Tölulegar upplýsingar um trúhneigð Íslendinga

Ítarleg könnun hefur verið gerð á trúarlífi Íslendinga sem gefin var út á vegum ritraðar Guðfræðistofnunar árið 1990. Tölulegar upplýsingar sem koma fram í þessari grein byggja á niðurstöðum þessarar könnunar. Ætla má að í meginatriðum hafi trúarafstaða þjóðarinnar ekki mikið breyst frá þeim tíma sem þessi könnun var gerð.

Íslenska þjóðkirkjan getur státað af því að um 90% þjóðarinnar er skráður innan þjóðkirkjunnr þó að einhver fækkun hafi orðið á síðustu árum. Auk þess eru nokkrir hundraðshlutar í öðrum kristnum trúarsamfélögum. 80% þjóðarinnar telja Guð vera til en um 70% telja sig vera trúhneigða, þ.e. trúa á Guð á einn eða annan hátt. 28% biðja reglulega og 64% þegar erfiðleikar steðja að. Trúin skiptir Íslendinga meira máli en aðra Norðurlandabúa.

Hins vegar kemur þessi trúhneigð ekki fram í tölum í kirkjusókn því að aðeins 10% stunda nokkuð reglulega almenna guðþjónustu. Þrátt fyrir sinnuleysi á kirkjumálum eru menn almennt hliðhollir kirkjunni og þjóðríkistrúnni sem tengist þjóðarvitundinni.

Í nokkru samræmi við dræma kirkjusókn játast rúmlega þriðjungur manna kristna trú. Konur og eldra fólk er þar í talsverðum meirihluta. 28% þeirra sem játa kristna trú segist ekki trúa á Jesú sem Guðs son og frelsara mannanna. Bókstafleg túlkun á sköpunarsögu Biblíunnar virðist eiga í enn meiri vök að verjast. Trúað kristið fólk er annt um trúarlegt uppeldi barna sinna og hefur það sjálft notið þess í meira mæli en aðrir. Margir kvarta undan því að fjölmiðlar hafi ekki meira kristilegt efni, einkum fyrir börn.

42% manna trúa á sinn eigin persónulega hátt og eru yfileitt frjálslyndari í siðferðismálum en hinir fyrrnefndu. 72% þeirra afneita guðdómi Jesú en leggja áherslu á siðferðilegt fordæmi hans. Hjá meirihluta þeirra stendur Guð fyrir hið góða í tilverunni sem gefur lífinu tilgang en hefur yfirleitt ekki eins persónulega merkingu og á meðal “rétttrúaðra” kristinna. Afstaða þeirra mótast af fjölhyggju og sjálfumdæmishyggju nútímans og ríkjandi frjálsræðisanda til að velja og hafna í trúmálum eftir geðþótta. Trúin er einstaklingsbundin og einkamál viðkomandi. Nýaldarhyggjan svonefnda er einkennandi fyrir þessa þróun sem einhverjir kristnir gagnrýnendur hafa nefnt “grautartrú vörumarkaðarins”.

Um 85% Íslendinga gefa til kynna að þeir trúi á líf eftir dauðann sem er hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Þar af trúa margir á endurholdgun, þ.e. endurfæðingu í jarðneskum líkama. Það er í samræmi við áhuga Íslendinga á sálarrannsóknum, þjóðtrúnni, dulrænum fyrirbærum og reynslu fyrir dulskynjunum sem kom meðal annars fram í ítarlegri könnun sem Erlendur Haraldsson dulsálfræðingur stóð fyrir. Niðurstöðurnar birtust árið 1978 í ritinu “Þessa heims og annars”.

Hins vegar trúir aðeins um 14% þjóðarinnar að dauðlegum mönnum sé fyrirbúið upprisa til eilífs lífs fyrir trú á Jesú Krist sem er hornsteinn kristinnar trúar. “Hér kemur vafalítið við sögu trú á ódauðleika sálarinnar er virðist hjá mörgum koma í staðinn fyrir trú á upprisu frá dauðum… og áhrif frá spíritisma… þ.e. sálin flytjist á annað tilverustig”, segja þeir Björn Bjarnason og Pétur Pétursson í könnun guðfræðistofnunar. Jafnvel á meðal þeirra sem játa kristna trú eru aðeins 29% sem trúa á upprisuna. 71% kristinna eru því sammála að spíritismi og kristin trú geti vel farið saman. Um 11% þeirra eru þessu ósammála í samræmi við óopinbera afstöðu kirkjunnar. Tæp 42% þeirra sem aðhyllast upprisutrú eru sammála því að kristin trú og spíritismi fari saman en 40% upprisutrúarmanna eru því ósammála.

Í könnun Guðfræðistofnunar kemur fram að guðshugmyndir landans eru oft á tíðum óljósar og byggja á vanþekkingu. Hálfvelgja, yfirborðs- og tækifærismennska virðist einkenna trúarlíf margra sem geti jafnt átt við þá sem játast kristna trú eða aðrar trúarhugmyndir. Þetta breytir ekki þeirri staðreynd að Íslendingar eru tvímælalaust trúhneigðari en flestar nágrannaþjóðir okkar. Það skýtur því skökku við að meirihluti þegna þjóðkirkjunnar hefur ekki hjartfólgna trú á kennisetningum kirkjunnar.


Leiðir til úrbóta

Sjálfsagt á breyskleiki nútímamannsins hér hlut að máli því að ekki er heiglum hent að fylgja refjalausum siðaboðum trúarinnar, samanber orð meistarans: “Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki” (Mt 19.24). Því er skiljanlegt að menn veigri sér við að játast kristninni af heilum hug. Þjóðkirkjan hefur þó sýnt hliðrunarsemi og umburðarlyndi til að höfða til fjöldans til að undirstrika að náð Guðs nái til allra. Hætt er þá við að boðskapur kristninnar útþynnist en þann vanda hefur þjóðkirkjan þurft að búa við.

Helst má ætla að fólk innan óháðu sértrúarsafnaðanna sem er persónulega kristið “taki Guð á orðinu” og játist boðskap ritningarinnar eins og hann leggur sig. Trúarstyrkur þessa ágæta fólks kemur meðal annars fram í ómetanlegu starfi fyrir þá sem hafa orðið undir í lífinu. Eindrægni, náin samskipti og virk þátttaka í guðþjónustu einkennir viðkomandi söfnuði. Fjölbreytt og frjálslegt helgihald óháðu safnaðanna er af hinu góða til að gera sem flestum til hæfis. Þriðjungur fólks vill að guðþjónustan í þjóðkirkjunni sé gerð líflegri og léttari og höfði meira til fólks og daglegs lífs þess. Í þeim tilgangi hafa sumir þjónar kirkjunnar reynt að koma til móts við kall tímans og bryddað á t.a.m. djassmessum, kvöldmessum, æðruleysismessum og ýmis konar útimessum og kyrrlátum þagnarstundum til bænar og íhugunar. Einnig má benda á að sunnudagsskóli kirkjunnar og kristnar ungmennahreyfingar í tengslum við þjóðkirkjuna, svo sem KFUK og KFUM og fleiri, eru rekin með frjálslegu sniði eins og vera ber. Ég tek þó undir með þeim sem finnst eðlilegt að hæfileg þjóðleg íhaldsemi eigi að gæta á hefðbundnu messuhaldi þjóðkirkjunnar, sérstaklega á hátíðarstundum og tyllidögum.

Allt frá tímum endurreisnarinnar hefur heimsmynd kristninnar verið í varnarstöðu gegn framrás vísinda og þekkingar. Á síðustu öld hjó veraldarhyggjan, nýguðfræðin, spíritisminn, guðspekin og nýaldarfræðin enn frekar skarð í einingu kirkjunnar. Ýmsar uppeldis- og ummönnunarstofnanir hafa dregið úr ýmsum hefðbundnum störfum kirkjunnar. Krkjan geldur þess sennilega að áður fyrr átti hún við sundurlyndi og klofnun innan eigin raða að stríða.

Ýmsar kristnar hreyfingar og einstaklingar reyna að spyrna við fæti og beita fjölbreyttu fjölmiðlastarfi til að breiða út orðið eins og kristileg útvarps- og sjónvarpsstöð er dæmi um. Einnig stendur almenningi til boða kristileg fræðsluerindi, námskeið og leshópar, kyrrðarstundir, bænastundir, foreldramorgnar, fullorðinsfræðsla og fleira. Jafnvel má finna kynningu á öðrum trúarbrögðum frá sjónarhóli kirkjunnar. Auk þess má sjá vaxandi vitund um aukna samvinnu á milli kirkjudeilda, samanber samnorrænt kirkjustarf.

Síðast liðin ár hefur verið unnið að markvissri safnaðaruppbyggingu til að skerpa ímynd kirkjunnar. Komið hefur verið á ýmsum úrbótum á stjórnarháttum þjóðkirkjunnar og hún öðlast sjálfstæði í eigin málum þó að hún sé enn fjárhagslega háð ríkisvaldinu. Margir embættismenn kirkjunnar og safnaðarfélagar eru virkir þátttakendur í alls konar líknar- og félagsstörfum og ýmsum menningarmálum, eins og tónleikahaldi, myndlista- og leiksýningum. Ljóst er að flestir ættu að geta fundið sitthvað við sitt hæfi eða geta komið sínum hugðarefnum á framfæri í safnaðarstarfi.

Lengi hefur verið álitamál hvernig kikjan sem stofnun eigi að bregðast við umdeildum siðferðismálum, eins og hjónaskilnuðum, fóstureyðingum, samkynhneigð og jafnréttismálum. Kirkjunni hefur einatt fundist sér skylt að sýna aðhaldsemi í þessum málum með tilvísun í Guðs orð en það finnst frjálslyndari öflum ekki vera alveg í takt við tímann. Ýmsir prestar reyna að svara kalli tímans með því að bregðast við álitamálum út frá eigin samvisku og dómgreind. Ekki eru allir á eitt sáttir um afskipti presta af umdeildum þjóðmálum samkvæmt áðurnefndri könnun guðfræðideildar.


Byggir kirkjan kennisetningar sínar á sandi?

Unnendur kirkju Krists sem hafa staðið fyrir öllum þeim umbótum sem ég hef drepið á til að mæta nýjum tímum hafa sýnt lofsvert framtak. Samt finnst mér að herslumuninn vanti til að kirkjan geti staðið föstum fótum á nýju árþúsundi.

Ég hygg að kirkjunni hafi ekki alls kostar auðnast að sætta andstæður gamla og nýja tímans innan núverandi kenniramma (paradigma) og koma upplýstum nútímamönnum til skilnings og trúar á hefðbundnum kennisetningum kristninnar. Það kemur meðal annars fram í reikulli og heldur ósannfærandi afstöðu til annarra trúarbragða og andlegra strauma í samtímanum sem kirkjan er á skjön við. Þó að kirkjan sé öll af vilja gerð til þess að aðlagast hinu fjölþjóðlega samfélagi sem við búum við á hún við ramman reip að draga vegna þess að grunnkennisetningar hennar virðast kveða afdráttarlaust um aðeins eina leið, eitt ríki og einn Guð sem leiði til eilífs lífs, sbr. eftirfarandi tilvitnanir:

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf (Jh 3.16). Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig (Jh 14.6). Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss (P 4.12; sjá einnig Kól 1.15-23).

Vissulega hafa öll trúarbrögð sína sérstöðu. Ég hef þó ýmislegt að athuga við, að mínu mati, heldur grunnfærnislegum rétttrúarskilningi þjóna kirkjunnar á hinum dulúðuga og torræða boðskap Jóhannesar. Sama gildir um túlkun þeirra á djúphugsaðri framsetningu vitringsins Páls postula, fremsta trúboða kristninnar á fagnaðarerindinu. Tilvitnaði boðskapur Krists hér að ofan afnemur ekki önnur trúarbrögð heldur uppfyllir þau.

Ranghugmyndin um ein rétt trúarbrögð og afbrýðisaman (þ.e. vandlátan) Guð má rekja til gyðingdóms sem kristindómurinn tók í arf. “Menn skyldu ekki aðra Guði hafa" er eitt af boðorðunum tíu (sjá 2M 20.1-17; Jes 45.5). Í eingyðistrú kirkjunnar felst að fyrst Guð sé einn þá hljóti aðrir guðir að vera falsguðir.

Hin meinta hugmyndafræðiveila kristninnar á sennilega verulegan þátt í blöndnum tilfinningum margra til kirkjunnar. Það er leitt ef menn flæmast frá kirkjunni og leiti á önnur mið vegna þess að þeim þyki þeim of þröngur kennisetningalegur stakkur sniðinn.


Byggja kennisetningar kirkjunnar á bjargi?

Til er þekking og vitneskja sem varpa nýju ljósi á fagnaðarerindi Krists og boðskap kirkjunnar. Finni þær hljómgrunn innan kirkjunnar fullyrði ég að grundvallar kennisetningar kirkjunnar geti gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Hið sársaukafulla við þessa endurheimtu þekkingu á boðskap kristninnnar er að hún hróflar við einhverjum viðteknum sannindum. Á hinn bóginn er hún að mínu viti í betra samræmi við fjölhyggju, upplýsingaflæði og vísindaþekkingu nútímans. Trúin ber hvorki að vera í andstöðu við skynsemina og vitsmunina né brjóta í bága við samviskuna. Ég ætla þó að hin endurnýjaða heimsmynd kristninnar afnemi ekki boðskap Krists heldur uppfylli hann (sbr. Mt 5.17).

Kristin trú og siðfræði ristir óneitanlega djúpt í sögu okkar og menningu og kirkjan lætur sér fátt óviðkomandi. Í húsi föður míns eru margar vistarverur, og þar er hátt til lofts og vítt til veggja (sbr. Jh 14.2). Ég hef þann metnað fyrir hönd kirkjunnar, sem er Guðs hús, að hún eigi ekki að vera dragbítur á andlegar umbreytingar nýja tímans. Kirkjan á að vera sönn ímynd fyrir þau heimstrúarbrögð sem frelsarinn ætlaði kristninni að vera þegar hann sagði “farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum” (Mt 28.19).

Ég hef freistað þess að draga saman og túlka eftir mætti þessa stórtæku nýju heimsmynd kristninnar sem mér finnst mæta betur kröfum nýja tímans. Þar sem ýmsar eyður má enn finna í kirkjusögunni, og túlkun á Biblíunni er ekki ávallt einhlít, verður að slá varanagla við sumar niðurstöðurnar sem ég kemst að og verður þá hver að hafa það sem sannara reynist. Ég hef víða leitað fanga að heimildum innan margra fræðigreina og dulhyggjuhefða. Mesta gagn hef ég haft af heimildum sem er af finna á eftirfarandi vefsíðu: <www.tsl.org> .

Ég hef ekki sagt skilið við kristna dulspeki heldur lagt grunnlínurnar, síðan mun ég fylla upp í myndina smám saman. Einnig hyggst ég þess á milli birta greinar um óskyld efni innan dulspekinnar svo allir finni eitthvað við sitt hæfi.


Vígsluathöfn fyrir lesendurna inn í nýja tímann

Ég hef í greinum mínum lagt lykilinn í hendurnar á ykkur lesendum þannig að þið ættuð að hafa í hendi ykkar að túlka ofangreindar og neðangreindar kennisetningar þannig að þær stangist ekki á við heimsmynd nýja tímans. Þeir lesenda minna sem koma með sannfærandi lausnir, sem þurfa ekki endilega að vera þær einu réttu, sýna að þeir hafa öðlast gnósis, þ.e. innsæisþekkingu til að öðlast vígslu inn í nýja tímann. Þeir hafa þar með komist að hinu sanna út frá öðrum hliðstæðum dæmum sem ég hef rakið í ýmsum greinum hér eða þeir hafa öðlast á annan hátt.

það er eitt að vita og annað er að geta komið því frá sér þannig að aðrir skilji. Það er önnur æfing sem ég gef ykkur lesendunum að glíma við og hjálpa hver öðrum til þess. Ég mun grípa inn í eftir því sem þörf krefur og sjá hvort við getum komist að sameiginlegri niðurstöðu þegar allir hafa lagt orð í belg þannig að allir ættu að geta öðlast vígslu inn í nýja tímann.

Eftirfarandi tilvitnanir gef ég lesendum að finna lausnir á:

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf (Jh 3.16).

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig (Jh 14.6). Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss (P 4.12; sjá einnig Kól 1.15-23).


“Þú skalt ekki aðra Guði hafa en mig” (sjá 2M 20.1-17; Jes 45.5).


Heimildir

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Björn Bjarnason og Pétur Pétursson. Trúarlíf Islendinga í ritröð Guðfræðistofnunar, Háskóli Íslands, 1990

Erlendur Haraldsson. Þessa heims og annars. Trú og dultrú á Íslandi. 1979.