Endurgjaldskenningin – Karma

Öll þjóðfélög byggja á lögum og reglum sem tryggja eiga velferð þegnanna. Ýmis viðurlög og ákvæði sem fela í sér umbun eða refsingu eiga að gæta þess að eftir þeim sé farið. Lögin vísa einatt til siðferðislegra og trúarlegra gilda. Hinsta réttlæting laganna nær handan við gröf og dauða kenna trúarbrögðin en þá þurfa menn að gera endanlega upp reikningsskil gerða sinna. Oft hugsa hinir trúuðu sér að umbun hinna réttlátu sé eilíft líf í jarðneskri paradís eða sæluvist í himnaríki en hinna ranglátu bíði dauði og djöfull í hel.

Vísindin byggja á löghyggju orsaka og afleiðinga, þ.e. að heimurinn starfi eftir ófrávíkjanlegri reglufestu náttúrulögmálanna. Vísindin læra að beisla náttúruöflin í þágu framfara. Brjóti menn gegn þeim hefnist þeim fyrir og þeir læra af mistökum sínum eins og brennd börn sem forðast eldinn.

Dulspekilegt lögmál hljóðar svo: “svo á himni sem á jörðu”. Það þýðir að sömu lögmál gilda um þennan heim og annan. Því má líkja við að Platon taldi að efnisheimurinn væri aðeins dauft endurskin af heimi frummyndanna.

Samkvæmt þessu gildir orsakalögmálið einnig á huglægari sviðum. Orsaka- og endurgjaldslögmálið sem nefnist karma í austurlenskum fræðum er samhljóða þriðja lögmáli Newtons sem hermir að hver hreyfing skapi andstæð viðbrögð. Orka getur hvorki skapast né eyðst heldur umbreyst, samkvæmt eðlisfræðinni.

Ýmislegt getur komið í veg fyrir að andstæð viðbrögð orkunnar komi fram við þeirri hugsun eða athöfn sem á sér stað hverju sinni. Í eðlisfræðinni er það kallað stöðuorka sem leysist úr læðingi þegar ákveðnum þröskuldi er náð og viðnáminu eytt. Þannig fer ekkert forgörðum, sama á við mannlega viðleitni enda “…mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram” (Mt 5.18).

Endurfæðing í jarðneskum líkama er þar af leiðandi nauðsynleg, samkvæmt karmakenningunni, því að ekki er hægt að uppfylla lögmálið á einni ævi vegna uppsafnaðra karmaskulda, þ.e. þar til losnað hefur um stöðuorkuna og hún náð eðlilegu jafnvægi við umhverfiskraftana.

Þar sem hverri hreyfingu (s.s. tilfinningu, hugsun og gjörð) fylgir samsvarandi andsvar fylgir því að “það sem maður sáir, það mun hann og uppskera” (Gl 6.7-10). Af því að leiðir að menn læra af því að reka sig á, því enginn verður óbarinn biskup. Þeir súpa að endingu seyðið sem öðrum hefur verið bruggað. Menn læra því af mistökunum og láta sér því lexíuna að kenningu verða.

Þetta orðaði Páll postuli á þann hátt: [Karma-]Lögmálið er heilagt, réttlátt og gott. Það birtir dóm og ákæru ritningarinnar gegn mönnum (sjá Rm 6.23). Það stendur gegn syndinni og syndaranum og fyrir [karma-]lögmál kemur þekking syndar (sjá Rm 3.19-20).

Mennirnir tyfta í raun sjálfa sig og neita sér um náð Guðs frekar en að Guð refsi mönnum fyrir syndirnar þar sem Guð vor er miskunnsamur faðir samkvæmt kristinni trú. Væri engin synd þyrfti ekkert lögmál, segir Páll (Gal 3.24). “Lögmálið [er] afl syndarinnar” (1Kor 15.56). Lögmálinu er í grundvallaratriðum lýst í Mósebók svo að láta skuli “tönn fyrir tönn og auga fyrir auga…” (2M 21.24). Boðorðin tíu og aðrar reglur gyðngdómsins um rétta breytni og siði má rekja til lögmálsins. Í lögmálinu felst að menn verði réttlættir og dæmdir fyrir gjörðir sínar.


Endurburðarkenningin

Ýmsar sagnir með misjöfnu sannleiksgildi eru til um fólk sem telur sig muna fyrri jarðvistir. Ian Stevenson skrifaði bók um tuttugu tilvik sem benda til endurburðar. Eitt tilvikið greinir frá þriggja ára indverskri stúlku að nafni Shanti Devi sem dulsálfræðingar hafa ítarlega rannsakað. Shanti kvaðst eiga mann og börn í nærliggjandi borg sem hún nafngreindi og lýsti aðstæðum þess. Frændi hennar fann fólk sem lýsingar hennar áttu vel við. Til að mynda fundust peningar úti í garði fólksins sem hún sagðist hafa grafið áður en hún dó. Svo virðist sem að forsjónin sjái til þess að flestir muna ekki fyrri líf enda reyndist litlu stúlkunni erfitt að lifa tvöföldu lífi.

Á bernskustigi sálarinnar reiðir maðurinn sig á höpp og glöpp sem gerir hann að leiksoppi örlaganna. Maðurinn sér yfirleitt ekki orsakasamhengi á einni ævi, hvað þá heldur á milli jarðvista, þar sem meðvitundin (egóið) sér bara yfirborð ísjakans. Sálgreinendur fullyrða að hegðun manna og lífsviðhorf mótist mikið af löngu gleymdri og ómeðvitaðri lífsreynslu, oft frá frumbernsku. Sálin lærir sem sagt sína lexíu af fyrri mistökum og reynslu þó að meðvitaði hugurinn sé lengur að taka víð sér. Fyrir atbeina karma-lögmálsins eykst manninum viska og vitund þar til honum verður ljósar orsakasamhengi tilverunnar, sem nær út fyrir gröf og dauða, þar sem ekkert er tilviljunum háð. Út frá heildarsýn sinni bregst hann rétt við aðstæðunum og hefur betri stjórn á eigin lífi.

Áunnin reynsla greypist í dýpri lög vitundarinnar sem sálrænt forrit (samskara). Hún erfist svo á næstu jarðvistarskeiðum sem meðfæddir hæfileikar, líkamsburðir, hneigðir, dyggðir og lestir. Mósart sem samdi tónverk sjö ára gamall gæti verið dæmi þar um. Fyrir tilverknað karma-lögmálsins skapast þær kringumstæður þar sem maðurinn fær tjáð karma-eigindir sínar.

Fyrir Guðs náð fær hver sál mörg tækifæri til að gera upp sakirnar vegna fyrri synda þar til að viðkomandi hefur lært að lifa í samræmi við lögmálið. Því má líkja við að hver sál sem “fellur” í skóla lífsins við hverja jarðvist þurfi að taka aftur upp prófin áður en hún geti komist á æðra skólastig. Það sem maðurinn gerir í dag og á morgun er ákvarðandi fyrir stjörnukort viðkomandi, heilsu hans, erfðir, fjölskyldu og umhverfi í næstu lífum.

Spyrja má hvort að nokkuð ótrúverðugra sé að Guð hafi látið sál eins manns fæðast einu sinni í líkama fekar en mörgum sinnum. Skyldi ekki vera betra að endurholdgast en að fara til Hadesar? Þar sem Guð er sagður réttlátur skýrir karma fyrri jarðvistarskeiða misjafnt hlutskipti manna, hvers vegna sumir fæðast með silfurskeið í munni meðan aðrir líða skort. Þó getur gott eða slæmt karma haft afstætt gildi, því að sterk bein þarf til að þola góða daga, samanber: “Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki” (Mt 19.24), og “Drottinn agar þann sem hann elskar” (Heb 12.6; Opb 3.19), samanber hrakfarir Jobs (sjá Jb).

Á Indlandi, þar sem mikil fátækt og vesöld er landlæg, hefur gjarnan verið litið á karma sem bölvun fyrri jarðvistarskeiða sem þröngvi mönnum til að endurfæðast inn í þennan þjáða blekkingarheim og táradal. Karma jafngilti einatt örlagatrú eða forlagahyggju, að eigi megi sköpum renna. Aðeins prestastéttin (brahmínar) gæti frelsast undan þessari áþján með ströngum helgisiðum og meilætalífi. Rétttrúuðum hindúum láðist að athuga að íhlutun í slæm örlög í því skyni að veita hjálp megi alveg eins túlka sem uppfyllingu góðs karma frá fyrra lífi.


Endurburðarkenningin í kristinni trú

Endurburðarkenninguna var að finna hjá mörgum mennngarþjóðum bæði fyrr og síðar þó að hún hafi náð mestri útbreiðslu og þróun á Austurlöndum. Hana má finna stað í ritum grískra heimspekinga á borð við Pýtagoras, Platón og Plótínus eða í umsögnum um þá. Gyðingar á hérvistardögum Jesú þekktu hana og kölluðu gilgal (þ.e.hjól, hringrás). Hasidia-regla Gyðinga, sem hefur dulspekilegar rætur í fortíðinni, trúir a karma og endurfæðingu. Þeir telja að hinir réttlátu, sem lokið hafa karmískri þróun sinni, geti valið að endurfæðast aftur til að hjálpa mönnum.

Fyrstu kristnu mönnunum var einnig kunnugt um gilgal. Holdtekjukenninguna var að finna hjá nokkrum helstu kirkjufeðrum frumkristninnar eins og Klementi frá Alexandríu, Origen og Gregory frá Nyssa. Origen sagði að sálin hefði verið til frá upphafi vegu og fæðst ótal sinnum inn í þennan heim og ætti margar jarðvistir ólifaðar áður en hún næði lokamarki sínu. Þegar sálirnar næðu fullkomnun í fyllingu tímans sameinast þær hinu guðlega eðli sem þær spryttu úr. Einnig er hún í guðfræðiritum nokkurra frumkristinna safnaða, hjá Essenum og Nasareum, og í öðrum skjölum frá sama tíma.

Árið 553 bannlýsti fimmta alkirkjuráðið í Konstantínópel, að undirlagi Justiníusar keisara, kenningu Origens kirkjuföður um fortilveru sálarinnar sem villutrú. Það kippti að sjálfsögðu stoðunum undan endurburðartrúnni. Saga segir að kona hans Þeódóra hafi verið þar að verki til að firra sig ábyrgð á því að hún lét útrýma vændiskonum borgarinnar svo að ekki kæmist upp um vafasama fortíð hennar. Þar sem kirkjan var handhafi guðsvaldsins á jörðu gefur auga leið að þetta bann auðveldaði trúaryfirvöldunum að hafa ráð almúgans í hendi sér. Menn hefðu nefnilega bara eitt jarðneskt líf til ákvörðunar hvoru megin heims og helju sálinni væri búinn framtíðarsamastaður. Þetta eru ranghugmyndir sem ollu glundroða og misnotkun á valdi innan kirkjunnar. Næst væri að halda að sannleikurinn hafi í þeirra augum verið hættulegur þar sem hann gerði menn frjálsa (sjá Jh 8.32).

Afneitun kirkjunnar á endurburði hefur haldist fram á okkar daga þó að finna megi dæmi þess að ritstjórum Biblíunnar hafi yfirsést ýmis merki kenningarinnar. Hér koma nokkur dæmi:


1) Blindi maðurinn sem Jesús gaf sýn:

Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur? (sjá Jh 9.1-7).

Hvernig gat synd verið orsökin fyrir blindu mannsins þar sem hann var fæddur blindur? Voru lærisveinarnir að gefa í skyn að hann hefði syndgað í fyrra lífi og hafi verið að gjalda fyrir það í þessu lífi? Lærisveinunum var einnig kunnugt um Móselögin þar sem Guð er sagður vitja misgjörða feðranna á börnum og barnabjörnum í þriðja og fjórða lið (sjá 2M 20.5; 34.6-7). Jesús virðist samsinna því að syndir frá fyrra lífi séu hugsanlegar þar sem hann gerir ekki athugasemdir við að þeir gangi út frá svo umdeilanlegri kenningu. Jesús afneitar því með öðrum orðum ekki að blinda hans gæti hafa stafað af syndum frá fyrra lífi eða vegna erfðagalla frá foreldrum þó að hann hafi haft aðra skýringu á takteinum (sjá Jh 9.3).

2) Guðfræðingurinn Günther Schwarz endurþýddi upprunalega gríska texta guðsjallanna á frummálið aramísku. Meðfylgjandi leiðrétting hans á eftirfarandi tilvitnun gefur ótvírætt til kynna að Jesús hafi verið að fræða faríseann Nikómdemus um endurburð:

Enginn getur endurheimt Guðs ríki nema hann fæðist aftur og aftur. Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst aftur og aftur, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst? Jesús svarað: Enginn getur komist inn í Guðsríki nema hann fæðist af vatni og anda (Jh 3.3-4,7).

Í hefðbundnum biblíuskilningi vísar þessi texti til afturhvarfs, endurfæðingar, endursköpunar og hreinsunar með skírninni til andlegt lífs fyrir trúna á Jesú Kristi (sbr. P 2.38; 9.17-18; Rm 6.3-4). Samkvæmt endurburðakenningunni verður viðkomandi að endurfæðast í andlegum skilningi til að binda endi á hringrás endurfæðinga og dauða í holdinu og rísa upp til himna.

3) Jesús og fleiri gefa við ýmis tilefni til kynna að sál Elía hafi endurfæðst í líkama Jóhannesar skírara: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki. Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara (Mt 17.10-13; sjá Ml 4.5; Lk 1.17; Jh 1.19-25; Mt 11.10,13-15; 16.13-16).

Upprisnar sálir eins og Elía spámaður endurfæðast að vísu ekki í jarðnesku líki nema sjálfviljugar við sérstök tilefni samkvæmt guðspekinni, sem styður gilgal-kenningu Hasidíma-gyðinga.

4) Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig (Jer 1.5).

5) Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna (Ok 8.22-31).

6) Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi… (Ef 1.4).

7) Origen kirkjufaðir undraðist, eins og Páll postuli, að það hafi verið réttlátt af Guði að segjast hata Esaú en elska Jakop áður en þeir komu í móðurkvið. Origen ályktaði að Guð hlyti að hafa valið Esaú vegna þess að hann hefði verið betri maður en Jakop í fyrra lífi (sjá Rm 9.11-14).


HEIMILDASKRÁ

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1. Summit University Press, 1993 http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2157&mo=bs&epag=.

Herbert Sundermo. Biblíuhandbókin þín. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1974.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Ian Stevenson. Twenty Cases Suggestive of Reincarnation. NY, American Society for Psychical Research, 1966, 17, 306-307.

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.

Yogi Ramacharaka. Yoga heimspeki. Fjórtán fræðastundir. Vasaútgáfan, Reykjavík, 1987.