Stutt samantekt um Launhelgar og lokuð félög eftir I w'm war eða Shemsu Heru

Gjör það er þér viljið skal vera allt lögmálið í held

4., 5. og 6. hluti

Frímúrarar

Sennilega þekktust og stærst allra launhelga á vesturlöndum í dag. Reglan er einnig mjög auðug. Það er erfitt að áætla meðlimafjölda hennar vegna leyndarinnar, en áætlað er að um 6 miljónir vígðra bræðra séu í heiminum í dag.

Reglan byrjaði sem fagfélag múrara á miðöldum í englandi. Þegar hægði á byggingu kirkna þá breyttist þetta samfélag í launhelgi.

Gullna dögunin (G. D.)

„Golden Dawn“ var vissulega magísk regla. Uppruna hennar má rekja til fundar þriggja manna árið 1884 eða 1885, (sem voru allir frímúrarar) á handriti í gamalli bók sem einn þeirra keypti. Í þessum handritum sem voru laus blöð inn á milli blaðsíðna bókarinnar, var lýsing á undirstöðu launhelgar skrifuð á dulmáli, þar á meðal lýsingar á vígslum og samsvaranir á trompum tarotspilanna við hebreska stafrófið. Einnig kom nafn og heimilisfang þýskrar konu að nafni Fräulein Sprengel fram á þessum blöðum. Einn þessara þriggja manna, Dr. Westcott skrifaði henni og bað um frekari upplýsingar. Hún skrifaði honum til baka og með hennar leyfi var Gullna dögunin stofnuð 1886.

Fljótlega kom fram leiðtogaefni innan þessa hóps að nafni Samuel Liddell Mathers. Skrifað var til Sprengel um frekari leiðbeiningar. En þá var hún dáin og félagi hennar svaraði bréfinu og sagði að Sprengel hafi gefið þeim leiðbeiningar og leyfi til hópsstarfs í óþökk félaga hennar. Hann sagði í bréfinu að samskiptunum yrði að ljúka, en ef þeir vildu fá frekari leiðbeningur hefði G.D. þegar allt sem þyrfti til að öðlast frekari þekkingu í eigin mætti með þeirri tækni sem þeim hefði verið látin í té (1).

(1) Sjá Crowley, The Book of Thoth, bls 7 – 8.

Stuttu seinna tilkynnti Mathers að honum hefði tekist að ná þessu fram. Hinsvegar virtist engin ný þekking koma frá reglunni. Það sem þar var gert var að taka fyrir og forma ýmsa forna þekkingu sem þegar var til. Þar á meðal voru mjög mikilvægar aðferðir og heimsmyndakerfi í magíu s.s. Enochian, Abra-Melin kerfið, meiri og minni lykill Salomons (þar á meðal Goethiuna) o.fl.

Miklar deilur mynduðust innan G.D. á milli meðlima, komust þær deilur stundum á það stig að magískt stríð braust út. Að lokum liðaðist reglan í sundur um og eftir 1900.

Hinsvegar var framlag G.D. til magíunnar eins og hún er í dag mjög mikilvægt. Þar voru lagðir hornsteinar endureisnar magíunnar.

Silfurstjarnan eða Argenteum Astrum (A. A.)

Aleister Crowley hóf sinn magíska feril í G.D. Árið 1904 var honum miðluð bókin um lögmálið. Sú miðlun var afrakstur vinnu hans í Abra-Melin kerfinu sem hann náði ekki að klára vegna beiðni Mathers um hjálp í málefnum G.D.

Í bókinni um lögmálið var honum gert að taka til í magíunni (2). Hin andlegi kraftur sem miðlaði honum þessu kallaði sig Aiwass. Hin magíska leið sem bókin um lögmálið bauð upp á var kölluð Þelema (gr. vilji). Af þessum sökum yfirgaf Crowley G.D. stofnaði A.A. Hann birti alla leyndardóma G.D. í ritröðinni Equinox, stuðlaði þannig að miklum ósættum og hruni G.D.

(2) Sjá Liber CCXX, II:5.

Sjálfur leit hann á G.D. sem ytri reglu A.A. og þar var einnig R.C. og S.S. Það sem er sérstakt við A.A. er að þar var engin hópvinna. Magísk þjálfun fór þannig fram að hver og einn tók að sér nema, kenndi honum og vígði hann áfram. Neminn fékk aldrei að hitta eða kynnast öðrum í A.A.

Gráður A.A. voru settar fram í One Star in Sight(3) og voru ellefu talsins.

(3) Crowley, Magick, bls 327.

Lögmálið er ást, ást er lýtur vilja

Heimildir

Briem, Efraim. 1975. Launhelgar og lokuð félög. Ísl. þýð. Börn Magnússon. Prentsmiðjan leiftur h.f. Reykjavík.

Crowley, Aleister. 1974. The Book of Thoth. Samuel Weiser, Inc. York Beach.

Crowley, Aleister. 1986. Magick. Book Club Associates. Surrey.

Waite, Arthur E. 1996. A New Encyclopaedia of Freemasonry. Wings Books. Avenel.