Fépúkar eru andar sem elskuðu gull sitt mikið og láta mjög oft grafa það með sér svo að sálir þeirra eru dæmdar til að vernda gullið sitt.

Með frægustu sögum héðan er sagan af Háaleitisdrögnum, en eflaust væri hægt að finna margar aðrar magnaðar í öðrum flokkum. Nú er öll kennileiti um drauginn horfin undir ýmiskonar mannvirki, en gaman væri ef einhver gæti upplýst nokkurn veginn hvar þessi margfræga þúfa er.

Háaleitisdraugurinn
Nálægt þrem kílómetrum í suðvestur frá Ytri-Njarðvíkum er melhrygur einn langur og lágur, sem kallaður er Háaleiti. Austan til á mel þessum er grasi gróin þúfa, og í kringum þúfuna er dálítil grasflöt.

Eitt sinn bjó í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvíkum maður, sem Erlendur hét. Þetta ár var hjá Erlendi haustmaður og vetrarmaður Guðmundur nokkur Guðmundsson. Var hann sagður ógurlegt heljarmenni að burðum, að minnsta kosti þriggja til fjögra manna maki. Hann var kallaður Guðmundur klárt, en viðurnefni sitt fékk hann af því, sem nú skal greina. Þá er Guðmundur var ungur, gerðist hann eitthvað lítilsháttar brotlegur við friðhelgi eignarréttarins, en þó að brotið væri lítið, þá varð Guðmundur að hlíta dómi réttvísinnar og í orðsins fyllsta skilningi að kenna á vendi laganna. Var honum á manntalsþingi klappað 27 sinnum, en er því var lokið, sagði Guðmundur þessi minnilegu orð: “Þá er það nú klárt á þessari jörð, piltar”.

Upp frá því var hann alltaf kallaður Guðmundur klárt. En þá er Guðmundur minntist þessa atburðar síðar, fórust honum svo orð, að þetta hefðu verið mjúk meyjarklöpp, og mun það hafa verið sannleikur, því að sá, er verkið innti af hendi, sagði síðar svo frá, að hann hefði ekki þorað annað en haga því að vilja Guðmundar. Haust þetta gætti Guðmundur sauðfjár fyrir Erlend, húsbónda sinn; varð hann daglega að sækja féð seinni hluta dags suður í Hafnaheiði og Miðnesheiði, og varð hann því oft seinn fyrir um heimreksturinn.

Eitt kvöld snemma á jólaföstu var Guðmundur ekki kominn heim, þá er komið var langt fram á vöku. Fór Erlendur þá út að vita, hvort hann yrði ekki hans var, en er hann kom út fyrir túngarðinn, sér hann að allt féð er komið heim að görðum, en Guðmund sér hann hvergi. Hrópar Erlendur þá og kallar á hann en fær ekkert svar. Þykir Erlendi þetta kynlegt mjög, og telur víst, að eitthvað hafi orðið að honum. Bregður hann sér heim örskamma stund og leggur því næsta af stað að leita Guðmundar.
Tungl óð í skýjum, en jörð var alauð, svo að dimmt var úti og draugalegt. En er Erlendur kemur suður undir Háaleiti, sér hann í myrkrinu hilla undir mann, sem er að glíma við eitthvað. Erlendur gengur nú nær og sér, að þetta er Guðmundur, en ekki getur hann greint þann, sem hann var að glíma við; stóð hann þó á grasflötinni örskammt frá þeim. Verður Erlendi nú ósjálfrátt litið niður fyrir fætur sér og sér hann þá, að öll grasflötin er ein silfurpeningabreiða. Verður honum það nú, sem mörgum myndi verða, að honum þótti féð fýsilegt. Gleymir hann því alveg að hnýsast frekara í hagi Guðmundar og sópar saman peningunum í mesta ofboði, fyllir alla vasa og flýtir sér að því búnu sem mest hann má heim til bæjar aftur.

En nú er að segja frá Guðmundi klárt. Þá er hann kemur sunnan úr Stafnesshrauni, sér hann í myrkrinu einhverja hrúgu á Háaleitisþúfunni; dettur honum fyrst í hug, að þetta sé örn, en er hann er rétt kominn að þessu, hverfur það sjónum hans, en er í sama vetfangi komið upp á herðar honum. Nær Guðmundur samt handfestu á fjanda þessum, og kastar honum fram fyrir sig, en samstundis er hann kominn upp á herðar Guðmundi aftur. Á þessu gengur þannig alla nóttina, að jafnharðan sem Guðmundur kastar draugnum af sér, er hann kominn upp á herðar honum aftur. Loks er komið var að dögun, getur Guðmundur kastað óvætti þessari á klett einn, er áflogin höfðu borist að. Þar hvarf hún honum niður í jörðina, en sagði um leið með dimmri og draugslegri rödd: “Þig skal aldrei bresta peninga fyrir vín, fyrir brennivín”.
Þetta var það eina, sem Guðmundur heyrði til draugsins allan þann tíma, er þeir áttust við. Þá er Guðmundur var búinn að jafna sig eftir öll áflogin, var orðið bjart; tíndi hann þá saman nokkuð af peningunum, aðallega smápeningum, er Erlendur hafði skilið eftir í flýtinum. En seinna mun Erlendur þó hafa orðið að skila Guðmundi aftur nokkuru af peningunum.

Guðmundur klárt var eftir þetta mörg ár í Kotvogi í Hafnahreppi. Sagðist honum svo frá viðureign sinni við drauginn að hann hefði verið háll eins og áll, - “en út yfir tók þó ólyktin; hún ætlaði mig alveg að drepa”, sagði Guðmundur.
Aldrei virtist Guðmundur eiga neina peninga til og jafnan var hann fátækur, en samt gat hann alltaf keypt vín. Meðan hann var í Kotvogi fór hann á hverjum laugardegi til Keflavíkur og koma þaðan alltaf klyfjaður af víni.
“Ketill, má eg skreppa inn fyrir móann, að sækja í einn ask?” sagði Guðmundur á hverjum laugardegi. Guðmundur drakk aldrei annað en 16 gráða romm, og blandaði það í púns í grautaraski sínum. Því talaði Guðmundur um að sækja í einn ask.
Guðmundur dó 1869, og sögðu menn, að vínnautn hefði flýtt fyrir dauða hans.

Athuga skal að ég tók sögunna úr Rauðskinnu og er hún svona rituð þar og ég er ekki sá besti í stafsetningu. En þetta var mín fyrsta grein á Huga og vona ég að henni sé tekið vel.