Erkiengillinn Rafael

Nafn Rafaels þýðir sá sem læknar eða lyf Guðs. Hann er á fimmta ljósgeisla sem er grænleitur og tengist ennisorkustöðinni. Þetta svið er helgað sannleika og þekkingu, heildarsýn, lækningum, vísindum, tónlist og stærðfræði.

Í hebreskum texta stendur að Rafael hafi sýnt Nóa lækningamátt jurta og að hann hafi læknað blindan mann og bundið illan anda. Enoksbók, sem er psevdepígrafískt Opinberunarrit GT frá 2. Öld f.Kr., segir að Rafael hafi grætt jörðina eftir að hinir föllnu englar höfðu saurgað og vanhelgað hana. Samkvæmt því læknar hann sjúkdóma og sár manna. Hann er talinn hafa gert Söru konu Abrahams hæfa til að bera son eftir að hún var komin af barnsburðaraldri (1M 17.17). Í apókrýfuriti Tóbíts er Rafael nefndur sá er vísaði Tóbít og syni hans veginn og læknaði þá. Hann er því talinn vera engillinn sem læknaði sjúka við laugarnar í Bethesda (Jh 5.2-4).

Rafael græðir sár á milli þjóða, læknar særða hermenn á vígvellinum og veitir innblástur til nýrra uppgötvana við lækningar. Einnig vígir hann og aðstoðar þá sem helga sig fórnfúsri þjónustu eða köllun. Hann er verndardýrlingur lækna og blindra auk pílagríma og annarra ferðalanga.

Hann er sagður hafa verið engilinn á Betlehemsvöllum sem boðaði fjárhirðunum fæðingu frelsarans (Lk 2.10-11). Í Opinberunarbókinni (8.3-4) er sagt að bænir manna stígi upp með reykelsi úr hendi engilsins sem talið er eiga við Rafael. Messudagar hans er ýmist 29. September eða 24. Október.

Athvarf Rafaels og maka hans Maríu guðsmóður er yfir Fatíma í Portúgal. Læknandi orkustraumar frá Fatíma voru jarðtengdir þegar heilög guðsmóðir birtist þar nokkrum börnum árið 1917. Enn í dag streyma pílagrímar til læknalindanna í Fatíma.


Erkiengillinn María guðsmóðir

María guðsmóðir hefur verið nefnd drottning englanna og hin flekklausa og hreinlynda móðurímynd alls mannkyns. Hún var því vel fallin til að gegna því hlutverki sem Gabríel erkiengill boðaði henni að hún yrði móðir Messíasar sem minnst er 25. Mars ár hvert en þá á Jesú að hafa verið getinn. Til undirbúnings þessum heimsviðburði hafði hún endurfæðst á hinu horfna meginlandi Atlantis þar sem hún þjónaði sem hofgyðja og prestynja í ýmsum musterum. Þar varð hún fullnuma í lækningum og hélt hugsjónum sannleika og hreinlyndis á lofti fyrir eyjarskeggja. Þess má geta að hún var einnig móðir Davíðs konungs í Ísrael sem var ættfaðir Jósefs og Maríu en ættin er rakin aftur til Abrahams ættföður Ísraelsmanna (sbr. ættartölur Íslendingasagna!) (Mt 1.1-17). Frá þriggja ára aldri var María vígð musterinu í Jerúsalem sem hún þjónaði þar til hún var föstnuð Jósef (Lk 1.1-56). Henni var því í blóð borið að vera sönn fyrirmynd fullkomleikans fyrir Jesú þegar hann starfaði á jörðinni sem hún er nú öllu mannkyninu á innra sviðinu.

Hinn umtalaði “óaðfinnanlegi getnaður” (e. “The Immaculate Conception”) undirstrikar hreinleika hennar því að hún var syndlaus (laus við erfðasyndina) frá getnaði. Hvort það vísi til þess að hún hafi verið “hrein mey” bæði á undan og eftir að hún átti Jesú, eins og oft er látið í veðri vaka, hefur ávallt verið einn af leyndardómum kristninnar. Mannspekingurinn (e. Antroposophist) Rudolf Steiner fullyrðir að Jósef heitmaður Mariu hafi verið farvegur fyrir heilagan anda sem sagður er hafa getið Jesú með Maríu. Sá getnaður hafi átt sér stað við sérstakt helgisiðahald, sennilega á meðal Essea. (Í bókinni Agnes, lamb Guðs, eftir Leonore Fleischer, sem gerð hefur verið kvikmynd eftir, er gert góðlátlegt grín af meyjarfæðingunni og eins hefur Laxness skopast að því í Paradísarheimt.)

Eftir krossfestingu Krists undirbjó María jarðveginn fyrir kristindóminn. Til þess arna ferðaðist hún víða um lönd og vígði staði áður en hún stofnaði miðstöð í Betaníu, ásamt nokkrum lærisveinum, sem hún þjónaði næstu þrjátíu árin. Hún heimsótti meðal annars Lúxor í Egyptalandi þar sem hún hafði ung að aldri gengið í gegnum dulvígslur. Þaðan hélt hún og föruneyti hennar til Krítar þar sem þau undirbjuggu komu Páls postula. Svo lá leiðin til áðurnefnds Fatíma í Lourdes. Næst héldu þau til Bretlandseyja. Sagan segir að þau hafi skilið eftir heilagan kaleik í Glastonbury sem Jesús hafði blessað við síðustu kvöldmáltíðina. Um það greina meðal annars sögur af Artúri konungi sem hafi sent riddara hringborðans í leit að þessum kaleik. (Um þennan kaleik eru miklar bollaleggingar að hann tákni ættboga Jesú Krists og Maríu Magdalenu, sem var í för með Maríu guðsmóður, sem megi rekja til Frakklands. Þessi sögn er uppistaðan í reyfaranum Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown). María og fylgdarmenn hennar vígðu einnig Írland sem auðveldaði heilögum Patreki síðar meir að koma kristni á fót. Þau héldu sjóleiðina aftur til Betaníu. Eftir að María hafði sinnt köllun sinni steig hún upp til himnaföðurins af dánarbeði sínu. Þremur dögum eftir að Maríu var komið í grafhvelfingu sinni í Betaníu fundust aðeins hvítar rósir.

Eftir upprisuna krýndu kristnir menn hana heimsmóður mannkynsins. Katólikkar minnast upprisu hennar þann 15. ágúst. Á Austurlöndum gegnir gyðjan Kwan Yin sams konar heimsmóðurhlutverki. María hefur á sér ímynd náðarinnar í augum tilbiðjenda sinna. Móðurhlutverkið liggur henni ofarlega á hjarta. Hún örvar móðurkenndina hjá mannkyninu sem hún lítur á sem sín eigin börn. Áður en börn fæðast inn í þennan heim tekur hún þau að móðurhjarta sínu og hlúir að þeim í athvarfi sínu, musteri hins helga hjarta yfir Fatíma. Ró sem oft umlykur konur á síðari hluta meðgöngutímans hefur guðsmóðirin látið streyma yfir þær. María erkiengill starfar einnig með höfuðskepnunum og gegnir mikilvægri þjónustu fyrir jurtaríkið. María og Rafael veita einnig tónlistarfólki innblástur til sköpunar.

Kvenguðfræðingar hafa saknað þess að lítið fari fyrir móðurímynd Guðs í kirkju Lúters. Kvennakirkjan hefur leyst úr því með því að ávarpa Guð sem móður og biðja til “hennar” og ræða við “hana” sem góða vinkonu. Katólikkar geta beint bænum sínum til Maríu guðsmóður. Sagt er að líf og heimili katólskrar fjölskyldu sem fór daglega með maríubænir hafi verið það eina sem bjargaðist í Nagasaki í Japan eftir kjarnorkuárás Bandaríkjamanna. Rósakransbænir til hennar hafa verið uppfærðar í takt við nýja tíma. Þær eru birtar hér að neðan. Versin eru áhrifaríkari því oftar sem þau eru endurtekin. Algengt er að bera fram bænarefni fyrir guðsmóður áður en farið er með versin. Sem dæmi er gott að heita á guðsmóður (og Rafael) til lækninga á sál og líkama og til að láta “draumana” rætast.


Heil María, full náðar.
Guð sé með þér.
Blessuð sért þú á meðal kvenna,
og blessaður sé ávöxtur kviðar þíns, Jesús.

Heilaga María,
Móðir Guðs,
biddu fyrir okkur,
sonum og dætrum Guðs,
nú og á sigurstundu vorri
yfir synd, sjúkdómum og dauða.


Á þessum vef skrifaði ég hugleiðingar um móðurgyðjuna eins og hún sprettur fram í goðsögum og trúarbrögðum mannkynsins sem ég túlkaði samkvæmt kenningum guðspekinnar. Hugmyndir manna um heilaga guðsmóður falla innan þess ramma. Ég birti hér vefslóðina til að auðvelda leitina:
http://hugi.is/dulspeki/articles.php?page=view&contentId=2085327


Aðalheimild:
http://www.tsl.org/Angels/RaphaelandMary.asp


Aðrar heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Angel
Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.
Erkienglarnir Mikjáll, Gabríel, Rafael og Úríel í Hugvekjum séra Sigurðar Ægissonar, 25. September; 2. 9. 16. og 23. Október, Morgunblaðinu, 2005.
Fyrirlestrar á netinu um erkienglana eftir Elizabeth C. Prophet: http://www.tsl.org/tsln
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Ascended+Masters&strType=Detail&strCode=7100&mo=bs&epag
Mark and Elizabeth C. Prophet. Saint Germain on Alchemy. Formulas for Self-Transformation. Summit University Press. 1993.
http://www.newadvent.org/cathen/01476d.htm


Ýtarefni:

Anonymus: One hundred saints. [Textinn er fenginn úr riti Butlers: Lives of the saints.]
David Farmer: Oxford dictionary of saints.
Donald Attwater og Caterine Rachel John: The Penguin dictionary of saints.
Ýmsir: Encyclopedia of early Christianity.
George Ferguson: Signs and symbols in Christian art.
Gustav Davidson: A dictionary of angels.
James R. Lewis og Evelyn Dorothy Oliver: Angels A to Z.
Joan Comay og Ronald Brownrigg: Who’s who in the Bible.
John J. Delaney: Dictionary of saints.
Joseph Gaer: The lore of the New testament.
Joseph Gaer: The lore of the Old testament.
Joseph Vann (ritstjóri): Lives of saints.
Karl Sigurbjörnsson: Táknmál trúarinnar.
Malcolm Day: 100 saints. A treasury of their lives and times.
Merriam Webster’s encyclopedia of world religions
Rosemary Ellen Guiley: The encyclopedia of angels.