Eins og guðspjöllin bera með sér hafði Jesús undravert vald yfir lögmálum efnisheimsins. Þó að kraftaverk verði seint sett undir vísindalega mælistiku er ef til vill hægt að fá betri skilning á náðargáfum Jesú með því að skoða þær í sögulegu og trúarlegu samhengi eins og önnur trúarfyrirbæri.

Á öllum tímum hafa menn þótt greina ókunn og dularfull öfl að verki í náttúrunni. Menn hafa gefið þeim ýmis nöfn og guðaheiti og reynt að hafa áhrif á þau fram á þennan dag með áköllum, bænum, fórnfæringum, töfrum og særingum.

Þeir sem geta beitt þessum huldu kröftum hafa áunnið sér aðdáun og óttablandna virðingu samtímamanna sinna og stundum verið dýrkaðir og teknir í guðatölu. Þessir menn og konur hafa verið kallaðir nöfnum eins og spámenn, seiðmenn, töfralæknar, særingarmenn, trúarheilarar og undramenn eða jafnvel skottulæknar og loddarar. Svo virðist vera sem að miklir trúarleiðtogar sem komið hafa sem fulltrúar Guðs á jörðu hafi þurft að sannfæra fjöldann um guðlegt vald sitt með því að grípa til undra og stórmerkja.

Í Palestínu á tímum Jesú var töluvert af slíkum undramönnum sem gátu sér misgóðs orðstís. Svo virðist sem að samtíma sagnariturum hafi ekki þótt “töfravald” Jesú í frásögur frærandi eftir undirtektum þeirra að dæma. Aftur á móti má telja Jesú til tekna að hann virtist ekki hafa hampað þessum hæfileikum sínum.

Guðfræðin hefur löngum litið á að kraftaverk væru óháð náttúrulögmálunum. Frá eindurreisnartímunum fóru menn að leita skynsamlegra skýringa á kraftaverkum Jesú í gjöspjöllunum í samræmi við lögmál vísindanna án þess að hafa erindi sem erfiði. Dulspekingurinn álítur að kraftaverk og önnur dulræn fyrirbæri lúti æðri lögmálum en þeim sem vísindin kunna skil á. Með þjálfun og andlegri ögun geti hver maður gert kraftaverk líkt og Jesú. Breski miðillinn Daniels Douglas Homes á 19. öld sýndi við mörg tækifæri hæfni til að flytja hluti og sjálfan sig með hugarorkunni. Ekki færri en 230 katólskir dýrlingar eru sagðir hafa haft hæfileikann til að takast á loft.

Jesús útskýrði fyrir lærisveinum sínum að þeim hafði misheppnast að reka illan anda úr manni vegna skorts á trú: “Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn” (MT 17.20).

Andlegi meistarinn og undramaðurinn frá Indlandi, Sri Sai Baba, er að margra mati gæddur ótrúlegum kraftaverkahæfileikum.

Menn geta hæglega misnotað hinn guðdómlega sköpunarmátt sinn og beitt honum til ills en karmalögmálið sér til þess að þeir fá makleg málagjöld segja dulspekingar. Hver sem noti þau af síngirni og eiginhagsmunasemi missir þerssar náðargáfur að lokum.

Jesús gerði einkum kraftaverk í mannúðarskyni. Hann læknaði sjúka, geðveilaða og lamaða og lífgaði við látna. Hann breytti vatni í vín, mettaði 5000 manns, gerði sig ósýnilegan og gekk á vatni. Lærisveinum sínum gaf hann mátt heilags anda til að lækna, reka út illa anda og gera önnur tákn.

Eins og með aðrar frásagnir af Jesú eru til hliðstæðar sögur og fordæmi fyrir kraftaverkum hans í menningarsögu Evrópu og Asíu. Búddha kvað hafa gert mörg kraftaverk sem sum hver minna á kraftaverk Jesú. Búddha læknaði sjúka, gaf blindum sýn, daufum heyrn og lömuðum mátt. Lærisveinum sínum gaf han vald til þess sama.

Líkt og Jesús var Búddha á móti því að nota kraftaverk til sýndarmennsku þó að fylgismenn beggja hafi gert veður út af þessum gjörningum þeirra. Þeir lögðu greinilega ekki að jöfnu andlegan þroska og kraftaverkahæfileika. Búddha fannst til dæmis lítið til koma að jógi einn hafði æft sig í tuttugu og fimm ár til að geta gengið yfir vatn. Búddha benti á að hann hefði getað sparað sér ómakið með því að borga ferjumanni smáaura fyrir vikið.