Mig langar að segja ykkur frá atburðum sem gerðust fyrir mig fyrir 3 árum. Þetta skéði á innan við hálfu ári:

Á 18 ára afmælisdag minn fékk ég antik-kistu í afmælisgjöf frá pabba mínum. Ég setti hana í herbergið mitt út í horn og fór seint að sofa þetta kvöld. Þegar klukkan var sirka 5 um nótt, vakna ég upp við dynki sem berast frá horninu þar sem kistan mín var. Ég sný mér við til að athuga hvað gengi á en sá ekki neitt fyrst. Síðan þegar augun náðu að jafna sig sá ég mynda fyrir lítillri svartri þokukenndri veru sem sat á kistunni minni og var að sparka í hillusamstæðuna mína. Kaldhæðnin er að það voru 2 andafælur frá Afríku hangandi á kistunni svo að þegar sparkað var í kistuna þá heyrðist fyrst dynkur og svo bjölluhljóð. Ég man eftir því að ég var alls ekki hrædd fyrst en ég fraus hreinlega úr hræðslu þegar litla veran opnaði augun og ég sá bara augun starandi á mig. Hún staldraði ekki lengi við reyndar, aðeins nógu lengi til að gera mig andvaka alla nóttina eftir.

Þetta er aðeins fyrsta sagan.

Sú seinni gerðist ekki heima hjá mér, heldur hjá besta vini mínum. Við vorum að horfa á sjónvarpið þegar mér verður skyndilega hrollkalt og svo þagnaði allt. Þegar ég segi allt, þá meina ég allt. Ég heyrði ekki í sjónvapinu, bílunum fyrir utan húsið né brakinu í stólnum sem ég sat á. Svo gat ég ekki komið upp orði. Þetta varði í sirka 20 sekúndur en svo fór að dimma í herberginu og ég fór að sjá skugga út um allt. Fyrst voru þeir litlir og kúlulaga en svo tóku urðu þeir eins og hávaxnir menn. Ég gat hvorki hreyft mig né sagt neitt og vinur minn tók ekki eftir neinu svo að einhvernveginn þá gat ég hent púða sem var í stólnum mínum niður á gólf og þá leit vinur minn við. Um leið hætti allt og ég fór að heyra aftur í sjónvarpinu.

Þetta er eitthvað sem ég hef þurft að lifa með frá því að ég fermdist. Svona atvik koma fyrir mig kannski einu sinni í mánuði. Getur einhver komið með skýringu á þessu fyrir mig?