetta sé Faðirinn, Sonurinn og Heilagi Andinn, tengdir saman í einu tákni. En þó að kristnir notuðu táknið mikið og lengi þá hefur það eldri sögu en það og hefur fundist á mörgum rúnatöflum og er talið vera náskylt Valhnútinum sem er tákn Óðins. Sumir vilja meira að segja halda því fram að þetta tákn hafi verið uppruni Valhnútsins, en ekki eru allir sammála um það.

Ný-heiðingjar hafa tekið til sín táknið og túlka það sem tákn Óðins, líkt og Valhnútinn, þó svo að, eins og ég sagði áðan, það sé mjög umdeilt hvort þetta tákn eigi bein tengsl við Valhnútinn eða hvort þau séu bara skyld. Wicca-fylgjendur nota einnig táknið sem túlkun á þrískiptu gyðjunni sem er ríkandi í trúum Wicca-fylgjenda. Einnig nota bæði ný-heiðingjar og Wicca-fylgjendur táknið sem túlkun á sameiningu sálarinnar, líkamans og hugans. Einnig nota margir ný-heiðingjar táknið sem túlkun á gamla keltneska fyrirbærinu að jörðinni var skipt upp í þrjá hluta - jörð, himinn og sjór.

Þótt að táknið hafi lengi vel verið notað af kristnum um allan heim, þá eru margir kristnir í dag sem vilja túlka þetta sem einhverskonar djöflatákn, og er það að hluta til örugglega af því að táknið var notað í sjónvarpsþáttunum Charmed sem fjallaði um nornir. Eftir tilkomu Wicca, og nýrri heiðnar hreyfingar hefur táknið einnig fengið á sig slæma mynd í augum kristna, og vilja margir halda því fram að táknið eigi að vera einhverskonar myndræn líking við tölurnar 666, að þetta eigi semsagt að vera teikning af “tölu dýrsins”, en þessi skoðun hefur ekki breiðst mikið út vegna heimilda um það að táknið hafi verið kristið á sínum tíma.