Inngangur

Nisir kom með eftirfarandi athugasemd við grein mína: “Er Guð persónulegur eða ópersónulegur”:

Sennilega má slá því föstu að allir þeir er viðurkenna Guð, viðurkenni, um leið að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd og ekki bara hér á þessum litla hnetti heldur einnig á öllum lífhnöttum er veröldin getur af sér.

Eða, er einn guð fyrir hvern hnött og hver guð með ákveðið umráðasvæði.

Ég tek undir með Nisi að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að líf sé til á öðrum hnöttum, jafnvel mun þróaðra en á meðal okkar mannanna, sbr. sagnir um fljúgandi furðuhluti, geimverur og þess háttar. Ósagt skal þó látið hvaða erindi slíkar verur eigi í okkar heimi.

Nisir veltir fyrir sér hvort að hver hnöttur hafi sinn guð sem sitt umráðasvæði. Ég tel að nokkuð sé til í þessari athugasemd svo langt sem hún nær. Í raun viðurkenna öll helstu trúarbrögð mannkyns að aðeinn einn Guð sé til sem allt er undir komið.

Hins vegar má líkja guðsríkinu við lagskipt pýramídakerfi ef svo má að orði komast, ekki ósvipað því sem gerist með stjórnarfyrirkomulagið á meðal okkar mannanna á jörðinni, samanber hið forna spakmæli: “svo á jörðu sem á himni”. Þar á ég við að þjóðfélagi okkar skiptist í mörg svið þar sem ákveðnir menn og konur fara með stjórnunarstöður og aðrir vinna undir þeim allt frá hinu smæsta til hins stærsta sviðs, sbr. hlutverk foreldris annars vegar og forstjóra fjölþjóðafyrirtækis hins vegar. Ekki er lagt mat á hvort starfið sé mikilvægara því það er afstætt.

Í þessu felst að menn og guðir séu á mismunandi þróunar- eða þroskastigi undir hinum eina algilda guðdómi sem ekkert verður um sagt. Þeir sem stjórni andlegu þróuninni á jörðunni kunni að hafa verið menn í fyrra lífi en hafi eftir lát sitt náð æðra þroskastigi á fíngerðara og háleitara efnissviði en ríkir á okkar jörð. Þeir hafi þar af leiðandi verið settir yfir jarðneska bræður sína og systur svipað og gerist við stöðuhækkun á meðal mannanna.

Ég hef í greinum mínum minnst á hið Stóra Hvíta Bræðralag en það er sagt vera bandalag uppstiginna dýrlinga, andlegra meistara og annarra stórmenna eins og Jesú og Búddha og Pýtagóras, ásamt ótal öðrum guðlegum verum, sem hver um sig vinni sérhæft starf fyrir þróun plánetu okkar og sólkerfisins í heild.

Jafnvel má líklegt telja að slíkir guðlegir menn og konur geti endurfæðst á öðrum lífhnöttum utan sólkerfis okkar sem lengra er komið í þróuninni en við á okkar lífhnetti. Eftir því sem þróun lífsins á jörðunni miðar áfram tel ég að við komumst í auknum mæli í lífsamband við þessar þróaðri verur sem lifa einkum á innri og fíngerðari efnissviðum innan okkar sólkerfis svo ekki sé minnst á enn þróaðri lífverur í öðrum sólkerfum.

Helgi Pjeturs fjallaði í nýal-kenningum sínum mikið um slík lífsambönd við æðri “framlífs-verur” á öðrum hnöttum við jarðarbúa sem búum í okkar “frumlífs-veröld”. Ég tel að Helgi Pjeturs hafi á vissan hátt verið of framsýnn til þess að menn næðu almennt að skilja kenningar hans því menn hafi einfaldlega ekki haft þroska til þess, en hann á eftir að fá verðskuldaða viðurkenningu fyrir sitt framlag þó síðar verði. Nisir þekkir kenningar Helga Pjeturs betur en ég og á vonandi eftir að fræða okkur nánar um þær.



Þróun lífveranna og alheimsins

Í raun gildir sama lögmál um þróun alheimsins og þróun lífveranna. Lífið þróast í fyrstu frá lífrænum efnasamböndum sem verða æ sérhæfðari og samhæfðari til aukinnar hagnýtingar og orkusparnaðar þar til einfrumungar verða til. Smám saman tekst meira samstarf á meðal einfrumunganna og þeir mynda fjölfrumunga sem síðar mynda líffæri og líffærakerfi, þ.e. vefi sem mynda svo æ stærri heildir þar til að fullfrömuð lífvera verður til eins og þekkist í dýra- og plönturíkinu í dag þar sem maðurinn er kórónan í því sköpunarverki.

Maðurinn er enn þá á stigi einfrumungsins á alheimslegum þróunarmælikvarða. Það á fyrir hann að liggja að þróast og renna saman við æ stærri lífheildir sem kemur fyrst fram sem skipuleg samfélög á meðal manna. Það er því ekki fyrir tilviljun að fyrstu líffræðingar og félagsfræðingar líktu samfélagi manna við starfsemi lífveranna. Allir Íslendingar mynda á þann hátt hinn íslenska þjóðarlíkama. En enginn er eyland, ekki einu sinni litla Ísland því við erum æ meira háð alþjóðlegu samstarfi sem kemur öllum að gagni. Á hinum alþjóðlega vettvangi er sífellt verið að auka hagræðingu og samstarf með stofnun bandalaga og milliríkjasamninga, sbr. Evrópska efnahagssambandið sem mikill styr hefur staðið um. Því er nú þannig varið að hið nýja rís oft úr rústum hins gamla, þ.e. kallað tregðulögmálið.

Í víðtækasta skilningi er hægt að tala um jörðina sem eina lífveru, Geu, eins og títt er á meðal umhverfissinna sem leggja áherslu á tengsl og samvirkni allra lífvera á jörðunni. Þeim er það ljóst að ef við göngum stanslaust á hlut náttúrunnar þá líði allt líf á jörðunni fyrir það fyrr eða seinna.

Latneska orðið ‘religio’ sem hugtakið trúarbrögð er dregið af og orðið ‘jóga’ þýða nokkurn veginn það sama, þ.e. tenging eða binding alls lífs. Þeir sem eru komnir lengra á þróunarbrautinni, þ.e. hafa víðsýnni huga, en aðrir skynja betur hvernig allt líf tengist og starfar saman sem ein heild. Þeir skynja að hagur allra, þ.e. heildarinnar, sé best undir því komið að öllum sé borgið, þ.e. að enginn líði skort og allir hafi nóg til alls. Enginn keðja er nefnilega sterkari en veikasti hlekkurinn. Út frá alheimslegu sjónarmiði má færa þessa líkingu enn lengra og tala um að hvert um sig erum við sem ein fruma í líkama Guðs. Jesús líkti þessu við að Kristur, sem hann hafði sameinast, væri hinn góði vínviður en við værum greinarnar.

Við stefnum að því í þróun okkar að ná þróunarstigi Guðs með því að verða eitt með honum. Því má líkja við að í stað þess að hafa óljósa vitund um okkur sem einangraða frumu á frumlífsstigi jarðarinnar skynjum við okkur sem heildstæða mannveru, öðru nafni Guð. Áður en við sem frumlífsverur í líkama almættisins náum sjálfsskynjun almættisins, sem er hin upprunalega mynd sem Guð skapaði okkur í, þurfum við ganga í gegnum hin ýmsu þróunarstig sem ég hef lýst hér að framan í yfirfærðri merkingu. Að lokum þegar upp rennur fyrir okkur samhengi og tengsl alls lífsins á jörðunni, höfum við náð því guðlega þróunarstigi sem Jesús, Búddha, Krishna og aðrar guðlegar verur hafa náð sem skynja sig eitt með allífinu.

Til þess að komast upp á þróunarstig uppstignu meistarnna og dýrlinganna þurfum við á leiðsögn þeirra að halda, alveg eins og menn þurfa á kennurum, uppalendum og öðrum leiðbeinendum hér á jörðu. Uppstignu meistararnir stefna að því að komast á enn hærra þróunarstig og að tengjast stærri og þróaðri lífheildum í sólkerfi okkar og síðan öðrum sólkerfum í vetrarbraut okkar og svo framvegis. Þeirra þroski felst í því að þjóna lífinu á jörðunni og sólkerfinu okkar. Þeir eru því einnig háðir okkur að við gegnum okkar hlutverki að sjá til þess að lífið á jörðinni sem heild geti þróast á æðra þroskastig. Hinar guðlegu verur geta ekki þröngvað vilja sínum á okkur því þær virða frjálsan vilja mannkynsins. Allar leiðir sem þjóna lífinu á jörðu eru Guði þóknanlegar hvort sem þær eru af veraldlegum eða trúarlegum toga spunnar. Í raun er aðeins um falskan aðskilnað að ræða að eitt sé andlegs eðli og annað veraldlegs því slík tvískipting gildir ekki í ríki alverunnar.

Það sem gerist með því að ákalla fulltrúa almættisins, hinar guðlegu verur, er að það flýtir fyrir hinni náttúrulegu þróun með því veita meiri birtu og ljósi (orku) inn á hið jarðneska svið. Það gerir að verkum að jarðneska sviðið fær hærri orkutíðni og tekur því meiri lit af hinum fíngerðari og háleitari efnissviðum sem andlegu meistaranir og aðrar guðlegar verur lifa á. Tilgangurinn er að hefja okkar jarðsvið upp á þeirra himneska jarðsvið, þ.e. skapa himnaríki á jörðu svo talað sé líkingamál Biblíunnar.

Setja má spurningu hvort að einhver endir sé á þessu þróunarferli? Hvort að það sem við köllum Guð sé ekki “bara” fruma í enn æðri veru sem er hennar Guð, líkt og við erum frumur í þeirri lífsheild sem er okkar Guð, og svo framvegis. Um það læt ég lesendum eftir að velta fyrir sér því ég hef ekkert endanlegt svar við því.

Eitt er víst að þróunarmöguleikarnir eru óendanlegir. Það eina sem hægt er að segja með vissu er að við erum öll á leiðinni hver á sinn hátt því að í húsi Drottins eru margar vistarverur. Sumir taka fetið og fara margar krókaleiðir (tína blóm í vegkantinum) en aðrir stefna hraðbyri að hinu óendanlega marki. Þeir hinir síðar nefndur hafa þó verið í sporum hinna fyrr nefndu áður en þeir náðu áttum. Að sumu leyti er það vegna þess að sálirnar eru á mismunandi aldurs- og þroskastigi en að öðru leyti ræðst það af einstaklingsbundnum aðstæðum. “Eitt er víst að allir koma þeir aftur og enginn þeirra deyr”, eins og segir um hina kátu karla sem réru á Kútter Haraldi.