Stutt samantekt um Launhelgar og lokuð galdra félög (7. og 8. hluti) Stutt samantekt um Launhelgar og lokuð félög eftir I w'm war eða Shemsu Heru

Gjör það er þér viljið skal vera allt lögmálið í held

7. og 8. hluti

Ordo Templi Orientis (O. T. O.)

Ordo Templi Orientis var sprottin upp úr bakgrunni Frímúrara eins og svo margar magískar reglur. Andlegur faðir reglunnar var 19. aldar maður að nafni Carl Kellner, auðugur efnafræðingur. Hann lagði stund á fræði frímúrara (var frímúrari sjálfur), rósakrossreglunnar og austurlenska heimspeki. Hann ferðaðist víða um heim og þar á meðal til litlu Asíu. Þar kynntist hann tantra. Eftir rannsóknir sínar taldi hann sig hafa fundið lykil að táknkerfi frímúraranna og hafði mikin áhuga á að koma á fót Academia Masonica þar sem allir frímúrar gætu kynnt sér mismunandi gráður og kerfi frímúrarareglunnar. Þessi hugmynd að akademíu frímúrara varð síðar að O.T.O.

Þessari hugmynd komu síðar aðrir að, þar á meðal Theodor Reuss sem var æðsti meistari Illuminati reglunnar og síðar O.T.O. Þannig söfnuðust saman á einn stað arfleið margra launhelga, þar á meðal Gnostísku frumkirkjunnar, Illuminati, musterisriddara, hin fornu og frumstæðu rit frímúrara (33 gráður), Swedenborgarrit frímúrara, Gullnu dögunarinnar o.fl.

Það sem var sérstak við O.T.O. var hinn innri leyndardómur reglunnar sem hafði með kynni Kellner af tantra að gera. Einnig var konum hleypt inn í O.T.O. andstætt við það sem gerðist hjá mörgum öðrum launhelgum, þar á meðal frímúrurum.

Árið 1910 vígði Reuss, Aleister Crowley sem áður var minnst á, í fyrstu gráðu O.T.O. Tveimur árum seinna var hann gerður að stórmeistara O.T.O. í Englandi. Crowley hafði þá þegar miðlað bókinni um lögmálið og hreifst Reuss mjög af þeim hugmyndum sem þar komu fram. Crowley skrifaði ári seinna höfuðathöfn O.T.O., hina gnostísku messu, Reuss til mikillar hrifningar.

Eftir dauða Reuss 1923 varð Crowley gerður að O.H.O. (Outer Head of the Order) reglunnar samkvæmt ósks Reuss. Crowley umbreytti O.T.O. í Þelemíska reglu sem vissulega olli einhverjum deilum.

O.T.O. lá í dvala eftir dauða Crowleys og mjög takmörkuðum fjölda nýs fólks var hleypt inn í regluna á meðan hún var undir stjórn eftirmanns Crowleys, Karl Germer.

Það var ekki fyrr en um 1977 sem endurvakning O.T.O. byrjaði undir stjórn eftirmanns Germer, Grady McMurtry. Í dag er O.T.O. ein stærsta magíska reglan í heiminum starfandi víðsvegar um heiminn.

Lokaorð

Það er greinilegt að launhelgar og lokuð félög höfðu mikilvægt hlutverk við varðveislu magískrar þekkingar á tímum ofríkis kirkjunnar. Launhelgarnar geymdu hina magísku arfleið fornaldar á meðan aðeins var leyfilegt að stunda eina tegund magíu sem viðurkennd var af hinni kristnu kirkju, fyrst hinni kaþólsku og síðar hinni lútersku.

En eftir að einveldi kirkjunnar í andlegum vísindum hrundi (stærsti áhrifavaldurinn þar var sennilega stóra vísindabyltingin) minnkaði þörfin fyrir launhelgarnar þar sem leyndardómi og þekkingu á magíu var haldið frá almenningi. Nú í dag geta allir orðið sér út um flest það sem launhelgarnar geymdu. En launhelgarnar eiga samt eftir að lifa sínu lífi sem samfélag þeirra sem vilja leggja stund á og rannsaka andleg vísindi í félagskap við aðra menn eða konur með sömu áhugamál.

Lögmálið er ást, ást er lýtur vilja

Heimildir fyrir alla hlutana

Briem, Efraim. 1975. Launhelgar og lokuð félög. Ísl. þýð. Börn Magnússon. Prentsmiðjan leiftur h.f. Reykjavík.

Crowley, Aleister. 1974. The Book of Thoth. Samuel Weiser, Inc. York Beach.

Crowley, Aleister. 1986. Magick. Book Club Associates. Surrey.

Moran, Sarah. 1999. The Secret World of Cults. Quadrillion Publishing Ltd. Surrey.

Sabazius X° og AMT IX°. History of Ordo Templi Orientis. www.oto-usa.org/history.html.

Waite, Arthur E. 1996. A New Encyclopaedia of Freemasonry. Wings Books. Avenel.

pdf útgáfa: www.visindi.is/magia/ritgerdir/Launhelgar.pdf

Tengill: www.oto.is