Hvað gerist við líkamsdauðann?

Katólska kirkjan, sem er fjölmennasta stofnun kristinnar trúar, boðar að eftir líkamsdauðann fari sálin í gegnum hreinsunareldinn áður en hún er tilbúin að taka bólstað á himnum (sbr. 2. Sam 14.14). Viðtekin viðhorf flestra annarra kirkjudeilda er að eftir dauðann hverfi andinn sem blés lífi í sálina aftur til uppruna síns sem kippi tilverugrundvellinum undan sálinni. “Laun syndarinnar er dauði” (Rm 6.23; sjá Esek 18.4,20). “Hinir dauðu sofa í myrkrinu” (sjá Jb 10.21-22; Dn 12.2). Sálin eigi sér ekki tilverugrundvöll fyrir handan fyrr en hinir sáluhólpnu, lífs eða liðnir, rísi upp á dómsdegi í nýjum himneskum líkama fyrir trúna á Jesú Krist sem rætist með endurkomu hans á efstu dögum til að dæma lifendur og dauða (sjá 1Þ 4.14-17; 1Kor 15.40-57). Eftir það muni Guð skapa nýjan himin og nýja jörð fyrir hina frelsuðu (sjá Opb 21.1-4).

Margar sálarrannsóknir dulsálfræðinga og spíritista gefa ótvírætt vísbendingu um að til sé líf eftir dauðann. Auk þess eru til margar sagnir af fólki sem hefur talið sig sjá svipi látinna eða orðið fyrir svokallaðri reynslu utan líkamans, þ.e. séð sjálft sig utan við líkamann, þegar viðkomandi hefur legið fyrir dauðanum en vaknað svo aftur til lífsins. Hefðbundin skýring guðfræðinga er að útskýra trú spíritista og annarra á líf eftir dauðann að þar séu illar andaverur að verki sem beiti blekkingum til að glepja auðtrúa sálum sýn frá hjálpræðinu. Dulspekin tekur ekki fyrir slíka skýringu en hún útilokar þó ekki aðrar túlkanir. Guðfræðingar á borð við Harald Níelsson, sem var einn af frumkvöðlum sálarrannsókna hér á landi og séra Sigurður Haukur Guðjónsson fyrrum sóknarprestur telja frekar að kirkjan ætti að fagna vísbendingum um líf eftir dauðann sem styrki forsendur guðfræðinnar um tilvist sálarinnar og lífs eftir dauðann.

Samkvæmt guðspekilegum kenningum er sálunum búinn samastaður um stundarsakir eftir líkamsdauðann við hæfi og þarfir hverrar og einnar í misjafnlega langan tíma. Dvalarstaður hinna látnu samsvara hugmyndum trúarbragðanna um himnaríki og helvíti, eða sumarlandi spíritista. Eftir því sem á dvöl sálanna fyrir handan líður stíga þær upp til æ háleitari og fegurri heima í samræmi við áunnin góðverk og dyggðir úr fyrri jarðvistum, sbr. “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” (Jh 14.2). Þessi stund á milli stríða nýtist til þess að hitta ættingja og vini sem horfnir voru yfir móðuna miklu og vinna úr reynslu síðustu jarðvistar sem undirbúning fyrir næstu jarðvist.


Upprisan

Hringrás endurfæðinga og dauða lýkur með upprisunni þegar sálin hefur endanlega greitt upp skuldir sínar og náð þeim þroska að útskrifast úr þeirri skólavist sem jarðlífið er. Fyrir flesta gerist það eftir mörg líf en á öllum öldum hafa verið menn og konur sem hafa lokið jarðvistinni og öðlast eilíft líf á himnum. Í katólskri trú eru þeir nefndir dýrlingar en Meistarar (Chohans) í dulfræðum.

Líf, dauði og upprisa Krists er táknræn birting lögmáls sem mannssálinni er fyrirbúin. Krosstáknið er ævafornt merki fyrir stefnumót manns og Guðs í Kristi, þar sem Orðið varð hold (sjá Jh 1.14). Lóðrétti ásinn táknar stigningu andans niður í efnið og þverbitinn táknar efnið. Þar sem ásarnir mætast renna mótpólarnir saman og sonurinn rís upp og endurfæðist þegar syndaselurinn og gamli maðurinn Adam, er krossfestur og deyr Drottni sínum. Hér vísar dauði syndarinnar og dómsdagurinn til endaloka dauðlega mannsins svo að sálin geti sameinast Kristi og risið upp til eilífs lífs úr hringrás dauða og endurburðar. Þeir sem tilheyra Kristi hafa krossfest holdið ásamt ástríðum þess og girndum. Upprisan er upprisa Krists í okkur frá líkama syndarinnar og dauðans úr gröf dýrslega eðlisins og lægri vitundarinnar. “Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni” (Rm 6.6). Æðra sjálfið í okkur er grafsett í dauðlega sjálfinu, en gröfin hefur ekkert vald til að kviksetja guðdómleikann sem hlýtur óhjákvæmilega að rísa.

“Hinn gamli maður á samkvæmt Guðs orði að deyja… svo að hinn nýi maður, sem er skapaður í Guðs mynd, fái notið sín… að hið gamla eðli sem er andstætt guði, sé afhent stöðuglega til krossfestingar… ” (Benedikt Jasonarson, s. 135; sjá Ef 4.22; Kól 3.9-10). Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér (Gal 2.20).

Páll benti á að maðurinn þurfi stöðugt að deyja og endurfæðast sérhvern dag áður en hann er undir það búinn að rísa upp til eilífs lífs, þ.e. taka daglegum framförum í Kristi, samanber: “Ég dey daglega” (1Kor 15.31 í þýðingu ensku King James Biblíunnar; sbr. líkamsfrumur endurnýjast stöðugt). Jesús sagði einnig: “Hver sem vill fylgja mér… taki kross sinn daglega og fylgi mér” (Lk 9.23; 14.27). Það er ekki á krossinum á Golgata sem maðurinn hlýtur eilíft líf heldur með því að taka vígslu á lífsins tré, sem táknar vegferð mannsins til andlegs þroska, þar til að adamssynir og evudætur íklæðast að fullu ljósi guðssonarins.

Jesús er í raun tákngervingur, birting og hreinn farvegur fyrir alheimskrist. Jesús var þó ekki eini sonur Guðs. Hann var einn af mörgum himneskra sona Guðs sem var útvalinn til að holdgera Krist á jörðu mannkyninu til eftirbreytni á rúmlega tvö þúsund ára tímabili fiskamerkisins. Þegar sál Jesú varð eitt með Kristi endurfæddist mannssonurinn sem sonur Guðs. Á sama hátt ummyndast börn Guðs og endurfæðast sem synir og dætur Guðs í Kristi í upprisunni. “Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður” (Jh 14.20). Guð á nefnilega ekki neinn eftirlætisson sem einn á tilkall til “krúnunnar”. Hér koma tilvitnanir sem sýna að Jesús fór ekki leynt með guðlega köllun hverrar mannssálar:

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau… (Jh 14.12). Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var (Fl 2.5).

Sem vitnisburð um tilvist upprisinna dýrlinga (þ.e. syni og dætur Guðs) í Biblíunni má nefna Enok og spámennina Elía og Móse sem birtust Jesú þegar hann ummyndaðist á fjallinu (Mt. 17.3).

Stóra Hvítbræðralagið er alheimslegur félagsskapur uppstiginna sona og dætra Guðs auk annarra himneskra vera (s.s. höfuðengla og Elóhíma) sem mynda herskara himins, þ.e. innra helgivald sólkerfisins. Þeir vinna með öllum einlægum guðsleitendum og mannvinum að þróun lífsins. Þeir veita mönnum innblástur í listum, vísindum, menntun, stjórnun og andlegum málum. Spámenn Biblíunnar og annarra trúarbragða voru talsmenn þessa félagsskapar fyrir milligöngu heilags anda sem yfirskyggði þá og gerði þeim kleift að taka við boðskap bræðralagsins. Eftir upprisu sína skipa nú nokkrir spámannanna og postulanna mikilvægar stöður innan bræðralagsins. Þar má nefna Jósef “stjúpföður” Jesú sem ég fjallaði um í greininni “Saint Germain, meistari komandi Vatnsberaaldar” á þessari vefsíðu, Maríu guðsmóður,
Abraham sem er fulltrúi vilja Guðs, Pál postula, sem er fulltrúi lækninga og vísinda, og verndardýrlingur efahyggjumanna og trúleysingja auk vitringana þrjá frá Austurlöndum.

Hvítbræðralagið kemur ekki í stað Krists, það myndar líkama Krists. Kristur vinnur í gegnum Hvítbræðralagið og myndar brú á milli Guðs og manna, samanber:

Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr mun tjalda yfir þá… því að lambið sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins (Opb 7.14-17). Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu (Opb 7.11).


Friðþægingarfórn Jesú á krossinum

Kristin trú byggir á því að Jesús hafi tekið á sig syndir mannkynsins þegar hann fórnaði sér á krossinum og bjargaði því frá glötun. Það hefur verið kallað friðþægingarfórnin sem á sér fyrirmynd í því að gyðingar fórnuðu geithafri á páskahátíðinni til að deyja fyrir syndir Ísraelslýðs (sjá 1M 22.1-14).

Kristnar trúarhreyfingar leggja mismikla áherslu á að maðurinn verði einnig að taka sinnaskiptum og trúa á Jesú Krist sem frelsara sinn og leiðtoga lífsins. Meðal annars staðfestir maður það með skírninni og fermingunni.

Páll postuli hefur haldið á lofti friðþægingarkenningunni þó hennar sé ekki beinlínis getið í frumheimildum guðspjallanna. Samkvæmt (kristinni) guðspeki á þessi umdeildi boðskapur Páls postula við rök að styðjast þó hún hafi verið misskilin eða mistúlkuð. Þrátt fyrir að Páll hafi ekki þekkt Jesú þegar hann gekk á meðal dauðlegra manna opinberaði Jesús Kristur Páli fagnaðarerindið sem var útlegging á boðskap guðspjallamannanna (sjá Gal 1.11,12). Hin endurskoðaða friðþægingarkenning er á þessa leið:

Fyrir fæðingu Jesú voru menn komnir í greiðsluþrot sökum “vangoldinna og greiðslufallinna karmaskulda” og útlitið var ekki bjart framundan. Sem Kristur holdi klæddur hafði Jesús umboð til að taka á sínar herðar syndabyrðir mannkynsins með krossfestingunni. Það gerði hann þangað til að mennirnir hefðu öðlast nógan trúarstyrk og þroska til að geta greitt skuld sína, svipað og bankastjóri sem veitir manni skuldbreytingu til að bjarga fallandi víxli, samanber: “Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af” (Mt 24.22).

Jesús hafði sem sagt vald til að fyrirgefa syndir mannanna innan marka lögmálsins þannig að fræðimennirnir ásökuðu hann ranglega um guðlast (sjá Mt 9.1-7; Jh 5.14). Hann fyrirgaf mönnum syndirnar með því að gera byrðina léttbærari: " Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld… Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt" (Mt 11.28,30). Með fordæmi sínu gaf Jesús mönnum reisn og kraft heilags anda til að feta í fótspor hans og standa eigin reikningsskil: “Því að sérhver mun verða að bera sína byrði” (Gl 6.5). “Hver sem vill fylgja mér… taki kross sinn daglega og fylgi mér” (Lk 9.23; 14.27). Hann gerði með öðrum orðum byrðar daglegs lífs léttbærari svo menn gætu með stolti verið borgunarmenn fyrir eigin skuldir.

Jafnvel þó að Jesús væri allur að vilja gerður gæti hann ekki þurrkað út syndaregistur mannsins “með einu pennastriki”, syndir sem ná milljón ár aftur í tímann og til ókominna kynslóða. Ekki einu sinni skírðir trúmenn sem taka við Jesú og játa honum syndir sínar fá sjálfkrafa syndaaflausn í eitt skipti fyrir öll. Til þess er maðurinn of bundinn við karma sem hefur mótað sjálfsvitundina sem hann lifir og hrærist í. Við erum samofin karma okkar. Því verður að gróðursetja orðið sem frelsað getur sálina áður en það ber fullan ávöxt (sjá Jk 1.21).

Sú kvöð fylgir lögmálinu að syndaaflausnarinn (frelsarinn) verður að sjá til þess að syndarinn sem hann greiðir skuldina fyrir læri þá lexíu sem karmalögmálið átti að kenna honum, að viðkomandi iðrist synda sinna og hann að endingu endurgreiði lífinu fyrir náðargjöf fyrirgefningarinnar með þjónustu, íhugunum og bænum – þetta uppfyllti Jesús.

Áherslumunur hefur lengi verið á milli lútersk-evangelísku og katólsku kirkjunnar varðandi þá spurningu hvort maðurinn réttlætist fyrir trú eða verknað þó að nú sé að nást sættir um að hvoru tveggja verði að haldast í hendur. Jesús áminnti að ekki væri nóg að játa trú sína, það yrði að láta verkin tala: " Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‘Herra, herra,’ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns" (Mt 7.21). Í næsta erindi gefur Jesús einnig til kynna að ekki sé nóg að gera góð verk ef rétt hugarfar (trú) er ekki fyrir hendi. Einnig varar postullinn Jakop við að trúin sé dauð án verka (sjá Jk 2.26).

Í fjallræðunni er gefið til kynna að menn komist ekki hjá því að gera reikningsskil: “Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram” (Mt 5.18). “Á yður eru jafnvel öll höfuðhárin talin” (Mt 10.30). Jesús sagðist ekki vera kominn til að afnema lögmálið heldur uppfylla það (sjá Mt 5.17). Hann samsinnir óskeikanleika og ófrávíkjanleika Móselaganna: samanber, “Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla” (Mt 26.52). Jesús hafði greitt skuldir mannanna og fyrirgefið þeim syndirnar en til þess að uppfylla ákvæði lögmálsins þyrftu menn að taka á móti fyrirgefningunni sem Jesús hafði fyrirbúið þeim og sýna öðrum sáttfýsi og þjónustu. Í raun er þetta ákvæði sama sem kirkjan boðar ef grannt er skoðað.

Skuldbreytingin og kærleiksfórn Krists er fyrirbúinn öllu mannkyninu án tillits til trúarskoðana því lögmálið og uppfylling þess er óháð öllum trúarbrögðum því Guð lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta (sbr. Mt 5.45). Það eitt að vera góður og gegn maður er nóg trygging fyrir því að uppfylla ákvæði lögmálsins um fyrirgefningu syndanna eða uppgreiðslu karmaskuldanna eftir því hvaða skilning menn legga í hugtakið. Til lúkningar skuldarinnar hefur maðurinn ótal jarðvistir til ráðstöfunar eins og lýst er í greininni um karma og endurburðarlögmálið.


Hinir efstu dagar

Skuldbreytingin á syndum mannkynsins sem Jesús tók á sínar herðar var sérstök undanþága á tímabilinu sem kennd er við fiskamerkið í stjörnuspekinni sem jafnframt er einkennismerki kristninnar. Þetta tímabil nær yfir rúmlega tvö þúsund og eitt hundrað ár. Dómsdagsspádómar Biblíunnar sem vísað er í byrjun þessarar greinar getur annars vegar átt við hvert skipti sem sál dæmist til endurtekinna endurfæðinga og dauða í holdinu þar til hún rís upp á efsta degi (sínum) til eilífs lífs. Tími upprisunnar er einstaklingsbundin fyrir sérhverja sál innan vissra marka. Hins vegar geta hinir efstu dagar einnig átt við að skuldbreytingatímabilið sem Jesú kom á fót með friðþægingarfórn sinni sem sé að renna út við endalok fiskatímabilsins. Að vissu leyti verður mannkynið að vera búið að gera upp skuldirnar til þess að nýi tíminn (“hin nýja Jersúsalem” – sjá Opb 21.2) sem fram undan er, þ.e. gullöld Vatnsberatímabilsins, renni upp bjartur og fagur. Ekki er hér um að ræða alls herjar ragnarök þó að í það sé látið skína í spádómsbókum Biblínnar og Völuspá, heldur að fæðingarhríðirnar inn í nýja tímans geti verið sársaukafullar ef ekki komi til almennar viðhorfsbreytingar og bætt ástand heimsmála á komandi tímum. Andleg vakning síðustu áratuga og barátta fyrir umhverfis- og mannréttindamálum er teikn þess að mannkynið sé að vakna til vitundar um að tími sé kominn til að létta af skuldabyrðinni.


HEIMILDASKRÁ

Benedikt Jasonarson. Ávöxtur andans. “Grundvöllurinn er Kristur”, 1978, s.135.

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993.
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2158&mo=bs&epag=

http://www.tsl.org/Masters/AscendedMasters.asp

Erlendur Haraldsson. Þessa heims og annars. Könnun á dulrænni reynslu Íslendinga, trúarviðhorfum og þjóðtrú. Saga. Reykjavík, 1978.

Gunnar Kristjánsson. Ritskýring og túlkun Biblíunnar. Úr Mál og túlkun. HÍB, Reykjavík, 1981.

Herbert Sundermo. Biblíuhandbókin þín. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1974.

Thomas A Kempis. Breytni eftir Kristi. Kaþólska kirkjan á Íslandi, 1955.

William Barclay. Leiðsögn um Nýja testamentið. Skálholtsútgáfan, Reykjavík, 1993.