Innskot: Ég vil benda lesendum á að lesa fyrst innganginn að greinaflokkinum um meistara Stóra hvítbræðralagsins hafi sú grein farið fram hjá einhverjum.


1. El Morya, meistari fyrsta geislans

Meistari fyrsta geislans heitir El Morya. El Morya hefur í mörgum jarðvistum þjónað sem stjórnskörungur og hlotið þar með sérþekkingu á hagsýslustörfum, stjórnmálum og öllu sem viðkemur valdi og alþjóðasamskiptum. Hann er fulltrúi fyrir vilja guðs. Hann reynir að leiðbeina og hafa áhrif á valdhafa og ríkisstjórnir til að breyta eftir Guðs vilja hér á jörðu. Hann veitir því framsýnum og hugsjónaríkum valdamönum og einstaklingum innblástur til góðra verka í þróun og stjórnun jarðarinnar. Hann kennir nemendum sínum að leiðin til að sameinast æðri sjálfi sínu og guðdóminum sé að lúta vilja Guðs sem er í samræmi við einstaklingsbundna leið sálarinnar að takmarkinu. Hann er undir stjórn Stórvísisins (The Great Divine Director) sem er síðastur í röð svonefndra sjö manúa sem eru löggjafar og ættfeður nýrra kynstofna. Hann var einnig einn af kennurum Jesú Krists og fleiri merkra meistara.

Athvarf El Morya er Darjeeling við rætur Himalaya á Indlandi. Þessi miðstöð verndar andlegar hreyfingar og stjórnmálasamtök sem Hvítbræðralagið styður. Þar kennir hann hvernig koma eigi á stjórnarfari og þroskast í samræmi við Guðs vilja. Kennslan fer yfirleitt fram í svefni og á milli lífsskeiða en þá er andlegi líkami mannsins (innsæisvitundin) að verki.

Morya fer í Darjeeling fyrir ráði Hvítbræðralagsins sem meistarar og óuppstignir lærlingar skipa. Meðal stjórnenda eru María guðsmóðir, búddhagyðjan Kwan Yin, erkiengillinn Mikjáll, Stórvísirinn, Serapis Bey, Kúthúmi, Djwal Khúl og fjöldi annarra sem hafa því hlutverki að gegna að þálfa menn til að koma á fót stjórnarfari og hagkerfi í ríkjum heims í samræmi við vilja Guðs. Því er komið á fót með milliríkjasamböndum og með því að gera kristsvitundina að grundvelli trúar og menntunar. Þeir vinna að endurreisn æðri lista og menningarlífs. El Morya hefur samstarf við ýmsa dulspekihópa um allan heim og veitir þeim innblástur. Hann beitir nemendur sína ströngum aga í samræmi við sterkan og hreinan viljakraft fyrsta geislans.


Jarðvistir El Morya

Í einni af jarðvistum sínum var El Morya Abraham ættfaðir Ísraela. Hann var Melkjör sem var einn af vitringunum þremur sem leituðu Jesúbarnsins. Hann frestaði þá himnaför sinni til að geta haft betra jarðsamband þegar tími kæmi til að innleiða guðspekina við lok 19. aldarinnar. Hann var Arthúr konungur á 5. og 6. öld sem stjórnaði riddurum hringborðans í leit þeirra að heilögum bikar guðdómseðlisins. Þeir voru óþreytandi baráttumenn gegn illum öflum og áttu stóran þátt í að sameina hin sundurlausu ættarveldi í eitt ríki. Morya stýrði þremur krossferðum á miðöldum. Hann kom fram sem Thomas Becket og Tomas More sem voru hvor um sig nánir ráðgjafar og betri vitund konunganna Hinriks II. og Hinriks VIII. Þeir voru verjendur trúarinnar og réttir erfingjar bresku krúnunnar en máttu líða píslavættisdauða vegna ofríkis konunga sinna. El Morya birtist sem Akbar á 16. öld sem var merkastur mogúlakeisara sem lögðu undir sig norður hluta Indlands. Ríki hans náði einnig yfir Pakistan og Afganistan. Hann var einn fárra valdamanna sem uppi hafa verið sem uppfylltu skilgreiningu Platóns á eiginleikum heimspekikonungs. Hann sýndi mikla stjórnvisku og umburðarlyndi í hermálum, trúmálum og menningarsamskiptum þjóðabrota. Á 19. öld birtist hann sem skáldið Thomar Moore á Írlandi sem samdi rit um fyrirmyndarríkið “Útópía” sem hann reyndi að hrinda í framkvæmd. Árið 1889 hóf hann himnaför sína sem Rajput prins að nafni El Morya Khan á Indlandi en sagt er að hann hafði þá haldið við jarðneskum líkama sínum í 325 ár samfleytt.


Stofnun guðspekihreyfinga

El Morya stofnaði Guðspekifélagið ásamt meistaranum Kúthúmi og fleirum árið 1875 í gegnum rússneska dulspekinginn Madame Helena P. Blavatsky. Guðspekinni var ætlað að kenna manninum innri þróunarlögmál heimsins og mannkynsins. Meðal fleiri merkra andlegra hreyfinga sem Morya stofnaði má nefna Summit Lighthouse og systrasamtökin Church Universal and Triumphant í Bandaríkjunum. Hann þjálfaði boðbera hreyfingarinnar, Mark L. Prophet og Elisabeth C. Prophet ásamt greifanum st. Germain og móður Maríu. Hann og aðrir meistarar birtu boðskap allsherjar bræðralags kristsvitundarinnar á Vatnsberaöld fram á síðasta áratug fyrir munn boðbera sinna í tímaritinu “The Pearls of Wisdom” (sjá http://tsl.org/PearlsOfWisdom.asp ). Framsetningin er einföld og auðskilin til að þessi þekking geti orðið almenningseign. Á þessum vef má fá nánari upplýsingar um sögu guðspekihreyfinganna eftir hbraga með því að smella á: http://hugi.is/dulspeki/articles.php?page=view&contentId=2039904


Aðrir meistarar á fyrsta geislanum

Míríam er kvenmeistari fyrsta geislans og tvíburasál El Morya. Vitneskja um starf hennar hefur ekki verið látin í té. Súrýa er kvenmeistari sem tjáir mjúku hliðina á þessum geisla. Hún býr á meðal meistara á Himalayasvæðinu. Hún hefur einkum látið sig varða hag smælingjanna.


Samantekt um fyrsta geislann:

CHOHANAR
El Morya
(Míríam)

ERKIENGLAR
Mikjáll og Faith (Trú)

ELÓHÍMAR
Herkúles og Amasónía


EIGINLEIKAR
Stjórnar hálsorkustöðinni
Litur: Blár
Tileinkaður þriðjudegi (þá er geislinn sterkastur)
Trú á guðsvilja, áræðni, vissa, kraftur, frumkvæði, sjálfstæði, áreiðanleiki, hreinskiptni. (Allt þetta er einkennandi fyrir góða stjórnendur, framkvæmdamenn og leiðtoga)

AÐSETUR
Darjeeling, Indlandi.

ÁKALL
Ákall til meistara, erkiengla og tíva fyrsta geislans veitir einkum: Fullkomnun
og vissu (trú) um vilja Guðs

Heimildaskrá:
http://www.tsl.org/Masters/ElMorya.asp
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Book&strType=Detail&strCode=7100&mo=bs&epag
Stóra hvíta bræðralagið. Helgistjórn jarðarinnar. 3. útg. Ljósheimar, Hverfisgötu 105, 101 R.