“Ég er sá sem ég er!”

Á meðfylgjandi mynd birtast þrjár verur sem hafa táknræna merkingu – http://www.tsl.org/presence/Default.asp – Efst er einstaklingsbundin guðleg vera (monad) mannsins. Tilurð hennar kemur fram í 1. Mósebók 1.27: “Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu”. Myndin táknar æðstu fullkomnun mannsins eins og hann birtist í upprisunni þegar börn Guðs, þ.e. mennirnir, endurfæðast sem synir og dætur Guðs(sjá Prophet, 1993b, s. 373).

Gyðingar ætluðu að grýta Jesús fyrir guðlast því að hann, sem er maður, gerði sig að guði. Jesús svaraði þeim: “Er ekki skrifað í lögmáli yðar: Ég hef sagt: Þér eruð guðir… og allir saman synir hins hæsta?” (Jh 1.33-34; sjá SI 82.6).
Hér koma nokkur dæmi úr heilagri ritningu sem afsanna kenningu kirkjunnar að Guð hafi aðeins átt einn einkason og erfingja krúnunnar (þ.e. kristsvitundarinnar):

… Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn… erfingjar Guðs en samarfar Krists” (King James: Rm 8.14-17). “Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur”(Opb 21.7). “Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs synir. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki” (King James Bibl: 1Jh 3.1) “Því að allir þeir sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs synir. Guð… þóknaðist að opinbera mér son sinn í mér” (Jerúsalembibl. Gal 1.16). “Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir” (SI 29.1). “Synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin” (Jb 1.6). “sáu synir guðs, að dætur mannanna voru fríðar” (1M 2).

Þegar Guð birtist Móse úti í eyðimörkinni spurði hann Guð til nafns. Þá sagði Guð: “’Ég er sá, sem ég er’. Og hann sagði: ‘Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ÉG ER sendi mig til yðar’” (2. M 3.14 – leturbreyting hbraga). Guðsímynd mannsins nefnist ÉG-ER-nærveran (The I AM Presence) í höfuðið á Guði.

Jesús (mannssonurinn) sem hafði náð æðstu mannlegri fullkomnun með upprisu sinni og endurfæðst sem sonur Guðs (guðssonurinn) gat með sanni samkennt sig við föðurinn þegar hann sagði: “Ég segi yður þetta núna, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það er orðið, að ÉG ER SÁ SEM ÉG ER” (Jh 13.19 – leturbreyting hbraga). “Því sagði Jesús: ‘Þegar þér hefjið upp mannssoninn, munuð þér skilja, að ÉG ER SÁ SEM ÉG ER, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér’” (Jh 8.28 – leturbreyting hbraga). Jesús hafði skilið að þar sem hann var eitt með föðurnum talaði hann fyrir munn föðurins. Þetta myndu lærisveinarnir (mennirnir) skilja þegar þeir hefðu náð sama stigi mannssonarins að endurfæðast sem guðssynir í upprisunni.

Jesús sagði: “ÉG ER upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi… (Jh 11.25 - leturbreyting hbraga). “ÉG ER vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig” (Jh 14.6 - leturbreyting hbraga). ÉG ER hinn óbreytti, eilífi og einstaklingsbundni guðsandi í manninum sem er einn og sá sami og í Jesú, sbr. Jesús biður þess að allir sem á hann trúa “séu eitt eins og þú, faðir, ERT í mér og ég í þér” (Jh 17.20,21). ÉG ER nærveran er sannleikurinn, vegurinn, upprisan og líf sérhvers manns í Kristi.

Í fornum egypskum papýrusrullum frá Prisse er sagt frá hinum eina Guði hvers nafn ekki er hægt að nefna… “Nuk pu Nuk”, sem þýðir, “Ég er sá sem ég er”. ÉG ER ávarpið samsvarar einnig ævafornri sanskrítarmöntru, Om Tat Sat Om, sem jógar fara með og íhuga til að verða áskynja um einingu sína við guðdóminn. Í hindúasið nefnist andi Guðs Para Atman sem er einn en birtist í mörgum sem Jiiva Atman (þ.e. einstaklings-andinn).

Móse lýsti ÉG ER nærveru Guðs í sér sem engli Drottins í eldsloga (sjá 2M 3.2-4). Hún kom Jóhannesi fyrir sjónir sem engill er steig af himni ofan, hjúpaðan skýi: “Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar” (Opb 10.1).

Eins og sést á skýringarmyndinni er þessi ímynd af Guði – http://www.tsl.org/presence/Default.asp – “umlukin sjö sammiðja geislahjúpum, þ.e. ljósbaugum, í öllum regnbogans litum (lituðu hringirnir) sem mynda svo kallaðan orsakalíkama mannsins. Þessi hvel orsakalíkamans eru hinar “mörgu vistarverur í húsi föður vors þar sem vér geymum fjársjóði vora á himni” (sjá Mt 6.20; Jh 14.2). Fjársjóðirnir eru orð, tilfinningar og verk, sigrar réttlætisins og áunnar dyggðir sem við höfum tileinkað okkur frá fyrstu tíð. Þegar við förum skynsamlega með frjálsan vilja okkar, sem er sá sjóður sem Guð gefur okkur til ráðstöfunar, losnar kraftur heilags anda úr læðingi sem varðveitist í litabaugunum. Þessi kraftur samsvarar starfsemi orkustöðvanna sjö (chakra) og litageislanna sjö sem við notum til skapandi athafna. Þeir safnast saman í lífsstraum okkar sem hæfileikar og náðar-gáfur (talentur) sem við getum ávaxtað með góðum verkum frá einu æviskeiði til annars (Prophet, 1993b, s. 373).

Með því að bera fram nafn Guðs, ÉG ER, samkennir maðurinn sig við Drottin og staðfestir guðdóm sinn, á jörðu sem á himni, eins og Guð birtist í æðra sjálfi hans. Maðurinn skyldi því hafa hugfast að leggja ekki nafn Guðs við hégóma með ávarpsorðunum ÉG ER þar eð þau vísa til hins guðlega í honum sjálfum, til þeirrar myndar sem Guð skapaði hann í Kristi. Menn skyldu ekki aðra Guði hafa eins og stendur í boðorðunum tíu (sjá 2M 20.1-17; Jes 45.5). Það er hvort eð er ekki um neinn annan Guð að ræða.

Að játast því að ÉG ER vesæll og aumur syndari, sem er sú mynd sem kirkjan heldur að mönnum sem er í besta falli hálfur sannleikur, jaðrar við að kallast guðlast því slík niðurlægjandi orð um nafn Guðs í manninum eru honum ekki samboðin. Sama gildir um aðrar niðrandi athugasemdir sem maðurinn viðhefur um sjálfan sig og aðra í nafni Drottins, þ.e. ÉG ER nærveru sinnar og annarra. Með slíkri afneitun uppsprettu sinnar heggur hann á eigin rætur. Þeir sem misnota frjálsan vilja sinn til illra verka afneita enn frekar ljósgjafa lífs síns, þ.e. ÉG ER nærveru Guðs í þeim sjálfum. Önnur persónufornöfn sem eru notuð með sögninni AÐ VERA gefa einnig til kynna hina hreinu verund og tilvist Guðs í öðrum sem “er það sem hún er”. ÉG ER það sem ÞÚ ERT og VIÐ ERUM það sem Guð ER þar sem við ERUM öll eitt með andanum í Kristi.

Nafn Guðs, ÉG ER, sem börnum Guðs (þ.e. áður en þau endurfæðast sem synir og dætur Guðs), er svo tamt að taka sér til munns í daglegu tali, er eilíf áminning ástríks Guðs til barna sinna um að að þau eru eitt með honum. Til áréttingar sendi Guð son sinn Jesú til að bera sannleikanum vitni að HANN ER í Jesú og öllum þeim sem vilja taka við Orðinu. Það er hinn lifandi Sannleikur sem ER en ekki persóna sem er bundin tíma og rúmi. Andi Guðs í okkur lifir að eilífu en Adam gamli verður að deyja Drottni sínum.

Það er (nafn) Guð(s) í sérhverjum manni sem er fær um að kasta hulunni sem skýlir samsemd mannsins við skapara sinn og vekur náðargáfurnar sem blunda í honum. “Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss” (P 4.12; sjá einnig Kól 1.15-23). “Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig”(Jh 12.44). Jesús á við að menn skyldu trúa á ÉG ER nærveru Guðs í sér sem er sú sama í honum og öllum mönnum en ekki trúa á persónu sína per se. “Faðirinn sem í mér er vinnur sín verk… Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en ég gjöri…” (Jh 14.10-14). Samt telur kirkjan það vera guðlast ef manninum er líkt við Krist hvað þá ef maðurinn er talinn geta orðið honum fremri. Eru þá ekki allir jafnir fyrir Guði? Til áréttingar sagði Jesús: “Verið þér fullkomnir eins og faðir yðar himneskur er fullkominn” (Mt 5.48). Jesús sagði: “Ég tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er” (Jh 14.3). Þetta þýðir að Jesús vildi hjálpa manninum að hljóta sama sess og hann hefur sjálfur, þ.e. að Kristur myndist í okkur svo við verðum jafnokar hans.

Þó að Jesús hafi verið Guði líkur gerði hann greinarmun á persónu sinni og Guði sem er öllum æðri: “Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn” (Mk 10.17,18). Þar af leiðir erum við í hjarta okkar jafngóð og Jesús því að enginn eðlismunur er á guðdóminum í Jesú og í manninum. Þennan greinarmun gerði hann einnig í eftirfarandi tilvikum: “Ég fer til föðurins því að faðirinn er mér meiri” (Jh 24.28). “Það sem ég tala, það tala ég þvi eins og faðirinn hefur sagt mér” (Jh 12.50). “Sá er meiri, sem í yður er en sá sem er í heiminum. Falsspámennirnir heyra heiminum til. Vér heyrum Guði til” (1Jh 4.4,5).

“Áður en Abraham fæddist, ER ÉG”, sagði Jesús (Jh 8.58; leturbreyting hbraga). Maðurinn Jesús varð með öðrum orðum holdgervingur Krists á hérvistarárum sínum með því að íklæðast orðinu og verða full kristbirting ÉG ER nærverunnar. Þessi hreina tilvistarverund Guðs var til fyrir daga Abrahams og Jesú, því að Kristur var í upphafi hjá Guði. “Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er” (sjá Jh 1.13).

Kristur fæddist fyrir tvö þúsund árum í jötu en er ófæddur í hjörtu manna. Jesús varð Kristur þegar hann ummyndaðist í “Ég er sá sem ég er”. Það er einnig köllun okkar mannanna að láta Krist myndast í okkur (sbr. Fl 2.5). “En vér höfum huga Krists” (1Kor 2.16), neista andans. Til þess að vera með honum í upprisunni þarf maðurinn að verða Kristur í Jesú nafni. Hindúi getur orðið eitt með Guði í nafni Krishna sem var holdgervingur Visnú (þ.e. Krists) og búddhamaður í nafni Búddha sem var holdgervingur Dharma (þ.e. Krists). Þeir voru kristbirtar holdtekjur Orðsins. Vissulega er aðeins til einn Guð en hann birtist í Jesú, Krishna og Búddha ásamt öðrum uppstignum vitringum, dýrlingum og meisturum – og öllum þeim sem taka við Orðinu.


Aríusartrúvillan

Kenningin um mannlegan uppruna Jesú ber að sjálfsögðu keim af “Aríusartrúvillu” sem fyrsta alkirkjuráðið í Níkeu reyndi að kveða niður að undirlagi Konstantíns keisara árið 325. Sem verndari kristninnar þótti Konstantín forræði sínu ógnað fengi Aríusakenningin opinbera viðurkenningu. Níkeu trúarjátningin sem höfð er yfir í kirkjum um allan heim byggir á þessari heimatilbúnu samþykkt.

Í þúsund ár hefur kirkjan sett Jesú á stall sem hinn eingetna guðsson sem allir verða að beygja kné sín fyrir til að komast til himna. Þessi misskilda persónudýrkun á Jesú útilokar guðdómleikann í mönnunum sem þeir eiga sömu hlutdeild í og Jesú, sem þeir geta gert tilkall til í Jesú nafni. Það gerist ekki með því að einblína á og hefja persónu Jesú upp til skýjanna heldur með því að tileinka sér eiginleika Krists sem Jesús holdgerði. Jesús er okkur til eftirbreytni þar sem hann sýndi eiginleika Krists með lífi sínu, eins og þegar hann sagði við freistarann á fjallinu: “Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum” (Lk 4.4-8). Jesús er okkur fyrirmynd því hann getur vísað veginn heim til föðurins með fordæmi sínu.

Það er einnig haft um Jesú að “hann var í Guðs mynd en fór ekki með það sem fengi sinn að vera Guði líkur… og varð mönnum líkur” (Fl 2.6). Jesús vildi ekki einskorða guðdóminn við sjálfan sig heldur deila honum með mönnunum. “Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf” (Jh 3.16). Sá sem trúir á Jesú finnur sama Krist innra með sér, sbr. “Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og andi Guðs býr í yður?” (1Kor 3.16).

Jesú fór ekki leynt með mannlegan uppruna sinn er hann sagði: “Það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” (Mt 25.40). Jesús átti við að sami Kristur væri í hinum minnsta bróður sem hinum mesta. Þetta vita blessuð börnin því þau syngja hástöfum í sunnudagsskólanum: “Ó Jesús bróðir besti, og barnavinur mesti…”.

Vissulega er aðeins einn sonur, hinn eilífi Kristur, sem lifir alls staðar og í öllum, orðið sem holdgaðist í Jesú. “En þegar allt hefur verið lagt undir hann… til þess að Guð sé allt í öllu” (1Kor 15.28). “Þar er Kristur allt og í öllum” (Kól 3.11). Til þess að lífsneistinn í brjósti mannsins geti dafnað og náð fyllingu verður maðurinn að veita lífinu í Kisti viðtöku sem er Guðs gjöf. Þá er hægt að gera tilkall til sonararfsins.


Heimildir

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993a. http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2157&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2158&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2159&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2160&mo=bs&epag=

Mark L. Prophet & Elizabeth Clare Prophet. Saint Germain on Alchemy. Formulas for Self-Transformation (Glossary). Summit University Press. Box 5000, Livingston, MT, 59047-5000, 1993b.
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Books&strType=Detail&strCode=1835&mo=bs&epag=

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.