Atlantis var aldrei til. Þetta er tilbúningur Platons. Platon skrifar söguna um Atlantis í samræðum sem heita Tímajos og Krítías (sem er ókláruð). Hver sem les samræðurnar sér strax að þetta er tilbúningur.

Samkvæmt sögunni var Atlantis eigi að síður í Atlantshafi rett fyrir utan Gíbraltarsund (Súlur Heraklesar). Eyjan á að hafa verið á stærð við Asíu og Lýbíu saman (þ.e. Litlu Asíu og Lýbíu). Það er enginn séns að slík eyja hafi verið fyrir utan Gíbraltarsund.

Eyjan sem sökk í hafið er Santorini (Þera) í Eyjahafi fyrir norðan Krít. Hún sökk reyndar alls ekki neitt heldur sprakk í gífurlega öflugu sprengigosi sem olli flóðbylgjum nægilega stórum til að rústa allri menningu á Krít um langan aldur. En kveikjan að sögunni um sökkvandi eyju er þar. Önnur kveikja að sögunni er auðvitað Egyptaland, sem á tíma Platons var horfið stórveldi.

Sagan sem Platon segir er sem sagt samsett úr mörgum þáttum sem hann hafði heyrt um og vissi af. En það er út í hött að benda á eitthvað eitt atriði úr sögunni hans og láta eins og það sé Atlantis sem hann var að tala um. Ef ég segi sögu um bandarískan forseta sem var við völd á styrjaldartímum, var í hjólastól, varpaði kjarnorkusprengju á aðra þjóð og sagði af sér, þá er út í hött að láta eins og ég sé að tala um Roosevelt. Hann var í hjólastól (um tíma a.m.k.) og var forseti um styrjaldartíma eins og reyndar Harry S. Truman og Richard Nixon. En Truman sem varpaði bombunni sagði ekki af sér og var ekki í hjólastól og Nixon sem sagði af sér var ekki í hjólastól og varpaði ekki bombunni. Það er ekki hægt að láta eins og einhver einn þeirra sé forsetinn sem ég er að tala um.

Tilgangur Platons með sögunni um Atlantis er óljós og vekur ekki gífurlegan áhuga fræðimanna eða mikla athygli. Hins vegar kom fram túlkun á þá leið að hann væri að setja fram samfélagsgagnrýni (enda er Tímajos nokkurs konar framhald af Ríkinu og Krítías framhald af Tímajosi). Þá myndu bæði Aþena og Atlantis tákna Aþenu en á mismunandi tímum. Atlantisbúar (sem eru vel að merkja vondu gæjarnir í sögunni) tákna þá Aþenu samtíma Platons sem var orðin spillt og löstug; hin fátæka Aþena í sögunni táknar þá skv. þessari túlkun dyggðum prýdda Aþenu 5. aldar f.Kr. sem sigraði Persa við Maraþonsvelli.

Platon skrifar til að byrja með samræður þar sem ýmsir taka til máls en aldrei nokkrun tímann hann sjálfur svo það er erfitt að eigna honum einhverjar skoðanir með vissu. Enda bannar hann það líka að honum sé eignaðar kenningar í sjöunda bréfi sínu (ef það er þá réttilega eignað honum). Stjórnspekina hans má þó finna í Ríkinu, Stjórnmálamanninum og Lögunum (sem voru rituð í þessari röð). Af þessum ritum má sjá að skoðanir hans taka breytingum í gegnum tíðina, hverjar sem þær svo eru í smáatriðum.

Sagan um Atlantis er ekki hluti af stjórnspeki Platons. Hann segir lítillega frá eyjunni framarlega í samræðunni Tímajos en fer fljótlega út í aðra sálma, eins og Guð og sköpun heimsins, frumefnin o.fl. Í Krítíasi segir hann okkur mun meira frá Atlantis en sú samræða er ókláruð.

Það fer ekki á milli mála að í sögunni um Atlantis eru Atlantisbúar vondu gæjarnir í sögunni. Á eyjunni var vissulega allt í gulli og ríkidæmið var mikið. En Atlantisbúar voru gráðugir og löstugir heimsvaldssinnar sem leituðust við að kúga þjóðirnar við miðjarðarhaf. Aþena aftur á móti var fátæk en íbúar hennar voru dygðugir. Þeir eru góðu gæjarnir í sögunni.

Ef Platon er að tala um draumaríki sitt í þessum samræðum þá er engin leið að það ríki sé Atlantis. Það er þá miklu frekar dygðum prýdda Aþena, sem gefur skít í ríkidæmi og valdagræðgi.

Eins og ég hef áður sagt er líklegt að hér sé ádeila á Aþenu samtíma Platons, sem var einmitt heimsvaldssinnuð, réð öllu í deleyska sjóbandalaginu og blóðmjólkaði bandamenn sína með skattheimtu. Það er tilgangurinn með sögunni.

Að lokum mæli ég með að menn lesi þessar samræður eftir Platon. Krítías er ekki nema um 12-15 bls. og Tímajos sem er mun lengri inniheldur einungis stuttan kafla í byrjun samræðunnar um Atlantis.
___________________________________